Kirkjuritið - 01.06.1954, Blaðsíða 6
244
KIRKJURITIÐ
þessir menn reyndu kraft andans, heldur einnig í daglegu
lífi, eins og postulinn, sem svo var á valdi hinnar himnesku
handleiðslu, að hún tekur blátt áfram í taumana og ræður
ferðum hans.
Af lindum þessarar reynslu jusu menn kraft. Þeir lifðu
í jarðneskum hversdagsheimi, héldu áfram að eiga þar
baráttu sína og erfiðleika, vonbrigði sín og vonafylling,
en jafnhliða fundu þeir hinn ójarðneska veruleika yfir-
skyggja sig, fundu, að jafnhliða voru þeir þegnar í heimi
andans, og þess vegna gat andinn leitt þá á refilstigum
þessa hatursfyllta heims, þar sem blóðugt píslarvætti varð
þrásinnis sigursveigur hinna göfugu og góðu. Jörðin var
veruleikur. Á Golgata hafði hún drukkið blóð Drottins,
og hún geymdi þyrna í hverju spori handa þeim, sem
vildu lifa lífi Krists. En jörðin var ekki eini veruleikinn.
Yfir þeim hvelfdist himininn, sem lausnari þeirra lifði nú í,
og daglega var heilagur andi að bera þessum æðra heimi
vitni, ýmist með undrum, kraftaverkum og opinberunum,
eða með þeirri hljóðlátu en öruggu handleiðslu, sem þeim
var gefin með sérhverri nýrri dagsbrún, er upp á him-
ininn færðist.
Þannig var líf hvítasunnumannanna. Frá þessum dýr-
legu vordögum kristninnar eru liðnar 19 aldir, — og hvað
er nú?
Nú eigum vér flóknar útskýringar á því, hver heilagur
andi sé, svo flókin guðfræðikerfi, að fáir kunna full skil
á þeim. En þekkjum vér kraft andans eins og frumkristnin
þekkti hann?
Erum vér oss daglega meðvitandi um þennan guðlega
veruleika? Er nokkur nútímaferðasaga skráð á sama hátt
og þetta brot úr ferðasögum Páls: „Og þeir fóru um
Frýgíu og Gaiataland, en heilagur andi varnaði þeim að
tala orðið í Asíu. Og sem þeir voru komnir að Mýsíu,
gjörðu þeir tilraun til að fara til Bitýníu, en andi Jesú
leyfði þeim það eigi“?