Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Side 25
að greina hver er hin raunverulega rót vandans. Mikilvægt er að ekki verði gripið
til alvarlegri aðgerða en nauðsynlegt er hverju sinni. Þó verður að meta
heildaraðstæður og huga vel að því hvernig hagsmunir barnsins verði best
tryggðir, bæði á þeirri stundu þegar ákvörðun er tekin og þegar til lengri tíma er
litið. í lögunum er gengið út frá því að barnaverndarnefnd komi til hjálpar með
stuðningsaðgerðum þegar það á við, áður en gripið er til svokallaðra þvingunar-
aðgerða. Stuðningsúrræðum skal að jafnaði beita í samvinnu við foreldra.
Aðstoð getur falist í því að leiðbeina foreldrum, útvega barni eða fjölskyldu
tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu, útvega barni
dagvist eða skammtímavistun á öðru heimili, aðstoða foreldra við að leita sér
meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónu-
legra vandamála. Ef samvinna við foreldra tekst ekki er í vissum tilfellum unnt
að grípa til þvingunarúrræða. Geta þvingunarúrræði varðað 1) ákvörðun um
eftirlit með heimili, 2) að barn verði fjarlægt af heimili, 3) að ekki megi fara með
barn úr landi eða 4) forsjársviptingu sem er augljóslega langalvarlegasta
aðgerðin af þeim sem hér hafa verið taldar. Lagaskilyrðin fyrir forsjársviptingu
eru mun nákvæmari og betur skilgreind en skilyrðin í eldri lögum, en ávallt er
það þó háð mati hvaða aðgerðir eigi best við hverju sinni. Mat þetta er yfirleitt
mjög vandasamt, sérstaklega þegar erfitt er að greina hvaða aðgerðir tryggi best
hagsmuni og öryggi barnsins.
11. HELSTU NÝMÆLI f LÖGUNUM
Ekki er unnt að fjalla nánar um einstök atriði í hinum nýju lögum en til að
auðvelda yfirsýn yfir efnið er rétt að benda á kaflann í greinargerð með
lagafrumvarpinu sem ber heitið „Helstu nýmæli frumvarpsins" en þau eru :
1. Yfirstjórn barnaverndarmála verður ífélagsmálaráðuneytinu í stað mennta-
málaráðuneytis.
2. Barnaverndarráð fer einungis með úrskurðarvald í málum sem þangað er
skotið en hefur hvorki leiðbeiningarskyldu við barnaverndarnefndir né
yfirumsjón með störfum þeirra.
3. Barnaverndarumdæmi verða stækkuð.
4. Skýrari ákvæði eru um skyldur barnaverndarnefnda.
5. Lagaákvæði um réttarstöðu barna í fóstri eru mun ítarlegri en í eldri lögum.
6. Skýrari og strangari málsmeðferðarákvæði.
7. Réttarstaða barna er bætt.
8. Felld eru brott ákvæði um skoðun kvikmynda og gert ráð fyrir að þau verði í
lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum.
255