Ægir - 01.09.2000, Blaðsíða 20
HAFRANNSÓKNIR
Stofnmæling úthafsrækju:
Jákvæð teikn á lofti en of
snemmt að fagna
Hafrannsóknastofnunin kynnti nú í byrjun september-
mánaðar bráðabirgðaniðurstöður úr stofnmælingu á út-
hafsrækju sem fram fór á rannsóknaskipinu Dröfn fyrr í
sumar.
Rannsökuð voru öll helstu svæði úthafs-
rækjunnar fyrir norðan og austan land og
þykja bráðabirgðaniðurstöðurnar sýna að
úthafsrækjustofninn virðist vera að rétta
við á nýjan leik en sem kunnugt er hefur
rækjustofninum hrakað undanfarin þrjú
ár. Unnur Skúladóttir, verkefnisstjóri hjá
Hafrannsóknastofnuninni, varar þó sterk-
lega við oftúlkun á niðurstöðunum.
„Vísitala stofnstærðar, samkvæmt
fyrstu útreikningum, mælist nú 43%
hærri en á síðasta ári og það er vissulega
vísbending um batnandi ástand. Hér
verður þó að hafa í huga að margir þætt-
ir spila saman og geta allt eins haft þau
áhrif að um ofmat sé að ræða. Nægir þar
t.d. að nefna þætti eins og veðurfar og
slíkt á meðan á rannsókninni stóð. Mæl-
ingar okkar voru framkvæmdar við mjög
góð skilyrði í sumar og slíkt getur haft
áhrif.
Sömuleiðis getur þorskgegnd á svæð-
inu átt eftir að hafa áhrif á uppbyggingu
stofnsins en afrán þorsksins er sá þáttur
sem mestu ræður um uppbyggingu
rækjustofnsins. Það má segja að það atriði
sem stofnmælingin leiddi skýrt í ljós er
að nýliðun er meiri í stofninum á rækju-
miðunum en verið hefur og það getur
vakið hjá okkur vonir um aukningu í
rækjuveiðunum innan tveggja ára, verði
öll skilyrði hagstæð," segir Unnur.
Helstu niðurstöður stofnmælingarinn-
ar voru þær að vísitala stofnstærðar út-
hafsrækju mælist nú 43% hærri en á síð-
asta ári, aðeins hærri en árið 1998, en um
20% lægri en árið 1997. Aukningin varð
á öllum skikum á svæðinu Norðurkantur
til Grímseyjar en ekki eins mikil á svæð-
inu Sléttugrunn til Héraðsdjúps. Miðað
við stofnmælinguna árið 1999 hefur
meðalstærð rækju fallið umtalsvert á öll-
um svæðum norðanlands, nema í Norður-
kanti. Þetta stafar af aukinni nýliðun árið
2000 miðað við árið 1999.
Unnur segir að heldur minna hafi verið
nú af þorski á rækjumiðunum en á sama
tíma árið 1999, ef frá er talið í Skaga-
fjarðardýpi. Fyrstu vísbendingar um afla-
brögð fyrri hluta ársins virðast ekki sýna
sömu aukningu í aflabrögðum.
I nóvembermánuði er að vænta endan-
legrar niðurstöðu Hafrannsóknastofnun-
arinnar á stofnmælingunni frá í sumar og
verður þá gefin út skýrsla um ástand út-
hafsrækjustofnsins og endanlega ráðgjöf
um hámarksafla fyrir nýhafið fiskveiðiár.
Unnur segir að í endanlegu mati á
ástandi úthafsrækjustofnsins verði auk
stofnmælingarinnar notast við upplýs-
ingar úr aflaskýrslum rækjuskipa og
gögn um þorskmagn á svæðinu. Með öðr-
um orðum sé því rétt að bíða endanlegrar
skýrslu í nóvember áður en nokkuð sé
fullyrt um bjartari horfur á rækjumiðun-
um.
Auk Unnar Skúladóttur voru leiðang-
ursstjórar í stofnmælingunni þeir Guð-
mundur Skúli Bragason og Sólmundur
Tr. Einarsson.