Árbók Háskóla Íslands - 01.02.1959, Blaðsíða 102
100
hljóða að veita starfið Herði Sigurgestssyni, stud. oecon., sem verið
hefir utanríkisritari á liðnu starfsári og tekið þátt í ýmsum öðrum
félagsmálum stúdenta, sem hann er gjörkunnugur.
Mötuneytið á Gamla Garði.
Snemma á starfsárinu fól stúdentaráð 3ja manna nefnd að athuga
möguleika á því að fá fæði í mötuneyti stúdentagarðanna bætt og
verð þess lækkað. Er þetta í fyrsta skipti, sem gagngerð athugun fer
fram á þessu máli. Haustið 1959 barst stúdentaráði ítarleg greinar-
gerð frá nefndinni, og er hún birt í Vettvangi Stúdentaráðs, okt. 1959,
bls. 16—17.
1 nefndinni áttu sæti þeir Sigurpáll Vilhjálmsson, stud. oecon., Þórir
Guðmundsson, stud. oecon., og Bjami Einarsson, stud. oecon.
Sumargistihús á Görðunum.
Þegar stúdentaráð tók til starfa haustið 1958, voru hafnar um-
ræður um, að stúdentar önnuðust sjálfir rekstur sumargistihúsa á
stúdentagörðunum.
Var þegar kosin nefnd, til þess að vinna að athugunum á máli þessu.
Fljótlega kom í ljós, að málið var margþætt, og þar sem nefndin sann-
færðist brátt um það, að langan tíma og ítarlegan undirbúning þyrfti,
til þess að skynsamlegt væri fyrir stúdenta að taka að sér rekstur-
inn, urðu flestir sammála um, að hvorki væri ráðlegt né fært að
hefjast handa í sumar, sem leið.
Allar niðurstöður af athugunum nefndar stúdentaráðs á máli þessu
liggja nú fyrir þeim, sem við taka. Þar sem svo er, hefir komandi
stúdentaráð að því er virðist öll skilyrði til þess að hefja í tíma þær
aðgerðir, sem nauðsynlegar eru, til þess að stúdentar geti tekið að
sér reksturinn á næsta sumri. Áður en í það er ráðizt, er þó nauð-
synlegt að kanna sem gaumgæfilegast rekstrarhorfur, en þær geta
að sjálfsögðu breytzt mikið frá ári til árs.
Áramótafagnaður í anddyri háskólans.
Á undanförnum árum hafa háskólastúdentar sótt það fast að fá
leyfi til þess að halda áramótafagnað sinn í anddyri skólans, líkt og
tíðkaðist um árabil fyrst eftir að húsið var tekið í notkun. Aðal-
ástæðan til þessarar baráttu hefir verið sú, að ef slíkt leyfi fengist,
myndi það bæta verulega bága fjárhagsafkomu stúdentaráðs.
Eftir endurteknar synjanir háskólaráðs undanfarin ár, var um
svipað leyti og síðustu stúdentaráðskosningar fóru fram efnt til al-
mennrar undirskriftasöfnunar meðal háskólastúdenta, þar sem skor-
að var á háskólaráð að veita umrætt leyfi. Einnig var leitað til pró-