Stúdentablaðið

Árgangur

Stúdentablaðið - 01.05.2008, Blaðsíða 3

Stúdentablaðið - 01.05.2008, Blaðsíða 3
001. Forsíður Stúdentablaðsins 002. Atli Bollason ÞAÐ ER EKKERT HLUTLEYSI Blaðið sem þú heldur á er síðasta tölublað Stúdentablaðsins undir þessari ritstjórn. Það er talsvert frábrugðið öðrum blöðum sem hafa komið út í vetur þar sem efnið er að langstœrstu leyti unnið afmeistaranemum í blaða- ogfréttamennsku hér við félagsvísindadeild HÍ. Hugðarefnin eru þó af sama meiði; hér er fjallað um margt sem viðkemur háskólasamfélaginu með beinum hætti, t.d. er áhugavert viðtal við Kristinu Ingólfsdóttur rektor um sameiningu HÍ og KHÍ. Pólitíkin á líka sína málsvara, t.d. i formi viðtals við umsjónarmann bloggsíðunnar „Frelsi og franskar“ sem fjallar einvörðungu um bandarísk stjómmál. Menningin skipar sem fyrr stóran þátt, i blaðinu eru fjöldamargir pistlar um allskyns menningarlega hluti - ég bendi t.d. á pistil um hvernig ólíkar kynslóðir skilja nafnið Franz Ferdinand. Þá er óvenjulega mikið af aðsendu efni í blaðinu og talsvert um viðbrögð við efni síðasta blaðs. Ég vona að sjálfsögðu við útgáfu síðasta blaðs vetrarins að stúdentum hafi fallið blaðið og þótt það ferskur andblær í blaðaflóruna, kannski vakið einhvern til umhugsunar eða haft áhrif á breytni einhvers í augnablik. Ég er hins vegar meðvitaður um að það hefur ekki höfðað til allra, enda ógjörningur. Ein gagnrýnin sem ég hef fengið að heyra á blaðið snýr að hlutleysi; að blaðið birti ekki nægilega hlutlausa sýn á málin. Þeirri gagnrýni svara ég fyrst með spurningu: Er það gefið að hlutverk alls útgefins efnis sé að vera hlutlaust? *** Hlutleysi er nefnilega ekki raunverulegt. Það er útópísk hugmynd. Öllum greinaskrifum fylgir hugmyndafræðilegur baggi eða hagsmunatengsl. Hvort er heiðarlegra, að dylja hugmyndafræðina milli línanna eða að fara ekki í grafgötur með eigin skoðanir? Stúdentablaðið er ekki fréttamiðill, það er vettvangur fyrir stúdenta til að koma hugsunum sínum og hugmyndum á framfæri. Það gengur beinlínis út á að ögra hefðbundnum hugsanaferlum, en það verður tæplega gert með hugmyndina um hlutleysi að leiðarljósi. Krafan um hlutleysi og jafnvægi i fjölmiðlum getur nefnilega haft alvarlegar afleiðingar 1 för með sér. Guðni Elísson benti á það í pistli í Lesbók Morgunblaðsins 12. aprílsl. að krafan um „jafnvægi" getur haft allt annað en jafnvægi i för með sér. Dæmið sem hann tók var áhugavert: Prófessorinn Naomi Oreskes skoðaði 928 vísindagreinar um loftslagsbreytingar og komst að því að 75% þeirra staðfestu beint eða óbeint hugmyndina um hlýnun jarðar og engin þeirra andmælti henni. í fjölmiðlum er hins vegar annað uppi á teningnum - af 636 greinum um málið í vísindafréttum bandarískra dagblaða birtu 53% greinanna sjónarmið með og á móti loftslagsbreytingum, þó svo að 0% vísindagreina hafi mælt á móti hlýnun jarðar. Þarna endurspegla fjölmiðlarnir engan veginn niðurstöður vísindasamfélagsins og leitin að „jafnvægi" hefur í raun birt mjög skakka sýn á málið, og þjónar mjög ákveðnum hagsmunum, þ.e. hagsmunum þeirra sem hagnast á því að enn sé sett spurningamerki við hugmyndina um loftslagsbreytingar, eða oliufyrirtækjum, stóriðjueigendum og fleirum. Hvort ætli Shell og Esso vilji frekar auglýsa hjá dagblaði A sem skrifar fréttir sem staðfesta loftslagsbreytingar eða dagblaði B sem hrekur kenninguna? *** Kaflinn hér að ofan var hér um bil fullskrifaður þegar pælingarnar fengu áþreifanlega mynd á gasdaginn mikla. Lára Ómarsdóttir svipti hulunni af óeirðunum við Rauðavatn þegar hún ætlaði að fá „einhvern til að kasta eggi“ rétt á meðan bein útsending stóð yfir. Nú er ég ekki að segja að atburðurinn hafi verið sviðsettur frá upphafi til enda, og jafnvel bara alls ekki. En ef hann hefði verið það, t.d. ef Lára hefði ekki verið óvart í beinni útsendingu þegar hún lét sprengjuna falla, þá hefði það engu breytt. Það hefði enginn séð muninn. Merkingin hef ði verið sú sama. Og nú hljótum við alltaf að spyrja okkur þegar við lesum blöðin eða horfum á fréttirnar; hvað af þessu er raunverulegt? Hvað ekki? Hver benti á fréttina? Hver styrkir þáttinn? Hver er á vettvangi? Hvað er fyrir aftan myndatökumanninn? Hvað var klippt út? Og þá skiljum við að fréttin er allt annað en hlutlaus, heldur er hún þvert á móti gildishlaðin á ótal vegu. Þá er kannski betra að segja bara „hæ, ég er þessarar skoðunar - og skrifin verða í takt við það.“ *** Ekki svo að skilja að ólikar skoðanir hafi ekki haft athvarf í blaðinu - hver grein fyrir sig hefur bara verið afdráttarlaus í sinni skoðun, en næsta grein á eftir var kannski á öndverðum meiði. Það er því von mín að nálgun okkar í ritstjórninni að þrem meginstoðum blaðsins; háskólanum, pólitík og menningu, hafi að mestu fallið í kramið. Reynt var að gera grein fyrir málefnum háskólasamfélagsins á fróðlegan og upplýsandi hátt; í pólitíkinni var reynt að forðast hefðbundna gryfju pólitískrar umræðu, þ.e. pólitíska rétthugsun og endalausar málamiðlanir og útþynningar; og í menningunni var sjónum beint að ungum og spennandi listamönnum og verkum þeirra, og reynt að komast dýpra í umfjölluninni en er gert í hefðbundnum fjölmiðlum, án þess þó að seilast langt inn á svið hins fræðilega. Þá var lagt kapp á að blaðið væri eigulegt með því að hafa það aðlaðandi; skemmtilega uppsett en þó aðgengilegt og með fjölbreytilegum en fallegum og áhugaverðum myndum. Margar uppsetningarreglur voru brotnar og var það í takt við efni blaðsins. Það er hins vegar ykkar að meta hvernig til tókst. *** Ég vil þakka ritstjórninni minni fyrir samstarfið í vetur og óska nýjum ritstjóra góðs gengis í sinu starfi. Stúdentablaðið snýr aftur í haust. Ég þakka þeim sem lásu, og ekki síður þeim stofnunum sem styrktu útgáfuna og gerðu okkur kleift að hafa auglýsingahlutfallið eins lágt og raun hefur verið. ■ Atli Bollason, ritstjóri Stúdentablaðsins. o

x

Stúdentablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stúdentablaðið
https://timarit.is/publication/350

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.