Morgunn - 01.06.1956, Síða 18
12
MORGUNN
færar um að taka á sig- annarra byrðar, og sem ekki hagg-
ast við þá strauma vanþroska og kærleiksskorts, sem legg-
ur frá dimmu stöðunum. Ég hefi oft séð þessar geisla-
verur í kærleika sínum kljúfa rökkrið, og veita varanlegri
birtu að einhverri sál, þegar stundin var komin, að hún
þráði af öllu hjarta æðra líf. Oftast virðast mér þetta vera
ástvinir hinna vansælu sálna, tengdir þeim kærleiks- og
skyldleikaböndum, en þó ekki alltaf. En það hefi ég alltaf
séð undantekningarlaust, að eftir því sem björtu verurnar
færast neðar, þá er eins og birtan, sem fylgir þeim og um-
lykur þær, þjappist saman meira og meira, unz hún verð-
ur að sterku, skínandi ljósi, ofarlega á brjóstinu. Ef til
vill fá þær frá þessari birtuuppsprettu kraft til þess að
haldast við á hinum lægri sviðum. Ekki get ég séð, að ver-
urnar niðri verði varar við návist kærleikssálnanna af
birtunni einni saman, sem þær færa með sér, heldur er
eins og dálítill tími þurfi að líða, þar til áhrifin frá æðri
veröld fara að segja til sín.
Allar eru þessar björtu verur formfagrar, og hvílir yfir
þeim ólýsanlegur yndisþokki og ljómi, og kærleikur, sem
vermir inn að hjartarótum.
Mjög er misjafnt, hverju þær fá áorkað hverju sinni,
en út í það skal ekki farið lengra hér.
Að hve miklu leyti þessi reynsla mín er táknræn og að
hve miklu leyti hún er raunveruleg í þrengri merkingu,
get ég ekki sagt um, en að þar er að verki einhver æðri
veruleiki, ér fyrir mér fullvissa, sem ekkert fær haggað,
og þegar allt kemur til alls, hvað er þá táknrænt og hvað
er veruleiki ? 1 raun og veru er allur heimurinn tákn, tákn
guðs, þess æðsta veruleika, sem við erum ekki fær um að
sjá augliti til auglitis, hvað sem verða kann síðar, því eins
og postulinn segir, þá sjáum við nú eins og í skuggsjá eða
ráðgátu, en ekki er fyrir það að synja, að við kunnum síð-
ar að þekkja, eins og vér erum gjörþekktir, eins og sami
postuli segir.
En það er dýrðlegt að vita til þess, að kærleikur guðs