Morgunn - 01.06.1956, Blaðsíða 34
28
MORGUNN
ekki. Fótgangandi lagði hún upp í hverja ferðina af ann-
arri til að leita stuðnings þeirra, sem hún hafði hugboð
um að væru sér hliðhollir. Öllum hindrunum ruddi hún úr
vegi, og loks rann upp sú stund, að hún fluttist með tólf
systrum í nýja klaustrið, þar sem beið þeirra jarðnesk
örbirgð.
Teresa var uppljómuð himneskum fögnuði daginn, sem
hún gekk hvítklædd með tólf systrum upp að altarinu og
fékk heilaga vígslu. En miklir erfiðleikar biðu þeirra. Fá-
tæktin var mikil, húsið var slæmt og kalt, og þrásinnis
urðu systurnar að leggja á sig aukaföstur af þeirri ástæðu
einni, að enginn brauðbiti var til í klaustrinu. En andi
Teresu sveif yfir vötnunum. Það var eins og allar dætur
hennar — sem hún nefndi svo — drykkju í sig þrótt af
þrótti hennar og gleði af gleði hennar, og regluhaldið í
klaustrinu varð hið fegursta.
Enn hófust nýjar ofsóknir. Príorinnan í Encarnacion
krafðist þess, að klaustur Teresu yrði lagt niður og syst-
urnar allar reknar þaðan, vegna þess að Teresa hefði kom-
ið hreyfingunni af stað til þess eins að vekja á sér athygli
og aðdáun, og sýnir hennar og vitranir væru uppspuni og
blekking. Kirkjustjórnin í Avila var á bandi príorinnunn-
ar, og Teresa kom fyrir rétt í Encarnacion. Þar stóð hún
ein og yfirgefin andspænis 200 andstæðingum. Enginn
talaði máli hennar, ekki einn af hundruðunum annar en
hún sjálf. Hún varði mál sitt af myndugleika og festu, en
með rósemi og auðmýkt. Þannig var málsvörn hennar
ævinlega.
Nú var hún úrskurðuð í gæzluvarðhald og máli hennar
skotið til dómstólanna. Kirkjuþjónn nokkur fór með múg
manns að klaustri hennar til að loka því og reka systurnar
burt. En dætur Teresu höfðu öðlazt nokkuð af þreki henn-
ar. Þær læstu klaustrinu, ógnuðu mannfjöldanum með því
að neita að ganga út, og skoruðu jafnvel á fyrirliðann að
koma inn í klaustrið, ef hann þyrði að standa þar til aug-
iitis við dóm Guðs og reiði.