Morgunn - 01.06.1956, Síða 46
40
MORGUNN
inn í harmanna heim, og sumar þeirra kunna að vera
tengdar dapurlegasta augnablikinu í dánarherberginu eða
við dánarfregnina. Raunar getur enginn friður jafnast á
við friðinn í dánarherberginu, því að þegar andlátsaugna-
blikið sjálft nálgast, er andlátsstríðið langsamlega oftast
á enda og viðskilnaðurinn sjálfur oftast þjáningalaus,
þrunginn friði og kyrrð. En þegar andlátsfregnin berst,
og þó einkum í hljóðleikanum við beð deyjandi vinar,
verða ýmsar spurningar næsta áleitnar við oss. Vér finn-
um, að þetta augnablik er svo ósegjanlega stórt, svo
ósegjanlega mikið það, sem hér er að gerast, og á marga
leita þessar spurningar fast:
Er gröfin lokamarkmið þessa lífs, sem undir skugga
feigðarinnar er fætt, undir skugga feigðarinnar er lifað,
og verður síðast feigðinni að bráð?
Ég geri ráð fyrir því, að vér flest, sem hér erum saman
í kvöld, teljum oss hafa fengið öruggt svar við þessum
spurningum, eða a. m. k. svo sterkar líkur, að af taki tví-
mæli. Þess vegna höfum vér bundizt félagsböndum með
tveim markmiðum, öðru því, að leggja stund á nám í sál-
rænum fræðum, og hinu því, að breiða út meðal þjóðar-
innar þekkinguna á þessum óumræðilega mikilsverðu efn-
um. Sárasti broddur sorgarinnar yfir ástvinamissi er brot-
inn, sannfæringin um hina eilífu aldingarða hinum megin
grafarinnar gefur oss hugarstyrk til að horfa vonglöðum
huga á eftir vinunum, sem fóru. En söknuðurinn er að
sjálfsögðu ef.tir, ekki þeirra vegna, sem gengnir eru inn í
samfélag vina, sem á undan þeim fóru af jörðunni, heldur
vegna vor sjálfra, sem urðum snauðari við burtför þeirra.
Og þó fer því fjarri, að allir eigi þá sannfæringu.
Milljónirnar hafa ýmist af ráðnum hug eða þekkingar-
leysi eða af óviðráðanlegum efasemdum hafnað þeirri
þekkingu, sem vér allflest í þessu félagi teljum með því
dýrmætasta, sem Guð hefir gefið oss. í fjölmargra manna
hugum „liggur sú vitneskja svæfð af sorg“, og eftir meira
en aldarfjórðungskynni af fjölmörgu fólki, sem svipt hefir