Fréttablaðið - 10.09.2011, Page 26
10. september 2011 LAUGARDAGUR26
Á
morgun verða tíu ár síðan
nítján flugræningjar tóku
fjórar bandarískar farþega-
þotur með vopnavaldi. Þeir
flugu tveimur þeirra á tví-
buraturnana í New York.
Einni flugu þeir á bandaríska varnarmála-
ráðuneytið við Washington. Þeirri fjórðu
brotlentu þeir þegar farþegar um borð börð-
ust við flugræningjana um stjórn á vélinni.
Flestir Vesturlandabúar sem komnir
voru til manns muna hvar þeir voru þenn-
an örlagaríka dag fyrir tíu árum. Þeir sem
höfðu tök á því sátu límdir við sjónvarpið
fram eftir degi og fylgdust með endalausum
endursýningum af farþegaþotunum fljúga á
turnana, milli þess sem nýjar fréttir bárust.
Nærri 3.000 manns fórust í hryðjuverka-
árásunum og verður 11. september minnst
fyrir mannskæðustu árásina á bandarískri
grundu frá því japanski flotinn réðist á
bandarísku flotastöðina í Pearl Harbor árið
1941. Sú árás varð til þess að Bandaríkin
drógust loksins inn í síðari heimsstyrjöld-
ina. Atburðir 11. september leiddu af sér
hörð viðbrögð bandarískra stjórnvalda. Í
kjölfarið hófu þau tvö stríð með afleiðing-
um sem enn sér ekki fyrir endann á.
Sumar af þeim breytingum sem voru bein
afleiðing árásanna eru augljósar. Flest-
ir kannast líklega við stórauknar öryggis-
ráðstafanir á flugvöllum og við hafnir.
Bandarísk stjórnvöld stofnuðu sérstaka
leyniþjónustu til að sinna öryggi innan
Bandaríkjanna. Settar voru upp fanga búðir í
Guantanamo á Kúbu þar sem eðlilegar regl-
ur réttarríkis gilda ekki og fólki er haldið
enn þann dag í dag án dóms og laga. Aðrar
breytingar sem orðið hafa í kjölfar árásanna
er flóknara að skýra.
„Heimurinn hefur augljóslega breyst
mikið á þeim tíu árum sem liðin eru frá
árásunum, en það er erfitt að segja til um
hvaða breytingar hefðu orðið þó árásirnar
hefðu aldrei verið gerðar, og hvaða breyt-
ingar hafa gerst hraðar en ella vegna
þeirra,“ segir Alyson Bailes, aðjúnkt við
Háskóla Íslands og sérfræðingur í alþjóða-
stjórnmálum.
Hryðjuverk í öðrum heimshluta
„Dæmi um þetta er uppgangur Kína á síð-
ustu árum,“ segir Bailes. „Það var óhjá-
kvæmilegt að Kína yrði áhrifameira land,
en mögulega hafa stríðin tvö sem George
W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna,
hóf eftir árásirnar hraðað því ferli. Banda-
ríkin hafa eytt ótrúlega miklum peningum
í þessi tvö stríð, og stefna Bush var að eyða
því sem þyrfti, burtséð frá sívaxandi fjár-
lagahalla.“
Strax 7. október 2001 réðust Bandarík-
in ásamt bandalagsþjóðum sínum inn í
Afganistan með það að markmiði að ráða
niðurlögum al-Kaída hryðjuverkanetsins
sem talið var víst að stæði að baki árás-
unum. Í mars 2003 hófu Bandaríkin annað
stríð, í þetta skiptið með innrás í Írak.
Fullyrt var að markmiðið væri að stöðva
útbreiðslu gereyðingarvopna, en engin
ummerki fundust um slík vopn þrátt fyrir
mikla leit.
Stríðin tvö höfðu í för með sér gríðarlega
aukningu á hryðjuverkaárásum, en eftir
innrásirnar tvær hafa þær að mestu átt sér
stað í Afganistan og Írak. Engin alvarleg
hryðjuverkaárás hefur verið gerð í Banda-
ríkjunum, og þó mannskæðar árásir hafi
verið gerðar í Evrópu hafa þær ekki verið
jafn margar og hefði mátt búast við, segir
Bailes.
Hún telur þó af og frá að það hafi verið
markmið Bush að fá hryðjuverkamenn til að
gera frekar árásir á hermenn fjarri heima-
landinu. „Það hefði ef til vill verið rökrétt,
en ég held að stjórn George W. Bush hafi
einfaldlega ekki hugsað sérstaklega rök-
rétt. Þeir virðast einfaldlega ekki hafa hugs-
að um afleiðingarnar, þeir höfðu til dæmis
enga hugmynd um hvernig stríðið í Írak
myndi þróast.“
Markmið hryðjuverkamannanna
Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna
á Íslandi, sagði í fyrirlestri fyrr í vikunni að
hryðjuverkamennirnir sem stóðu að árás-
unum 11. september 2001 hefðu ekki náð
tveimur stærstu markmiðum sínum.
„Í fyrsta lagi veiktu þær ekki Banda-
ríkin. Við létum árásirnar ekki buga okkur
heldur komum tvíefld út úr þeim, stað ráðin
og ákveðnari en nokkurn tímann fyrr í
að standa vörð um okkar gildi. Í öðru lagi
þá tókst hryðjuverkamönnunum ekki að
skapa gjá milli Bandaríkjanna og múslima-
heimsins. Árásirnar komu ekki í veg fyrir
að við héldum áfram að vinna með íslömsk-
um vinum okkar við að stuðla að friði og lýð-
ræði í heiminum.“
Alyson Bailes segir málið ekki endilega
svo einfalt. „Al-Kaída eru mjög undarleg
hryðjuverkasamtök, og það er mjög erfitt
að skilgreina pólitísk markmið þeirra og
stefnu. Flest hryðjuverkasamtök eru með
mjög afmörkuð markmið, en ekki al-Kaída.“
Markmið þeirra var ekki að knésetja
Bandaríkin, eða skaða þau verulega efna-
hagslega, segir Bailes. „Ein leið til að mæla
árangurinn af árásunum fyrir al-Kaída er
að spyrja hvort samtökin séu öflugri í dag
en þau voru fyrir árásirnar.“
„Strax eftir árásirnar töluðu ríki heims
um al-Kaída eins og samtökin væru gríð-
arlega valdamikil. Orðfærið var um tíma
svipað og áður var notað um Sovétríkin.
Eflaust hefur leiðtogum samtakanna fund-
ist þeir valdamiklir þá. En í kjölfarið komu
hernaðar aðgerðir sem hafa í áranna rás náð
að þurrka út stærstan hluta leiðtoga samtak-
anna. Nú segja sérfræðingar að al-Kaída séu
máttvana í Afganistan og jafnvel í araba-
heiminum almennt,“ segir Bailes. „Með því
að mæla árangur þeirra með þessum hætti
má segja að al-Kaída hafi valdið eigin eyð-
ingu með árásunum 11. september.“
Þáttaskil með fellibyl
Eitt af því sem ekki hefur breyst eftir árás-
irnar er vægi Bandaríkjanna á alþjóða-
vettvangi. Bandaríkin urðu gríðarlega óvin-
sæl í sumum ríkjum eftir að hafa ráðist inn í
bæði Afganistan og Írak, segir Bailes. Þær
óvinsældir hafi nú að miklu leyti gengið til
baka. Þar skipti ekki síst máli nýr forseti
með nýjar áherslur, þó staðreyndin sé sú að
Barack Obama nái ekki nema að takmörk-
uðu leyti að vinda ofan af stefnu forvera
síns. „Þetta sýnir okkur ágætlega að það
er ómögulegt að eyða mikilvægi og völdum
Bandaríkjanna á einni svipstundu, jafnvel
þó gerð séu hrikaleg mistök,“ segir Bailes.
Árásirnar 11. september voru ofarlega í
huga flestra Bandaríkjamanna árum saman.
Gríðarlegum fjármunum var varið í bar-
áttuna gegn hryðjuverkum, bæði í Banda-
ríkjunum og víðar. Jafnvel of miklum fjár-
munum, eins og síðar hefur komið í ljós. „Ég
tel að það hafi orðið ákveðin þáttaskil þegar
fellibylurinn Katrína skall á New Orleans
í Bandaríkjunum,“ segir Bailes. Þá hafi
bandarískur almenningur séð hversu illa
undirbúin stjórnvöld voru til að takast á við
náttúruhamfarir af þessari stærðargráðu,
og að ef til vill væri betra að forgangsraða
útgjöldum ríkisins öðruvísi.
„Fólk áttaði sig á því að það er margt
annað en hryðjuverkaárásir sem geta haft
gríðarleg áhrif á líf þess. Í dag myndu
eflaust margir segja að þeir óttuðust mest
atvinnuleysi og fátækt,“ segir Bailes.
Létum árásirnar ekki buga okkur
Fæstir sem fylgdust með í beinni útsendingu þegar farþegaflugvélum var flogið á Tvíburaturnana í New York geta gleymt
dagsetningunni 11. september 2001. Flestir hafa fundið fyrir afleiðingum árásanna, til dæmis auknum öryggiskröfum á flugvöllum.
Brjánn Jónasson kannaði hvaða áhrif árásirnar höfðu og hvort hryðjuverkamennirnir hefðu náð markmiðum sínum með árásunum.
SEINNI VÉLIN Myndband sem sýnir aðra þotuna fljúga inn í seinni Tvíburaturninn og springa þar var sýnt
aftur og aftur á fréttastöðvunum 11. september. NORDICPHOTOS/AFP
BJARGAÐ Björgunarmenn bera slasaðan ljósmyndara frá Tvíburaturnunum. Hundruð lögreglu- og slökkvi-
liðsmanna fórust þegar þeir reyndu að bjarga fólki úr turnunum áður en þeir hrundu. NORDICPHOTOS/AFP
STUKKU Margir kusu heldur að henda sér út í opinn dauðann en að deyja í vítislogum í Tvíburaturnunum.
NORDICPHOTOS/AFP
FRAMHALD AF SÍÐU 24