Faxi

Árgangur

Faxi - 01.06.1962, Blaðsíða 11

Faxi - 01.06.1962, Blaðsíða 11
heldur grár, en þó stillilegur. Nú var kol- dimmur bakki í norðrinu, og suður að sjá hékk þokan niður undir ásahryggina. Var virkilega að ganga að með hríð? Oljós geigur tók sér óboðið sæti einhvers staðar í barmi mínum. Eg lét þó sem ég yrði hans ekki var og tók að svipast um eftir „aug- unum“, og um leið kom fyrsta vindhvið- an. Það tók mig skamma stund að finna lægð í fannbreiðuna, þar sem líklegt mátti telja að komið yrði í ófrosið vatn, ef niður væri höggvið. Tók ég nú að vaka ísinn með skíðastafnum. Jafnframt dimmdi hríðina óðum, og skyndilega skildist mér, að hið einasta eina, sem tengdi mig við bæinn heima í myrkri og hríð, var slóðin, sem bugðaðist yfir heiðinni skíðaslóðin — mín eigin slóð — sem nú tók óðum að fylla, og sem gat horfið með öllu á nokkr- um mínútum. Þetta var þó hart. Allur silungurinn þarna undir fótum mér! Allir draumarnir og vonirnar um veiðina góðu! Allar sögurnar, sem sagðar skyldu af ferð- inni lokinni! Nei — ég herti upp hugann — nei, enginn skyldi geta sagt, að ég hefði gengið alla þessa leið og ekki svo mikið sem rennt öngli í vatn. Skeð gat, að þetta yrði aðeins lítið él. Ég lauk í flýti við að vaka ísinn, tók veiðarfærin úr pokanum, dorg og maðk, beitti öngulinn og hafði hraðar hendur. Vatnið var þarna ekki nema tveggja feta djúpt. En bráðfeig lækj- arlonta leitaði sér morgunverðar og greip öngulinn óðar og hann kom í vatnið. Ég kippti henni upp á fönnina, losaði öngul- inn og hagræddi beitunni á ný. Þessi branda var að vísu ekki af stærri tegund- inni — einir sex þumlungar — en ég hafði alltaf gert ráð fyrir einhverju af þeim líka. Svo renndi ég aftur. Jú, ekki stóð á því. Onnur branda kom og hvarf í snjóinn uppi á ísnum. Hún var álíka stór. En nú hafði hríðina aukið að mun. Hér var um ekkert að gera annað en halda heimleiðis og það fljótt. Slóðin hlaut að hverfa, og hvað þá? I skjótri svipan stakk ég veiðarfærunum í pokann, bjó malinn á bak mitt, sneri skíðunum í slóðina, sem enn sá allvel fyrir og hélt heimleiðis. I snjónum á vakarbarminum lágu eftir tvær litlar bröndur og biðu þess að sól og sum- ar bræddi ísinn af vatninu þeirra, svo þær líka gætu komizt heim. Stinningsgola var á norðan, þó ekki svo mikil, að renndi til muna. Fannkoman var hins vegar svo mikil, að ekki sá nema nokkrir skíðalengdir frá sér. Hún ein mundi þó verða æðistund að fylla slóðina, svo hennar sæi engin merki. Hvað lítið sem hvessti var hún þurrkuð á burt, eins og ósýnileg hönd gerði hreint fyrir sínum dyrum. Og veiðiferðin mín, sem með svo mikilli gleði var gengin að heiman og svo bjartar vonir voru við tengdar var allt í einu orðin að kappgöngu við hríðina, kappganga um eina litla skíðaslóð. Ef ekki hvessti meira og ef ég gengi eins hratt og ég orkaði, gat skeð að ég sæi hennar merki nógu lengi til þess að vera óhultur heim. Vindstöðuna setti ég vel á mig. Hún var hið eina, sem hægt var að rata eftir, ef slóð- in hyrfi. Ég vissi þó vel, hve vindstaða er ótrygg, sé hann að ganga að með hríð. Ég gekk eins hratt og kraftarnir leyfðu, og sóttist í byrjun vel. En brátt tók að þyngja fyrir fæti, meiri hluti leiðarinnar var nú í fangið og skíðafærið versnaði að miklum mun. Þar að auki hafði ég þegar í byrjun tekið á allri minni orku, svo að nú dró úr ferðinni. Kappgangan um slóð- ina varð því ekki til lengdar æsandi ævin- týri, sem enda hlaut með sigri, ef aðeins orkunni væri beitt til þess ýtrasta, heldur varð hún þrautaganga í þoku og hríð, fjærri öllum mannabyggðum, í auðn og ægilegri dauðaþögn. Það var því líkast sem þessi sakleysislega skíðaslóð í silkimjúkri mjallarbreiðunni væri einhver dauðasynd, einhver óbætanleg móðgun við máttarvöld heiðarinnar. Burt skyldi hún eins skjótlega og hún kom. Eins og stóra-systir strýkur á brott blýantsstrikið, sem litli-bróðir hefur í óleyfi sett á örkina hennar, skal hún þurrkuð út og heiðin á ný verða tandur- hrein óskrifuð opna í dagbók vetrarríkis- ins. Hann mátti víst fá fyrir ferðina þessi óþekktarormur, sem í óleyfi dirfðist að leggja hér land undir fót. Og dygði ekki ofanhríðin ein til þess að hann fengi mak- leg málagjöld og slóðin að minnsta kosti hyrfi, þurfti ekki annað en herða lítið eitt á kaldanum, sem kominn var. Enda tók nú að renna. Slóðin hvarf þegar með öllu á lengri og skemmri köflum, en sá fyrir henni á milli. Enn var leiðin ekki hálfnuð. Hvað gerir lítill tólf ára drengur, sem þar að auki er engin hetja — miklu minni hetja heldur en hvað hann er fús til stór- ræða — þegar hann er að tapa slóðinni sinni, þeirri, sem hann svo auðveldlega gekk að heiman, tapa henni, aleinn, uppi á reginheiði í hríð og þoku? Verður hann ekki gripinn geigvænni ógn og kvíða? Verður hann ekki óumræðilega þreyttur, lítill og einmanalegur? Langar hann ekki mest til að hrópa af öllum lífs og sálar kröftum á pabba og mömmu, þó hann viti vel, að enginn geti heyrt hróp hans? Verður honum ekki hugsað til þess með skelfingu, að eiga nú að villast og verða úti? Langar nokkurn lítinn, lífsglaðan dreng að leggjast niður í ískaldan snjóinn og deyja? Verður svo ekki útkoman úr samlagningu allra þessara kvíðvænlegu spurna, þrengsli fyrir brjóstinu og kökkur í hálsinum, sem ómótstæðilega leysist upp í stór og þung tár, sem drjúpa niður á skíð- in? Það er að vísu engu betra að fylgja slóðinni sinni, þegar tárin byrgja útsýn- ina ásamt hríðinni og þokunni — tárin lika. Veðrið versnaði ekki meir, og áfram miðaði þó hægt gengi. Ég sá votta fyrir slóðinni annað slagið, nógu oft til þess að tapa ekki af henni. En þreytan færðist í aukana og kvíðinn tók á sig nýja mynd. Það yrði dapurleg heimkoma fyrir pabba og mömmu, ef drengurinn þeirra, sá eini, sem þau áttu, í stað þess að koma hlaup- andi á móti þeim, þegar þau kæmu heim, eins og hann hafði svo oft dreymt um, lægi helfrosinn í skafli einhvers staðar uppi á heiði. Sú hugsun jók að vísu tárin að miklum mun í bráðina. Nú drupu þau ekki lengur eitt og eitt, heldur féllu í stríð- um straumi. En-------. Nei, slíkt mátti ekki koma fyrir. Það mátti ekki, mátti ekki, skyldi ekki koma fyrir. Ég hlaut að geta aukið svolítið ferðina, unnið fáeinar mín- útur, máske einmitt mínúturnar, sem allt valt á. Ég herti gönguna sem mest ég mátti. Þó brjóstið væri að springa af mæði og þó fætur og handleggir væru orðnir dofnir af áreynslu, skyldi ég þó bæta ör- litlu við ferðina. En nú hvarf slóðin! Nei, þarna kom hún aftur í ljós. Ef ég aðeins gæti haldið stefnunni yfir kaflana, sem engin slóð sást á. Og nú kom brekka. Það var Áshlíð, sem ég þekkti vel. Upp á hana — og svo ekki meir brekkur upp og ofan, heldur góð skíðabrekka niður á jafnsléttu, þá dálítið mýrasund og síðan undanhallt heim — ekki langt og alltaf undanhallt. Tárunum fækkaði. Og hvað var þetta? Var ekki hríðinni að slota? Jú, sannarlega. Meira að segja slotaði henni eins skyndi- lega og hún kom. Ég var ekki fyrr kominn upp á ásinn en hætt var að hríða. Hvað hafði eiginlega gerzt? Höfðu bænarand- vörp örþreytts drengs þarna vestur á mýr- unum hrært til meðaumkunar þá máttugu liönd, sem stjórnar stormum og hríð? — Hafði einhverju ógnar áformi verið breytt? Eða hafði aðeins lítilfjörlegt hríðarél skot- ið huglitlum ferðamanni skelk í bringu? Hvað um það. Hríðinni var slotað. Og F A XI — 95

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.