Morgunblaðið - 05.01.2009, Blaðsíða 35
Menning 35
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. JANÚAR 2009
Eftir Einar Fal Ingólfsson
efi@mbl.is
KOLBRÁ Bragadóttir myndlistar-
maður sýnir um þessar mundir í
Listasalnum Iðu, nýjum sýning-
arsal á annarri hæð Lækjargötu 2,
þar sem samnefnd bókaverslun er
til húsa. Á sýningunni, sem hefur
verið framlengd til 15. janúar, eru
átta stór málverk.
„Þetta er flaumur efna og efna-
hernaður hjá mér,“ segir Kolbrá
þegar hún er spurð um heiti sýn-
ingarinnar, sem er Flaumur. „Ég
blanda saman við olíuna efnum
sem eru forboðin í listsögulegu
samhengi. Þar af leiðandi er út-
koman iðulega nokkuð ófyrirséð.
Blanda saman óhaminni slettulist
við ígrundaða málunaráferð. Það
sem heillar mig er hið ófyrirséða,
hvernig það virkar og hvernig það
verður fyrirséð þegar maður gefur
sér tíma og „leyfi“ til að nota það.“
Þegar Kolbrá er spurð að því
hvað efni þetta sé sem hún blandi
saman segist hún þess vegna setja
klósetthreinsi út í olíuna. „Allt sem
skilar mér sáttri fær að vera með.“
– Mæla forverðir með þessháttar
vinnubrögðum, upp á varanleika
verkanna?
„Ég er kannski að skapa þeim
mögulega atvinnu,“ svarar Kolbrá
og hlær. „Enda er það þeirra vinna
að sjá um svoleiðis.
En auðvitað veit ég hvað ég er
að gera. Þetta er talsverð tilrauna-
starfsemi, en eins og ég segi þá fer
hið ófyrirséða að verða fyrirséð
þegar maður skoðar það svona vel.
Maður lærir að brjóta reglurnar án
þess að skemma of mikið, að því
leyti beygir maður efnin undir sig
– og útkoman nýtist því sem ég vil
gera. Ég get aldrei stjórnað hundr-
að prósent hvað gerist.“
– Er spennandi að brjóta þessar
reglur um hvað „megi“ gera í mál-
verki?
„Eflaust er ég sú manngerð.
Þegar ég var lítil og var sagt að
segja mömmu ekki, þá hljóp ég
alltaf fram og sagði mömmu. Ef
enginn bannaði mér það, sagði ég
ekki neitt.
Kannski má kalla þetta hryðju-
verk á striga. Mér finnst striginn
fallegastur ógrunnaður og hvítur,
en ég hugsa að fyrst ég þurfi að
„skemma“ hann, þá er mér ekkert
heilagt. Útkoman verður samt fag-
urfræðilega falleg. Það er ekkert
samhengi á milli þess að brjóta
reglur og að hlutirnir séu ljótir.
Hinsvegar veit maður ekkert
hvernig hlutir gætu mögulega litið
út, ef maður brýtur ekki reglurnar,
ekki satt?“
Málverkið ekki heilagt
Kolbrá útskrifaðist úr Listahá-
skólanum fyrir fimm árum og hef-
ur verið afkastamikil síðan; þetta
er áttunda einkasýning hennar og
þá hefur hún átt verk á mörgum
samsýningum.
„Ég hef verið mjög dugleg. Ég
er alin upp í myndlistinni og fyrir
mér er þetta vinna. Ég er það
heppin að finnast skemmtilegt í
vinnunni. Þar af leiðandi er ég mik-
ið í vinnunni. Það má taka börnin
með sér á þennan vinnustað – þetta
er fyrirtaks fjölskyldusport.
Fyrir mér er málverkið ekkert
heilagt. Ég lít ekki á það með lotn-
ingarbundinni virðingu.
Mér finnst einmitt gaman að sjá
hvað gerist þegar mistök verða. Þá
vinn ég bara áfram með það.“
– Hvað er svona spennandi við
málverkið?
„Það lætur allt yfir sig ganga!
Nei, auðvitað verð ég að beygja
mig undir það, eins og það mig.
Þetta er gagnkvæm virðing og vin-
átta. Ég vinn í fleiri miðla en ég
nýt þess mjög að mála.“
– Nú ert þú dóttir Braga Ás-
geirssonar, eins kunnasta gagn-
rýnanda og myndlistarmanns
landsins. Hvernig tekur hann þess-
um „hryðjuverkum á striga“?
„Pabbi hefur alltaf verið óvæg-
inn gagnrýnandi minn, síðan ég var
krakki; maður á alltaf að gera bet-
ur. Hann hefur sterkar skoðanir,
en mér finnst svo gott að pabbi
festist ekki í skoðunum sínum og
er fús að breyta. Hann hefur verið
jákvæður gagnvart þessum hryðju-
verkum mínum – og ég heyri út í
bæ að hann sé bara stoltur af dótt-
urinni,“ segir Kolbrá og hlær.
„Má kalla þetta hryðjuverk á striga“
Kolbrá Bragadóttir blandar ýmsum for-
boðnum efnum við olíulitina í verkunum
Kolbrá og verkin „Það sem heillar mig er hið ófyrirséða, hvernig það virkar og hvernig það verður fyrirséð þegar
maður gefur sér tíma og „leyfi“ til að nota það.“ Kolbrá Bragadóttir sýnir um þessar mundir í Listasalnum Iðu.
Morgunblaðið/Ómar
KOMIN er út bók með eft-
irprentunum af 48 vatns-
litamyndum eftir Jón Ax-
el. „Tvær gular sólir, tvær
svartar sólir“. Myndirnar
eru unnar á þessu ári og
sýndi listamaðurinn þær í
Stúdíó Stafni fyrr í desem-
bermánuði.
Jón er kunnur frá tíð
nýja málverksins á níunda
áratug síðustu aldar fyrir
myndir sem voru á mörk-
um litaflæmis og frá-
sagnamálverks. Þ.e. að atburðarás
fólst í samspili fígúra (sem mér
þykir jafnan eðlilegt að túlka sem
sjálfsmyndir Jóns) og forma þar
sem litaflæmi og efniskennd var
leiðandi í myndverkinu.
Má segja að Jón hafi haldist í
hendur við þá Sigurð Örlygsson og
Helga Þorgils Friðjónsson, nema
hvað myndir Sigurðar eru geo-
metrískari í forminu en formræna
Jóns er „lífrænni“ og frásögn
Helga Þorgils goðsagnakennd en
Jón spilar á tilfinningalega frásögn.
Í vatnslitamyndunum heldur Jón
viðteknum hætti. Oft er eilítið
þröngt um fígúrur í formageri, en
vatnsliturinn vegur þar á móti, gef-
ur formum gegnsæi sem opnar
myndflötinn og þá líka annarskon-
ar tilfinningu en fýsísk efniskennd
olíunnar hefur gert.
Samspil fígúra og forma ein-
kennist af leikgleði sem er að hluta
undirstrikuð með trúðsnefjum og
partíhöttum. En að sama skapi
virka fígúrur dálítið áttavilltar, eins
og þær séu staddar í ókunnum
framandlegum og óskýranlegum
heimi.
Mér hefur þótt Jón Axel fanta-
flottur málari frá fyrstu sýn fyrir
rúmum 20 árum síðan en hann hef-
ur farið hægt í sýningarhaldi und-
anfarin ár og því ánægjulegt að sjá
þessar myndir í bók sem komin er í
dreifingu í helstu bókaverslanir.
Skila eftirprentanirnar frum-
myndunum ágætlega þótt fjölföld-
unin taki alltaf sinn toll þegar efn-
iskennd spilar þetta veigamikla
rullu, og texti Auðar Ólafsdóttur er
kærkomin innsýn í myndverkin
sem bæði má fletta þannig að þær
renni saman í heila myndröð og
rýna í hverja mynd fyrir sig og
kanna hvaða kenndir kvikna þar
innra.
Fígúrur í
formageri
MYNDLIST
Tvær gular sólir, Tvær
Svartar sólir
Texti Auður Ólafsdóttir, Verk-
efnastjórn Marteinn Viggós-
son, Útgefandi Jón Axel.
Vatnslitamyndir Jóns Axels
bbbmn
Jón B. K. Ransu
Samspil „Oft er eilítið þröngt um fígúrur í
formageri, en vatnsliturinn vegur þar á móti,
gefur formum gegnsæi sem opnar myndflöt-
inn …“ , segir m.a. í umfjöllun.
HEFÐ er fyrir því að allir standi á
fætur þegar kórinn syngur Hallelúja
í óratóríunni Messías eftir Handel.
Hefðin er orðin um 260 ára gömul og
fer nokkrum sögum af uppruna
hennar. Sú sennilegasta er að kon-
ungurinn, Georg annar, hafi í fyrstu
staðið upp á þessu augnabliki í verk-
inu þegar það var enn ungt. Er kon-
ungur rís úr sæti sínu eiga allir aðrir
að gera það líka; fólkið stóð því á
fætur og hefur gert það síðan.
Ekki er ljóst afhverju konung-
urinn reis á fætur, en líklega er það
vegna þess að í Hallelújakórnum er
Kristur tignaður sem konungur kon-
unganna. Með því að standa upp var
Georg að lýsa því yfir á táknrænan
hátt að einnig hann væri þegn
Krists.
Þessi mikla óratóría, sem er í
þremur þáttum, var flutt í Hall-
grímskirkju á nýársdag. Að sjálf-
sögðu risu allir úr sætum þegar kór-
inn söng Hallelúja í lok annars
þáttar. Það var magnað augnablik,
þótt áhrifin hefðu getað orðið mun
meiri ef kórinn hefði verið stærri.
Textinn í Hallelújakórnum er úr Op-
inberunarbókinni, þar sem segir:
„Og ég heyrði rödd sem mikils
fjölda, og sem rödd margra vatna, og
sem rödd frá sterkum þrumum. Þær
sögðu Hallelúja, því að Drottinn Guð
vor, hinn alvaldi, er konungur orð-
inn.“ Átján manns er auðvitað ekki
mikill fjöldi og því má segja að hinn
smái kór, Schola cantorum, hafi
varla valdið hlutverki sínu. Söngur
kórsins var vissulega fagmannlegur
og tær; hann var bara ekki nógu
kraftmikill. Altraddirnar heyrðust
t.d. trauðlega og almennt talað náði
verkið aldrei þeim hæðum sem mað-
ur á að venjast.
Sem er synd því tónlistarfólkið
stóð sig í sjálfu sér prýðilega.
Hljómsveitin, Alþjóðlega barokk-
sveitin í Den Haag, spilaði ein-
staklega fallega og ólíkar raddir
runnu saman í sannfærandi heild.
Ég hef sagt það áður að hinn granni
hljómur barokksveitarinnar fer
ríkulegum hljómburði Hallgríms-
kirkju ákaflega vel og var svo einnig
nú. Útfærslan þegar tveir tromp-
etleikarar, þau Mark Geelen og
Femke Lunter, spiluðu af háum
svölum orgelsins og kórinn söng um
dýrð Guðs var glæsileg. Ef kórinn
hefði verið stærri hefði maður fengið
gæsahúð.
Einsöngvararnir stóðu sig ágæt-
lega, þótt þeir hafi verið dálítið dauf-
ir. Kontratenórinn, Andrew Radley,
var nokkra stund að komast í gang
og eitthvað bar á því að nótur á
neðra tónsviði væru litlausar. Gissur
Páll Gissurarson var góður en ögn
passífur og Marta Guðrún Halldórs-
dóttir var örugg á sínu en dálítið
kuldaleg í túlkun sinni. Það var helst
að það sópaði af bassanum Alex Ash-
worth, sem tókst oftast að gæða
söng sinn viðeigandi eldmóði.
Messías tekur um þrjá klukku-
tíma í flutningi með tveimur hléum.
Í fyrra hléinu hitti ég vinkonu mína
sem var með dóttur sinni á unglings-
aldri. Dóttirin var fýld á svipinn,
sagðist sakna iPodsins og vildi fara
heim. Ég hugsa að ef kórinn hefði
verið stærri og einsöngvararnir líf-
legri, þá hefði hún sagt annað.
Rödd sem mikils fjölda?
TÓNLIST
Hallgrímskirkja
Handel: Messías í flutningi Schola can-
torum og Alþjóðlegu barokksveitarinnar í
Den Haag. Stjórnandi: Hörður Áskelsson.
Einsöngvarar: Andrew Radley, Gissur Páll
Gissurarson, Marta Guðrún Halldórs-
dóttir og Alex Ashworth. Fimmtudagur 1.
janúar.
Kórtónleikarbbbnn
Jónas Sen
Miðasala
S. 545 2500
www.sinfonia.is
■ 7.-10. janúar 2009
Vínartónleikar
Stjónandi: Markus Poschner
Einsöngvari: Dísella Lárusdóttir
Miðvikudagur 7. janúar kl. 19.30
Fimmtudagur 8. janúar kl. 19.30 - (Græn röð)
Föstudagur 9. janúar kl. 19.30
Laugardagur 10. janúar kl. 17.00 - Örfá sæti laus
Nýtt ár hefst með hátíðarbrag á Vínartónleikum
þar sem hljóma sígrænar perlur eftir Strauss,
Lehár og fleiri meistara óperettunar.
Vínartónleikarnir hafa um árabil verið
vinsælustu tónleikar hljómsveitarinnar
og vissara að tryggja sér miða í tíma.