Morgunblaðið - 05.01.2009, Blaðsíða 26
26 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. JANÚAR 2009
Elsku Sigga frænka okkar.
Ekki áttum við von á því að sitja
á milli jóla og nýárs og skrifa eft-
irmæli eftir þig, en þú, hetjan okk-
ar, sem varst búin að berjast í rúm
45 ár, fórst frá okkur fyrir þessi jól.
Sem barn fórstu í efiðar aðgerðir til
Danmerkur og svo til Bandaríkj-
anna, svo fórstu í síðustu aðgerðina
núna 2. desember en úr henni
komstu ekki aftur. Við bræðurnir
og nafni vorum hálfráðalausir nú á
síðasta aðfangadag, það tilheyrði
jólunum að heimsækja þig eftir há-
degi á aðfangadag, færa þér smá
pakka og þiggja kaffi og smákökur
hjá mömmu þinni, en hetjan sú hef-
ur staðið við hliðina á þér allt þitt
líf.
Drottinn er minn hirðir, mig mun
ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig
hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég
langa ævi.
(23. Davíðssálmur.)
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson.)
Fyrir hönd systkina minna votta
ég Guðrúnu, börnum og barnabörn-
um okkar dýpstu samúð og bið þess
að Guð blessi ykkur öll.
Már B. Gunnarsson.
Elsku Sigga mín, þá er tíma þín-
um hér lokið. Hann hefur verið þér
erfiður en líka góður. Þú hefur verið
umvafin góðu fólki alla tíð, ættingj-
um og vinum sem hafa gert allt til
að létta þér lífið og þú endurgoldið
það í ríkum mæli því ekki hefur
vantað þín hnyttnu svör og svo
varst þú svo skemmtileg. Þú dvaldir
oft hjá okkur í Borgarnesi, mér,
Lolla, Dísu og svo voru afi og amma
ekki langt undan, sérstaklega þegar
þú varst barn og unglingur og þá
gat nú verið fjör og líka gat hvesst á
milli okkar en það stóð nú ekki lengi
og við urðum aftur bestu vinkonur
sem við vorum alltaf.
Manstu einu sinn þegar þú varst
hjá okkur og við ekki alveg sam-
mála frænkurnar, hvessti þá hjá
okkur en lognið kom eins og alltaf,
ég dreif mig og bakaði sáttar-
pönnsur, kom svo til þín mjög
Sigríður Hulda
Sigurþórsdóttir
✝ Sigríður HuldaSigurþórsdóttir
fæddist í Reykjavík 5.
apríl 1963. Hún lést á
Landspítalanum 19.
desember síðastlið-
inn. Foreldrar hennar
eru Guðrún Karls-
dóttir, f. 18.12. 1935
og Sigurþór B Gunn-
arsson, f. 18.1. 1936,
d. 27.12. 1986. Systk-
ini Sigríðar Huldu
eru Áslaug, f. 4.1.
1958, maki Hannibal
Kjartansson, f. 13.4.
1958, og Gunnar, f. 13.4. 1959, maki
Ragnheiður Sigurþórsdóttir, f.
28.9. 1961.
Útför Sigríðar Huldu fer fram
frá Fossvogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
ánægð með mig og
pönnsurnar, býð upp
á pönnsur, þá segir þú
mér að þér þyki vond-
ar pönnsur og þá
sprungum við úr
hlátri. Eða þegar við
vorum með afa í bíl og
ég fór að syngja eitt-
hvert bull um fólkið
okkar og smá stríða
Ásgeiri og fleirum. Og
þegar við fórum með
Kötu upp í Borgarnes,
fengum stein í fram-
rúðuna og hún í mél,
við Kata trylltumst úr hlátri, þú átt-
ir ekki orð yfir okkur að hlæja að
þessu en svo sást þú líka spaugilegu
hliðina og tókst undir hláturinn. Þú
elskaðir að fá póst og sendi ég þér
kort þegar ég var úti og ef ég fór
ekki út þá var bara rukkað um kort-
ið.
Þú varst mikill ABBA-aðdáandi
og þið frænkurnar Dísa og Hanna
Lilja fóruð á ABBA-sýninguna núna
í vetur, það var æðislega gaman hjá
ykkur. Svo var líka Boney M (eða
eins og amma sagði Bonsý M) í
miklu uppáhaldi og voru plöturnar
spilaðar út í eitt.
Svona get ég haldið áfram með
margar, margar minningar sem
hrannast upp, mikið gat oft verið
gaman hjá okkur. Guð geymi þig
elsku Sigga mín og takk fyrir allt,
við hittumst síðar, bökum pönnsur,
rífumst, sættumst og verðum alltaf
bestu vinkonur. Ég elska þig.
Þín móðursystir
Hjördís Edda Karlsdóttir.
Sigga var frænka mín og vinkona
í fjörutíu og fimm ár. Erfið veikindi
fylgdu henni inn í þetta líf og hún
fór ung í skurðaðgerðir innanlands
sem utan. En þrátt fyrir erfiðleika
var hún ótrúlega dugleg að takast á
við sitt daglega líf. Ég er ekki viss
um að við höfum alltaf gert okkur
grein fyrir hversu erfitt það hefur
verið fyrir hana að mæta í sína
vinnu og komast í gegnum daginn.
Sigga var mjög næm á fólk og
fann strax ef eitthvað var ekki eins
og það átti að vera. Hún hafði góðan
húmor og hafði gaman af að hlæja
og skemmta sér á góðum stundum.
Hún var einlæg og hreinskilin og
kom alltaf til dyranna eins og hún
var klædd.
Á æsku- og unglingsárum áttum
við báðar heima í Hlíðunum og við
hittumst oft. Sigga var lagin í hönd-
unum, hafði fallega rithönd og tjáði
sig vel með því að teikna og mála.
Hún gaf mér margar myndir ótrú-
lega litríkar og fallegar og inn í þær
setti hún miklar tilfinningar.
Sigga elskaði tónlist og þá sér-
staklega Abba og Boney M. Við gát-
um endalaust spjallað um þær Ag-
nethu og Fridu í Abba og það var
ógleymanleg stund þegar við sáum
Abba-tónleikamyndina saman í
Austurbæjarbíói í gamla daga. Þeg-
ar Boney M kom til Íslands fyrir
mörgum árum og áritaði plötur í
Kringlunni fór Sigga þangað og
hitti fyrir hljómsveitarmeðlimi.
Sigga og Liz Mitchell, ein af söng-
konunum, féllust í faðma og spjöll-
uðu lengi saman. Þannig var Sigga,
ef hún hafði áhuga á einhverju
fylgdi hún því eftir og lifði sig inn í
það.
Hún átti frábæra fjölskyldu sem
studdi við bakið á henni í einu og
öllu. Hún hafði sérlega gaman af að
fylgjast með systkinabörnunum sín-
um og hafði gaman af að segja mér
sögur af þeim. Og hún fylgdist líka
vel með stórfjölskyldunni allri.
Seinna eftir að hún flutti frá móður
sinni og á sambýli var hún þó alltaf í
miklum tengslum við fjölskylduna
sína. Hún átti fallegt heimili í Muru-
rimanum síðustu árin.
Ég á fjölmargar minningar um
hana Siggu mína og við brölluðum
margt saman í gegnum tíðina. Hin
seinni ár hitti ég hana ekki eins oft
og áður. Hún var mér sérlega kær
og mun alltaf eiga stað í hjarta
mínu.
Sigríður Bachmann.
Elsku besta Sigga mín. Með þess-
um orðum langar mig til þess að
minnast þín og þakka þér fyrir þann
ómetanlega auð að hafa fengið að
kynnast þér og verða þér samferða
um veg lífsins síðastliðinn áratug.
Ég get ekki fært það í orð hversu
þakklát ég er fyrir að hafa kynnst
þér og hversu mikið þú gafst mér.
Þú varst svo einstök manneskja að
skarð þitt verður aldrei fyllt og eftir
fráfall þitt situr eftir holt rúm í
hjarta mínu. Það rúm verður nú
fyllt með ómetanlegum minningum
um einstaka konu sem ég hefði vilj-
að vera samferða miklu lengur. Það
var þitt mesta sérkenni hversu mik-
ið þú jóst úr hjartabrunni þínum til
þeirra sem snertu hjarta þitt. Þegar
þú hafðir einu sinni hleypt manni
inn í hjarta þitt þá áttir þú fastan
sess í hjarta manns alla ævi. Þú
gafst svo ómetanlega mikið af þér
með öllum þínum fögru orðum,
heillandi brosi og glettnislegu
augnaráðinu að missirinn verður
fyrir vikið mikill og sár.
Ég vildi óska þess að fleiri hefðu
náð að kynnast þér því að þú hefðir
getað kennt hverjum einasta manni
eitthvað nýtt og veitt honum úr
djúpum brunnum þínum. Ég man
svo vel hvað þú stóðst þig alltaf vel
þegar þess þurfti og hversu næm þú
varst á alla í kringum þig. Um leið
og ég hripa niður þessi minning-
arorð þá hlusta ég á ABBA og ótal
minningar sveima um hugann.
Ég man eftir göngunni okkar
löngu þar sem við dáðumst saman
að blómum og spjölluðum, ég man
eftir húsmæðraorlofinu okkar og ég
man eftir því hversu vænt mér þótti
um að þú kæmir í afmælisveisluna
mína í vor. Ég veit að enginn mun
fylla þitt skarð kæra vinkona og ég
á ekki von á því að hitta marga á
lífsleiðinni sem ná munu eins djúpt
inn í hjarta mitt og þú. Ég er þakk-
lát fyrir hverja stund og hverja
minningu sem við áttum en örlögin
hafa gripið í taumana og tíminn er
búinn. Guð hefur kallað einn sinn
allra besta engil aftur í ljósið en eft-
ir stöndum við og horfum hrygg á
eftir þér. Öllu því besta þarf að
deila og þess vegna hefur þú verið
kölluð til langt fyrir aldur fram.
Minning um yndislega manneskju
mun lifa og lýsa okkur hinum áfram
veginn. Takk fyrir mig, elsku Sigga
mín, það voru forréttindi að fá að
feta lífsins veg við hlið þér. Mig
langar til þess að enda þessa kveðju
á orðum úr Spámanninum eftir Ka-
hlil Gibran sem mér finnst eiga vel
við.
Sorgin er gríma gleðinnar. Og lindin, sem
er uppspretta gleðinnar, var oft full af
tárum. Og hvernig ætti það öðruvísi að
vera? Þeim mun dýpra sem sorgin grefur
sig í hjarta manns, þeim mun meiri gleði
getur það rúmað.
Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glað-
ur, og þú munt sjá, að aðeins það, sem
valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glað-
an.
Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá
aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú
grætur vegna þess sem var gleði þín.
En ég segi þér, sorgin og gleðin ferðast
saman að húsi þínu, og þegar önnur situr
við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu.
Elsku Guðrún, Gunnar, Áslaug og
aðrir ættingjar og vinir. Ykkur
votta ég innilega samúð mína á
þessum erfiðu tímum.
Kristbjörg Þórisdóttir.
Elsku Sigga mín. Ég trúi ekki
ennþá að þú sért farin svona alltof
fljótt frá okkur. Erfiðast finnst mér
að vera svona langt frá þér en þá
nota ég bara tímann til að rifja upp
allar okkar yndislegu stundir.
Við erum búnar að þekkjast í sex
ár og margt hefur drifið á daga okk-
ar. Eftirminnilegast er hvað þú
varst alltaf góð við mig og vildir
mér alltaf það besta. Ef þú varst til
dæmis að kaupa þér eitthvað fallegt
eða fá þér eitthvað að borða vild-
urðu alltaf gefa mér með. Einnig er
mér hátt í huga hvað þú varst alltaf
dugleg og snyrtileg, vildir alltaf
hafa fínt og fallegt í kringum þig.
Við keyptum nú saman margan
kertastjakann og blómin til að gera
íbúðina þína enn fallegri. Sérstak-
lega var gaman að setja upp jóla-
skrautið með þér, það fannst þér
alltaf jafn skemmtilegt og einnig
smá erfitt að taka það niður eftir
jólin. Ég gleymi því aldrei þegar þú
spurðir mig hvort ég hefði ekkert
millinafn og ég útskýrði að ég héti
nú bara einu nafni. Það fannst þér
alls ekki nógu gott og spurðir mig
hvort þú mættir kannski finna á
mig fallegt millinafn og ég játaði
því. Síðan eftir nokkrar vikur sagðir
þú við mig að þú værir búin að
hugsa málið vandlega og þú værir
komin með millinafn handa mér,
Guðný Rósa. Ef ég gleymdi að
skrifa Rósa á teikningarnar þínar
fallegu minntir þú mig kurteislega á
hvort ég væri ekki að gleyma ein-
hverju.
Allar þær ferðir sem við fórum
saman eru mér minnisstæðar, það
var alltaf gaman að fara eithvað
með þér. Hvort sem það var göngu-
túr, bíltúr, leikhús, tónleikar eða
eitthvað annað. Þú naust þín svo í
botn og sást alltaf það fallega og
góða í öllu. Þú kenndir mér svo
margt, elsku Sigga mín og ég er
betri manneskja eftir að hafa þekkt
þig. Megir þú hvíla í friði og ég
votta allri þinni fjölskyldu mína
samúð.
Þín vinkona,
Guðný Jónsdóttir.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(Vald. Briem.)
Elsku yndislega vinkona mín.
Þegar ég kveð þig í hinsta sinn fyll-
ist hjarta mitt mikilli sorg og sökn-
uði en um leið er ég mjög þakklát
fyrir að hafa fengið að kynnast þér
þar sem þú varst svo einstök mann-
eskja. Maður kynnist nú alveg
örugglega bara einni Siggu á lífs-
leiðinni.
Það tók yfirleitt dálítinn tíma að
kynnast þér, þó mér hafi fundist sá
tími óvenju stuttur hjá okkur. Þeg-
ar þú svo hleyptir manni inn áttir
þú mann alveg og sést það best á
þeim vinaskara sem þú hefur sank-
að að þér í gegnum árin.
Þrátt fyrir að vinátta okkar hafi
kannski ekki staðið í mörg ár þá
vorum við mjög nánar og áttum
margar yndislegar stundir saman.
Eins og þegar við fórum í sum-
arbústað saman sumarið 2007
ásamt fleira góðu fólki; verslunar-
ferðirnar, kaffihúsaferðirnar og all-
ar hinar gæðastundirnar.
Frost og funa-ferðin okkar núna í
sumar var alveg æðisleg. Þar vorum
við bara tvær vinkonurnar og nut-
um við okkar sko vel. Þar gátum við
gert allt sem okkur fannst svo gott
að gera saman svo sem borðað góð-
an mat, hlustað á ABBA, Palla eða
Bony M, kíkja í búðir, skreppa í bíl-
túr, teikna, spjalla eða bara að sitja
saman í þögninni. Það var einmitt
svo sérstakt við þig kæra vinkona,
það var svo gott að vera í kringum
þig bara sitja hjá þér og segja ekk-
ert og gera ekkert. Ef manni leið
ekki alveg nógu vel þá var alltaf svo
gott að koma inn í fallegu íbúðina
þína og fá að setjast niður hjá þér.
Þá leið manni alltaf betur og ég tala
nú ekki um ef maður fékk að sjá fal-
lega brosið þitt. Þú vissir sko alltaf
ef manni leið ekki vel, því eins og
systir mín orðaði það svo vel þá var
tilfinningagreind þín svo langt fyrir
ofan það sem gerist hjá meðal-
manni.
Minningar um allar góðu stund-
irnar geymi ég eins og gull í hjarta
mér kæra vinkona. En áður en ég
kveð þá verð ég að nefna samband
þitt og mömmu þinnar hennar Guð-
rúnar. Það var svo ofsalega fallegt,
hvernig þið pössuðuð hvor upp á
aðra. Elsku Guðrún, Gunnar og Ás-
laug, ykkur og fjölskyldum ykkar
sendi ég mínar dýpstu samúðar-
kveðjur.
Elsku Sigga mín, ég gæti sagt
endalaust fallega hluti um þig en
það er bara eitt sem mig langar að
segja við þig að lokum: Takk fyrir
að hafa leyft mér að kynnast þér og
hvíldu í friði, dýrmæta vinkona mín.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem.)
Þín
Helga Margrét Haraldsdóttir.
Elsku Sigga sæta, við trúum ekki
að þú sért farin og eigum við eftir
að sakna þín mjög mikið. Að eignast
vinkonu eins og þig er ómetanlegt.
Við eigum aldrei eftir að gleyma þér
og þeim góðu minningum sem við
eigum um þig. Abba-tónlistin á allt-
af eftir að minna okkur á þig. Sum-
arbústaðaferðin í sumar var mjög
eftirminnileg og stendur upp úr
ferðin á Gullfoss, þar sem að þú
naust þín svo vel. Kvöldið var ekki
síður skemmtilegt þegar við töluð-
um saman langt fram eftir, borð-
uðum osta og drukkum bjór.
Stakkst þú svo upp á að við stelp-
urnar myndum fara í pottinn. Þar
var hlegið og haft gaman og létum
við hann „BOB“ okkar þjóna okkur
í pottinum eins og við værum
drottningar, sem þú svo sannarlega
varst.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni
svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Elsku Sigga, takk fyrir tímann
sem við áttum með þér. Þín verður
sárt saknað og ætlum við að kveðja
þig með þessum orðum TÚRILÚ.
Elsku Guðrún og fjölskylda, við
vottum ykkur okkar dýpstu samúð
á þessum erfiðu tímum. Guð veri
með ykkur.
Signý Hrund Svanhildardóttir
og Klara Sjöfn Kristjánsdóttir.
Nú farin ertu frá okkur elsku vin-
kona. Eftir situr mikill söknuður og
eftirsjá. Þú varst yndisleg mann-
eskja og eru allir sem kynntust þér
ríkari fyrir vikið. Það tók ekki lang-
an tíma að sjá hversu gífurlegan
persónuleika þú hafðir að geyma.
Með honum heillaðirðu okkur öll.
Það sem mun lifa lengst í minnum
okkar er fallega bros þitt og smit-
andi hlátur. En það er erfitt að velja
eitthvað eitt, því þú varst okkur svo
eftirminnileg á allan hátt. Allar
skemmtilegu stundirnar og andar-
tökin sem verða seint gleymd.
Fyrstu stundirnar með þér fólu yf-
irleitt í sér að teikna mynd og
dróstu fram mikinn listamann í okk-
ur öllum. Það var á þessum stund-
um sem vináttan óx og órjúfanleg
tengsl sem aldrei verða rofin. Við
munum alla okkar daga hugsa til
þín með hlýju og væntumþykju og
finna leið til að viðhalda þessum
sterku tengslum.
En við áttum einnig með þér ynd-
islegar stundir, þar sem þögnin réð
ríkjum og þar fengum við tækifæri
til að mæta þér þar sem þú varst
hverju sinni. Því að geta þagað sam-
an segir svo mikið um þá vináttu
sem við öll fundum fyrir með þér.
Það var svo ómetanlegt að finna
traustið sem þú barst til okkar. Við
fengum það margfalt tilbaka með
vináttu þinni sem þú hafðir enda-
laust að gefa okkur. Það sem meira
er, við höfðum svo margt af þér að
læra. Þú kenndir okkur nærgætni
og þolinmæði. Ekki síður að njóta