Morgunblaðið - 31.10.2009, Qupperneq 39
Minningar 39
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. OKTÓBER 2009
tíðarinnar, áttir sæti í bæjarstjórn
og varst góður liðsmaður í lúðra-
sveitinni. Ekki má ég gleyma að
nefna það að listagyðjan var þér
gjöful og málaðir þú margar falleg-
ar myndir. Ég man sérstaklega eft-
ir einni sem þú kallaðir „einelti“ en
hún sýndi tvo hvíta svani að elta
svartan svan.
Við systkinin áttum líka góðar
stundir nú seinni ár og þá er mér
efst í huga kvöldstund ásamt mök-
um okkar í sumarbústað í Skorra-
dal og heimsókn ykkar Jónu þegar
ég varð áttræð.
Tryggvi, minn elskulegi bróðir.
Ég þakka þér allt sem þú gafst okk-
ur með því að vera til. Ég veit þú
varst búinn að eiga í erfiðum veik-
indum og líklega orðinn þreyttur en
engu að síður er alltaf sárt að
kveðja þá sem manni þykir vænt
um.
Ég bið guð að styrkja Jónu þína
og dæturnar, þær Karenu, Júlíu og
Ásgerði og fjölskyldur þeirra. Góða
heimferð, vinurinn, það verður
örugglega tekið vel á móti þér. Við
kveðjum þig með söknuði.
Þín systir,
Ingibjörg.
Æskufélagi og vinur, Tryggvi
Jónasson, er látinn, nokkrum dög-
um eldri en áttræður. Hann fæddist
4. október 1929, en lést þann 17.
október í ár. Andlát Tryggva snart
mig og fjölmarga vini, drengi og
stúlkur, sem kynntust sem börn í
skóla á Ísafirði og haldið hafa hóp-
inn og hist og glaðst saman, oft með
nokkurra daga samveru í einu, allt
frá berskudögum. Þau orð sem hér
eru sögð eru fyrir munn okkar
allra. Tryggvi var mannkostamað-
ur, óeigingjarn og velviljaður.
Hann var mannblendinn og vin-
margur þegar í æsku. Hlýjan og
sólskinið í kringum hann verður
mér og okkur skólasystkinunum frá
Ísafirði ógleymanlegt.
Ungur kynntist Tryggvi Vest-
mannaeyjastúlkunni Jónu Margréti
Júlíusdóttur, sem kom til náms í
húsmæðraskóla á Ísafirði, og urðu
þau hjón. Jóna lifir mann sinn og
stúlkurnar Ásgerður, Júlía og Kar-
en. Þeim og fjölmörgum afkomend-
um vottum við vinahópurinn inni-
lega samúð og hluttekningu í harmi
þeirra.
Í amstri dægranna var Tryggvi
rennismiður. Þá iðn lærði hann á
Ísafirði, en starfaði lengst að henni
í Vestmannaeyjum, en þangað flutt-
ist hann um 1950. Hann vann í upp-
hafi í svonefndri Steinasmiðju, en
síðar stofnuðu nokkrir félagar vél-
smiðjuna Völund, en hún samein-
aðist eftir nokkur ár Skipalyftunni,
en þar var starfsvettvangur
Tryggva og fjölmargra lærisveina
hans um langan aldur.
Af þeim ótal ánægjustundum og
dögum, sem við öll áttum saman á
langri ævi, var þriggja daga heim-
sókn hópsins til Vestmannaeyja af-
ar minnisstæð. Sú för varð öllum
ógleymanleg, enda rausn þeirra
hjóna og getrisni stórfengleg.
Tryggvi er genginn, en hann lifir
enn í hjörtum okkar og minningum.
Slíks manns sem hann var er gott
að minnast.
Kristján Arngrímsson.
Það var vorið 1971 sem ég byrj-
aði að læra vélvirkjun í Vélsmiðj-
unni Völundi hér í bæ. Þá kynntist
ég Tryggva Jónassyni fyrst, og það
var dálítið merkilegt að við urðum
strax mjög góðir vinir frá fyrstu tíð.
Kannski vegna þess að ég á ættir
mínar að rekja til Vestfjarða eins
og hann. Tryggvi var einn af eig-
endum Völundar ásamt Tryggva
Jóns, Friðþóri Guðlaugs, Erlendi
Eyjólfssyni og Gunnlaugi Axels-
syni. Allt voru þetta fínir karlar og
góðir félagar. Tryggvi Jónasson var
alltaf hress og stutt í glensið hjá
honum, hann var aldrei neitt sér-
staklega alvörugefinn og var alltaf
til í að taka þátt í fíflaríinu hjá okk-
ur peyjunum sem unnum í Völundi
á þessum árum.
Árið 1976 fóru við Tryggvi saman
í „útgerð“ ásamt þeim Gulla heitn-
um Axels og Hrafni Steindórssyni
vinnufélögum okkar. Við festum
kaup á nýrri þriggja tonna trillu og
fóru páskarnir það ár í að stand-
setja trilluna, setja niður vél, smíða
stýrishús o.fl. Trillan var skírð
Fjarki VE 444 og fórum við fé-
lagarnir ófáa túrana á skak eða
skytterí. Við Tryggvi vorum dug-
legastir okkar eigendanna að róa,
og það var ekki mikið kynslóðabil
milli okkar, því það kom fyrir um
sumarið að þegar ég var að koma af
balli þrjú, fjögur um nótt og gott
veður þá hringdi ég í Tryggva og
dreif hann á sjó. Það var aldrei
vandamál, alltaf klár. Tryggva
fannst það reyndar ekkert leiðin-
legt, að þegar líða fór á daginn fór
gamanið að kárna hjá mér og sjó-
veiki að hellast yfir vegna gleði
næturinnar og gerði hann óspart
grín að mér.
Við Tryggvi unnum saman í 20
ár, fyrst í Völundi, síðan í Skipalyft-
unni og vorum við alla tíð góðir vin-
ir og félagar. Þegar ég rak verk-
stæðið mitt upp úr 1990 leitaði ég
ósjaldan til Tryggva með ýmis
vandamál sem upp komu og stóð
aldrei á því að hann leysti þau fyrir
mig, í mínum huga var hann algjör
öðlingur.
Ég votta Jónu og fjölskyldu inni-
legustu samúð.
Hallgrímur Tryggvason
og fjölsk.
Kveðja frá Skipalyftunni
Í dag kveðjum kveðjum við
Tryggva Jónasson, fyrrverandi
meðeiganda og samstarfsmann til
margra ára. Kynni mín af Tryggva
hófust fyrir alvöru þegar við hófum
störf hjá Skipalyftunni í Vest-
mannaeyjum 1981, en Skipalyftan
varð til við sameinigu þriggja iðn-
fyrirtækja í Eyjum.
Tryggvi var menntaður renni-
smiður. Hæfileikar hans við renni-
bekkinn voru miklir, og leysti hann
oft erfiðustu verkefni þótt tækja-
kosturinn sem þá var notaður þætti
ekki merkilegur í dag. En hæfileik-
ar Tryggva voru ekki eingöngu
bundnir við rennibekkinn, hann
þótti handlaginn í því sem hann tók
sér fyrir hendur. Tryggvi hafði
gaman af því að mála. Eftir að
starfsdegi hans í Skipalyftunni lauk
fór hann að sinna þessu áhugamáli
sínu, fór m.a. á námskeið með þeim
sem höfðu sömu áhugamál. Það
kom fljótlega í ljós eftir að Tryggvi
fór að sinna þessu áhugamáli sínu
að í honum leyndist listamaður. Ég
held að fari ekki með rangt mál að
Tryggvi hafi tekið þátt í einni sýn-
ingu.
Tryggvi hafði skoðun á flestu
milli himins og jarðar. Við vorum
ekki alltaf sammála, við vildum
stundum nálgast hlutina hvor frá
sínum endanum, en takmörkin hjá
okkur voru þau sömu; að vilja hag
Skipalyftunnar og starfsmanna
hennar sem mestan. En það sem ég
virti mest við Tryggva var það að
hann kom til dyranna eins og hann
var klæddur, sagði sínar skoðanir
umbúðalaust við hvern sem er, án
þess að vera óheiðarlegur. Þegar ég
hugsa til baka sé ég það að Tryggvi
hafði oftar en ekki rétt fyrir sér.
Tryggvi var mikill fjölskyldu-
maður og vildi hag fjölskyldu sinn-
ar sem mestan, þar held ég að
barnabörnin hafi notið góðs af.
Tryggvi var stoltur af sínu fólki, og
má hann vera það, sum af barna-
börnum hans eru mikið íþróttafólk
og skara þar fram úr svo tekið er
eftir.
En lífið lék ekki alltaf við
Tryggva og fjölskyldu hans frekar
en aðra. Tryggvi missti tvo bræður
sína í snjóflóðum, annan í Neskaup-
stað og hinn á Ísafirði.
Þegar Tryggvi var kominn á sex-
tugsaldurinn fékk hann alvarlegt
hjartaáfall, hann háði hetjulega
baráttu við þennan sjúkdóm það
sem hann átti eftir ólifað, hann
hreinlega storkaði honum. Ég veit
að Tryggvi fór ekki alltaf eftir því
sem læknar ráðlögðu honum. Hann
ætlaði að berjast á móti, hann vildi
lifa lífinu. Og ekki var hann að hlífa
sér í vinnunni eftir að hann hóf
störf aftur eftir veikindi sín. En
hann varð að gefa eftir að lokum.
Ekki alls fyrir löngu þurfti Tryggvi
að fara í mjög erfiða aðgerð sem
síðan dró hann til dauða hinn 17.
okt. sl. Októbermánuður er okkur
Skipalyftumönnum ekki til heilla,
því hinn 16. okt. 2006 lést Gunn-
laugur Axelsson, einn af meðeig-
endum okkar, í bílslysi, og daginn
eftir, 17. okt. sama ár, hrundu upp-
tökumannvirki Skipalyftunnar,
þannig að október er enginn uppá-
haldsmánuður hjá okkur.
Nú þegar komið er að kveðju-
stund viljum við meðeigendur þínir
og fyrrverandi samstarfsmenn í
Skipalyftunni þakka þér fyrir sam-
starfið. Við biðjum Guð almáttugan
að halda verndarhendi yfir Jónu
eiginkonu Tryggva, dætrum hans
og fjölskyldum þeirra.
Guð blessi góðan dreng.
Stefán Örn Jónsson.
Fleiri minningargreinar
um Tryggva Jónasson bíða birtingar
og munu birtast í blaðinu næstu
daga.
Jódís Stefánsdóttir
✝ Jódís Stef-ánsdóttir fædd-
ist á Norður-
Reykjum í Hálsa-
sveit í Borgarfirði
31. október 1927.
Hún lést á Hjúkr-
unarheimilinu Eir í
Reykjavík 27. september 2009. For-
eldrar hennar voru hjónin Stefán
Þorvaldsson, bóndi á Norður-
Reykjum, f. í Hægindi í Reykholts-
dal 24. júní 1892, d. 28.október
1971 og Sigurborg Guðmundsdóttir,
f. í Dyngju á Hellissandi 24. sept-
ember 1899, d. 5. ágúst 1978. Jódís
var elst 6 systkina. Systkini hennar
eru: Guðríður, f. 8. desember 1930,
búsett í Lindarbæ, Reykholti. Þor-
valdur, f. 15. júlí 1932, búsettur í
Reykjavík. Kona hans Sveinbjörg
Jónsdóttir. Þau eiga 5 börn. Guðrún
Sigríður, f. 30. mars 1935, búsett í
Reykjavík. Maki Óskar Ósvaldsson.
Snæbjörn, f. 14. ágúst 1936, d. 5.
janúar 2006.
Sambýliskona Kristrún Valdimars-
dóttir. Snæbjörn átti 4 börn með
fyrrverandi konu sinni Helgu Bene-
diktsdóttur. Þórður, f. 15. október
1939, búsettur á Arnheiðarstöðum
sem er nýbýli út frá Norður-
Reykjum. Kona hans er Þórunn
Reykdal og eiga þau 2 syni. Þórður
á kjördóttur frá fyrra hjónabandi.
Eiginmaður Jódísar var Hálfdán
Daði Ólafsson, f. í Bolungarvík, 3.
ágúst 1926, d. 26. september 1993.
Börn þeirra eru: Margrét, f. 19.
september 1953. Maki Benedikt
Jónsson. Hún á 4 börn, Sigurð Hálf-
dán, Guðna Frey, Snædísi Perlu og
Húna. Hlédís Sigurborg, f. 31. júlí
1956. Maki Gunnar Sigurðsson. Þau
áttu 3 börn, Róbert Anna, Jódísi
Tinnu sem lést á fyrsta ári og
Sunnu Kamillu. Stefán Grímur, f.
24. júlí 1958. Maki Rigmor Rössling.
Hann átti 1 son, Brynjar, sem lést
árið 2000, 24 ára að aldri. Móðir
hans er Bylgja Bragadóttir. Kristján
Gunnar, f. 4. ágúst 1960. Maki Guð-
ríður Magnúsdóttir. Dóttir þeirra er
Elín Arna. Jóna Daðey, f. 11. sept-
ember 1961. Maki Albert Krist-
jánsson. Þau eiga 3 börn, Kristján,
Halldór og Daðeyju. Guðrún Sigríð-
ur, f. 29. október 1963. Maki Gunn-
laugur Guðmundsson. Þau eiga 2
börn, Birki Snæ og Jódísi Erlu. Fyrir
átti Guðrún Silju Dögg. Faðir henn-
ar var Sigurður Sveinsson, d. 4. júlí
2004. Barnabörnin voru 15 (tvö eru
látin eins og áður kom fram; Brynj-
ar og Jódís Tinna). Barna-
barnabörnin eru 11.
Jódís ólst upp á Norður-Reykjum
til fullorðinsára. Hún stundaði nám
í Héraðsskólanum í Reykholti í 2 ár
eftir skyldunám. Um tvítugt fór hún
að fara til starfa í Reykjavík að
vetrinum en var heima að sumrinu.
Hún stundaði ýmis störf fram að
giftingu. Frá árinu 1965 vann hún
hins vegar ávallt fullan vinnudag,
fyrst í Hraðfrystistöðinni og síðan
hjá Bæjarútgerðinni. Seinna á lífs-
leiðinni vann hún við fram-
reiðslustörf, á Kránni og í Múla-
kaffi. Hún vann einnig hjá
Hollustuvernd en síðustu starfsár
sín vann hún hjá Síldarréttum í
Kópavogi.
Útför Jódísar fór fram 6. október.
✝
Þökkum auðsýnda samúð vegna andláts og útfarar
móður okkar,
INGIGERÐAR BJARNADÓTTUR
frá Andrésfjósum,
síðast til heimilis Sólvöllum,
Eyrarbakka.
Sérstakar þakkir til starfsfólksins á Sólvöllum.
Fyrir hönd annarra aðstandenda,
Hermann Ágúst,
Ingimar Þorbjörnsson,
Ingveldur Þorbjörnsdóttir.
✝
Þökkum innilega samúð og hlýhug við andlát og
útför hjartkærs sonar okkar og bróður,
STEINÞÓRS EDVARDSSONAR.
Sérstakar þakkir til starfsfólks sambýlisins að
Klettahrauni 17 Hafnarfirði fyrir sérstaka alúð og
umhyggju.
Ósk Skarphéðinsdóttir, Edvard Oliversson,
Hólmfríður Edvardsdóttir, Ari Jónsson,
Oliver Edvardsson, Sigrún Björk Sigurðardóttir,
Edda Lovísa Edvardsdóttir, Agnar Guðmundsson
og fjölskyldur.
✝
Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og
hlýhug við andlát og útför okkar ástkæru
ÞÓRÖNNU HANSEN,
Öldugötu 6,
Dalvík.
Sérstakar þakkir færum við læknum og starfsfólki
gjörgæsludeildar Fjórðungssjúkrahússins á
Akureyri fyrir góða umönnun.
Aðalsteinn Grímsson,
Hildur Aðalsteinsdóttir, Ólafur Baldursson,
Aðalsteinn Ólafsson, Andrea Pálína Helgadóttir,
Andri Þór Ólafsson,
Hildur Helga Aðalsteinsdóttir,
Hildur Hansen, Þórir Stefánsson.