Saga - 1976, Page 98
90
JÓN Þ. ÞÓR
Heimildir um Gránufélagsverzlunina í Siglufirði á dögum
Snorra eru einkum skilagreinar verzlunarstjórans um
rekstur verzlunarinnar á ári hverju. Skilagreinarnar, sem
eru í reynd ársuppgjör, er að finna í skjalasafni Norður-
amtsins á Akureyri. Úr þeim eru fengnar allar tölur um
afkomu verzlunarinnar, sem birtar eru í ritgerðinni. Bréf,
sem fóru á milli þeirra Snorra, Tryggva Gunnarssonar og
Einars B. Guðmundssonar, eru öll í bréfasafni Tryggva í
Bóka- og skjalasafni Seðlabanka Islands, nema annað sé
tekið fram. Bréfakaflar eru allir birtir orðréttir og staf-
réttir í ritgerðinni. Aðrar heimildir, sem stuðzt hefur verið
við, og vitnað er til er óþarft að skýra nánar. Er þeirra og
allra getið í heimildaskrá.
1. Uppvöxtur og námsár.
Snorri Pálsson fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal 4.
febrúar 1840. Foreldrar hans voru Páll Jónsson, sem þá
var barnakennari hjá Bjarna amtmanni Thorarensen, og
fyrri kona hans, Kristín Þorsteinsdóttir. Hinn 6. júní 1841
var Páll vígður aðstoðarprestur sr. Gamalíels Þorleifs-
sonar á Myrká í Hörgárdal, og gegndi hann því embætti
unz honum var veitt brauðið eftir dauða sr. Gamalíels
árið 1846. Árið 1858 voru honum veittir Vellir í Svarf-
aðardal og enn síðar þjónaði hann Viðvíkurprestakalli í
Skagafirði.
Af uppvaxtarárum Snorra Pálssonar fara fáar sögur.
Hann hefur vafalítið alizt upp á líkan hátt og flest íslenzk
börn á þeim tíma. Þó má telja líklegt, að hann hafi átt
betri kost menntunar en almennt gerðist. Sr. Páll Jónsson
var vel menntaður maður, og sem fyrr er getið stundaði
hann barnakennslu áður en hann tók prestsvígslu. Sr.
Páll var meðal höfuðklerka sinnar samtíðar, hann samdi
bænakver, sem voru gefin út margsinnis, og var gott
sálmaskáld. Á meðal sálma hans má nefna barnasálminn
alkunna, „Ó Jesú bróðir bezti“ og „Sigurhátíð sæl og blíð“.