Saga - 1976, Page 122
114
JÓN Þ. ÞÓK
Hins vegar var hvergi, hvorki í frumvarpinu sjálfu né
í hinum samþykktu lögum, minnzt einu orði á Siglufjarðar-
skarð, heldur einungis talað um fjallvegi almennt.30
Sá höfundur, sem setti fram þessar skoðanir, sagði og,
að Snorri hefði fengið breytt ferðum landpósts þannig, að
reglulegar póstferðir til Siglufjarðar hefðu hafizt. Þetta
mál kom ekki til umræðu á neinu af þeim þingum, sem
Snorri sat, en víst má vera, að hann hafi fengið því
framgengt á öðrum vettvangi.
Auk þess, sem hér hefur verið rakið, hafði Snorri af-
skipti af ýmsum fleiri málum á þinginu 1875. Þau voru þó
öll svo smávægileg, að ekki er ástæða til að rekja nánar.
Þegar á heildina er litið, virðist mér svo sem Snorri
Pálsson hafi unnið vel á fyrsta þinginu, sem hann sat, og
verið drjúgur liðsmaður þótt trauðla verði sagt, að hann
hafi skipað sér í fremstu röð þingskörunga.
Þegar þing kom saman árið 1877, hlaut Snorri Pálsson
sæti í neðri deild sem fyrr og var enn kjörinn í fjárlaga-
nefnd. Við aðra umræðu um fjárlögin tók hann til máls
og gagnrýndi enn meðferð kollektusjóðsins, einkum þó
að fé væri tekið úr honum til framkvæmda, sem ríkissjóður
ætti að kosta lögum samkvæmt. Einnig taldi Snorri öll
reikningsskil sjóðsins, sem nefndist Styrktarsjóður, er
hér var komið sögu, ákaflega óglögg. Loks gagnrýndi
hann það atriði fjárlaganna, að lestagjald af gufuskipum,
sem önnuðust strandferðir hér við land, væri dregið af
því fé, er ríkissjóður á ári hverju ætti að veita landinu.31
Með þessu má segja, að afrek Snorra Pálssonar á þinginu
séu upptalin. Hann tók mjög sjaldan til máls, og væri
hann meðflytjandi að frumvörpum eða tillögum, hafði
hann aldrei framsögu sjálfur. Ekki er auðvelt að skýra,
hvers vegna Snorri hefur haft sig svo lítt í frammi, en
vera má, að hann hafi ekki talið þau mál, er helzt voru til
umræðu, skipta sig svo miklu. Má í þessu viðfangi benda
á þá staðreynd, að Snorri tók helzt til máls, eða gerðist
flytjandi „eyfirzkra" mála, t. d. stóð hann ásamt fleirum