Saga - 1976, Side 142
134
SIGURÐUR RAGNARSSON
ist, en engin tímamörk sett á upphaf framkvæmda.22)
Hvað vatnsréttindin í Skjálfandafljóti áhrærði, þurfti
leigutaki ekki að inna af hendi neinar greiðslur fyrr en
árið 1910, nema framkvæmdir hæfust fyrir þann tíma.
Mælikvarði sá, sem farið var eftir við ákvörðun leigu-
gjaldsins, þ. e. virðingarverð jarðarinnar, leiddi í ýmsum
tilvikum til fráleitrar niðurstöðu. Jörðin Ljósavatn var
um þessar mundir virt á 6000 kr. Af því leiddi, að árlegt
leigugjald fyrir vatnsréttindi jarðarinnar átti að vera
200—300 kr.23) Hafursstaðir, sem tilheyrðu kirkjujörð-
inni Skinnastað, voru hálfgert kot og höfðu tímum saman
verið í eyði, enda ekki virtir á nema 960 kr.24) Þetta leiðir
í ljós svo glöggt sem verða má, að sú leiga, sem koma
skyldi fyrir vatnsréttindi þessarar jarðar, var fáránlega
lág, þegar haft er í huga, að mesti foss Islands, Dettifoss,
var í landi hennar!
Ástæðan til þess, að annað eins og þetta gat yfirleitt
gerzt, lá að sjálfsögðu í því, að nær engir hér á landi báru
skyn á notagildi vatnsaflsins til raforkuframleiðslu, og
fæstir gerðu sér því nokkra raunhæfa grein fyrir því, um
hve mikil verðmæti hér var að tefla. Svo virðist sem
menn hafi yfirleitt verið óðfúsir að láta af hendi gegn vægu
gjaldi umráð yfir þeim vatnsréttindum, sem heyrðu til
jarðeignum þeirra. Afstaða þessara aðila virðist hafa
mótazt af tvennu: Annars vegar þóttust þeir hér eygja
leið til að gera arðgæfa án nokkurrar fyrirhafnar eign,
sem fram til þessa hafði verið þeim arðlaus. Hins vegar
mátti öllum vera ljóst, að einstakir jarðeigendur myndu
undir engum kringumstæðum geta hagnýtt sér af eigin
rammleik þau miklu fallvötn, sem hér var um að ræða.
Hvað sem öðru líður er ljóst að ekki var á þessum árum
22) Nál. minnihl. fossan. 1917, bls. 49.
23) Þjóðskjalasafn, Atvinnumálaskrifstofa 1937 nr. 4328.
24) Ibid,