Saga - 1976, Page 154
146
SIGURÐUR RAGNARSSON
ekki síður stórfossanna. Stóru fossarnir væru hins vegar
ekkert meðfæri landsmanna, eins og sakir stæðu, og yrðu
það naumast um langa framtíð. Því yrði ekki komið á fót
neinum stórfyrirtækjum við íslenzka fossa í fyrirsjáan-
legri framtíð, nema til kæmi atbeini erlendis frá. Vegna
afskekktrar legu landsins og þekkingarleysis erlendra
manna yfirleitt á landi og þjóð væri engin von til, að át-
lendingar leituðu hingað að fyrra bragði til að koma á fót
stórfyrirtækjum. „Eigi nokkurt slíkt fyrirtæki að kom-
ast á fót, þurfum vér að hafa einhvern Islending, sem
hafi verklega kunnáttu og næga þekkingu í því efni svo
tillögum hans verði gaumur gefinn. Mér vitanlega er að-
eins einn Islendingur, er sé til þess hæfur, og það er Oddur
Sigurðsson vélfræðingur í Lundúnum." Greinarhöfundur
er þeirrar skoðunar, að landi og þjóð myndi ótvíræður
akkur í að hér risu stór iðjufyrirtæki, og hann virðist
hafa talsverða trú á því, að Oddur gæti einhverju áorkað
í þeim efnum. Hann biður menn þó gjalda varhug við að
selja útlendingum fossana, en telur einsýnt að leigja Oddi
þá fossa, sem hann falist eftir, því að „hér býðst mögu-
leiki til þess að fá verð fyrir fossana um lengri eða
skemmri tíma, og það upphæð, sem um munar“. Öll er grein
Jóns Jónssonar hófsamleg og málefnaleg, þrátt fyrir
hvatningu hans til landsmanna um að leggja áformum
Odds Sigurðssonar lið. Austri er sýnu skorinorðari í frétta-
greininni um viðtal blaðsins við Odd, og hrifning blaðsins
vegna hinna fyrirhuguðu stórfyrirtækja talsvert há-
stemmd.
Hitt blaðið, sem gefið var út á Seyðisfirði á þessum
árum, Bjarki, tók einnig þátt í umræðunum um fossamálið.
Hinn 30. marz 1899 fjallaði Bjarki um þróun fossamála í
Noregi og þá lærdóma, sem íslendingar gætu af henni
dregið. Hinn 13. maí birtist í blaðinu alllöng grein á for-
síðu undir fyrirsögninni Fossaafl. Fossasala. Greinin er
óundirrituð, en líklegt verður að telja, að höfundur hennar
sé ritstjóri blaðsins, Þorsteinn Erlingsson skáld. Greinar-