Saga - 1976, Blaðsíða 162
154
SIGURÐUR RAGNARSSON
frumvarpið myndi hljóta samþykki þingsins, og því lagði
hann alla áherzlu á að fá frumvarpinu breytt „þannig að
það (gerði) sem minnstan skaða“. I þessu skyni flutti
hann m. a. tillögu um að halda fast við leyfisfyrirkomu-
lagið í öllum tilvikum. Sú tillaga féll þó á jöfnum atkvæð-
um. Efri deild samþykkti síðan frumvarpið og afgreiddi
það til neðri deildar á fundi sínum hinn 17. júlí með 8:1
atkvæði.
Nú hefði mátt ætla, að frumvarpinu væri tryggður
greiður gangur gegnum þingið, í ljósi þess hver afstaða
hinna þjóðkjörnu þingmanna hafði jafnan verið til þessa
máls, ekki sízt þeirra þingmanna, sem sæti áttu í neðri
deild 1899. Frumvarpið kom til 1. umræðu í deildinni hinn
19. júlí og var þá ákveðið að kjósa nefnd til að fjalla um
það. I nefndina voru kosnir þeir Guðlaugur Guðmundsson,
þm. Vestur-Skaftfellinga, Lárus H. Bjamason, þm. Snæ-
fellinga og Ólafur Briem. Álit nefndarinnar kom ekki fram
fyrr en hinn 18. ágúst, og kvað þar við nokkuð annan tón
en búast hefði mátt við.19) 1 nefndarálitinu sagði m. a.:
„Það verður varla sagt, að brýna nauðsyn beri til að setja
lög um þetta efni. Útlendingar hafa, enn sem komið er, ekki
ásælzt landið eða framleiðslutæki þess, svo að ískyggilegt
sé. Því verður hins vegar ekki neitað, að útlendingar kynnu,
einkum ef nýjar auðsuppsprettur fyndust í landinu, að
færa sig upp á skaftið, og væri þá gott að hafa lög til taks,
er girtu fyrir hættu úr þeirri átt“. Nefndin lagði til þá
breytingu á frumvarpinu, eins og það kom frá efri deild,
að felld yrði niður krafan um lagasetningu, en leyfisleiðin
farin, og umboðsvaldinu falinn allur ákvörðunarréttur í
þessu efni. Afstaða nefndarinnar virðisf mótast af því, að
hún taldi enga sérstaka þörf á lagasetningu af þessu tagi.
Lögin væru hins vegar skaðlaus við ríkjandi aðstæður og
fælu e. t. v. í sér nokkra tryggingu upp á seinni tíma, og
því væri ekkert á móti því, að þau næðu fram að ganga.
io) Alþingistíðindi 1901 C, þskj. 552, bls. 692—693.