Saga - 1976, Blaðsíða 168
160
SIGURÐUR RAGNARSSON
Jóhannes ólafsson, Magnús Andrésson, Ólafur Briem og
Stefán Stefánsson Eyfirðingur. Guðlaugur Guðmundsson
var formaður nefndarinnar.
Nefndin hafði frumvarpið nokkuð lengi til meðferðar,
því að hún skilaði ekki áliti um það fyrr en 30. ágúst, og
var málið síðan tekið fyrir að nýju 7. september.25)
En á meðan nefndin hafði frumvarpið til meðferðar,
blossaði upp umræða um málið í blöðunum. Það var Ing-
ólfur, róttækasta blað stjórnarandstöðunnar og málgagn
Landvarnarflokksins, sem þar reið á vaðið.20) Blaðið
hafði áður tekið til meðferðar ákveðna þætti fossamálsins,
t. d. þá möguleika, sem Islendingum stæðu nú opnir á
sviði iðnaðar með beizlun vatnsaflsins. Einnig hafði
Ingólfur lýst fyrir lesendum sínum þróun stóriðju í Nor-
egi og jafnframt varað eindregið við því, að sagan frá
Noregi um stórfelld fossakaup útlendinga yrði látin endur-
taka sig hér á landi.27)
Hinn 18. ágúst birtist í Ingólfi löng forsíðugrein um
fossamálið. Þar sagði m. a. af þróun fossamála í Noregi
og gerð var ítarleg grein fyrir starfi Bredalnefndarinnar
svonefndu og tillögum hennar til sérleyfislaga um fossa,
skóga og náma.28) Blaðið varaði landsmenn eindregið við
því að láta af hendi fossa og fasteignir við útlendinga
tryggingarlaust og lét í ljós ugg um, að ásókn útlendra
auðmanna, einkum Englendinga, í íslenzk vatnsföll mundi
fara vaxandi vegna hinnar nýju lagasetningar í Noregi.
Þá vék Ingólfur rækilega að frumvarpi landstjórnar-
25) Alþingistíðindi 1907 A, bls. 1011—1012 og 1907 B, dálkur 1773.
20) Ingólfur, 18. ágúst 1907.
27) Ingólfur 11. febrúar 1906 og 28. janúar 1907.
28) Nefndin var kennd við formann sinn, Johan Olaf Bredal lög-
fræðing (1862—1948). Sjá um hann í Norsk biografisk leksi-
kon II, bls. 161—162. Hvað deilurnar um fossamálin og sér-
leyfislöggjöfina í Noregi áhrærir, vísast m. a. til Wilhelm
Keilhau: Det norske folks liv og historie. Vár egen tid. Bls.
80—150.