Saga - 1976, Blaðsíða 173
FOSSAKAUP OG FRAMKVÆMDAAFORM
165
hljóða sem hér seg’ir: „Leyfi til að eignast fossa eða
notkunarrétt á fossum skv. 1. gr. skal bundið þeim skil-
yrðum er hér segir.
a. að leyfið gildi aðeins um tiltekið tímabil, í lengsta
lagi 100 ár. Að þeim tíma liðnum skal fossinn og aflstöðin
verða eign landssjóðs án endurgjalds.
b. að landssjóður eigi rétt á að kaupa fossinn og afl-
stöðina ásamt landi því og réttindum, er henni fylgir,
eftir 50 ár frá því er leyfið er veitt, þó svo að sagt sé til
kaupanna með 5 ára fyrirvara. Kaupverð skal miða við,
hvað leyfishafi hefur borgað fyrir fossinn og hvers virði
aflstöðin er.
c. að leyfishafi sé skyldur, ef landstjórnin krefst þess,
að láta af hendi allt að 10% af starfsaflinu, 5% við landið
og 5% við sveitina, hvort tveggja fyrir endurgjald, sem
sé miðað við framleiðslukostnað að viðbættum 10%.
d. að byrjað sé að hagnýta fossinn innan ákveðins tíma
og að fyrirgjört sé þeim rétti, er leyfið veitir, ef starfinu
er hætt eða það minnkað".
Ennfremur lagði nefndin til, að gerðar yrðu nokkrar
minni háttar orðalagsbreytingar, einkum til samræmingar.
Ljóst má vera, að hér var um að ræða talsvert víðtækar
og róttækar breytingar á frumvarpi stjórnarinnar, breyt-
ingar, sem mörkuðu því að sumu leyti nýja stefnu. Sam-
kvæmt frumvarpi stjórnarinnar áttu allir borgarar „al-
ríkisins" að vera undanþegnir sérleyfisskyldu, en sam-
kvæmt tillögu nefndarinnar átti þetta einungis að gilda um
þá menn, sem heimilisfastir væru á Islandi, og félög, sem
hefðu hér heimili og varnarþing, og meirihluti félags-
stjórnar væri skipaður mönnum, sem hefðu hér búsetu.
Með þessu var að sjálfsögðu hert verulega á ákvæðum
frumvarpsins. Rétt er einnig að benda á, að nefndin reyndi
á markvissari hátt en gert var í frumvarpinu að tryggja
hag ríkisins, sveitarfélaga og almennings gagnvart þeim
einkaaðilum, sem hér myndu eiga hlut að máli.
Segja má, að breytingartillögur þær, sem hér hafa verið