Saga - 1976, Page 208
200
JÓN GUÐNASON
lýðshreyfingar, en þá var nýlunda, að íslenzkir fræðimenn
hösluðu sér völl í félagssögu. Stjórnmálaskoðanir Sverris
munu hafa átt mikinn þátt í því að glæða áhuga hans á
félagssögu yfirleitt og verkalýðssögu sérstaklega. Hann
hneigðist ungur til sósíalisma og gekk árið 1927 í Jafnað-
armannafélagið Spörtu, en þá var hann farinn að kynna
sér fræðirit sósíalista. Hann sagði frá því löngu síðar,
að lestur Kommúnistaávarpsins hefði haft mikil áhrif á
sig, hann hefði séð sögu mannsins í nýju ljósi. Þessi bækl-
ingur Marx og Engels var gefinn út á Akureyri 1924 í ís-
lenzkri þýðingu Einars Olgeirssonar og Stefáns Pjetursson-
ar. Árið 1937 tók Sverrir að setja saman meistaraprófsrit-
gerð sína, Det socialdemokratiske partis stilling til den
Bismarckske socialpolitik. Til þess að afla heimilda um
þetta efni hélt Sverrir til Berlínar, þar sem hann dvaldist
um hálfs árs skeið. Þegar hann kom aftur til Hafnar,
treysti hann sér ekki til að leggja fram ritgerðina, en tók
til við annað verkefni nátengt hinu fyrra, De borgerlige
partiers holdning til den Bismarckske socialpolitik, og að
því vann hann 1938. En hér fór sem fyrr, hann lét undir
höfuð leggjast að skila ritgerðinni, en ástæðan til þessa
mun hafa verið sú í bæði skiptin, að hann var ekki alls
kostar ánægður með ritgerðirnar, og vantaði þó ekki annað
á en smiðshöggið. Hér kom fram sá ljóður á ráði Sverris,
sem háði honum ævilangt, en það var úthaldsleysi við þau
verk, sem kröfðust þaulsetu og mikillar elju. Sverrir dáðist
þá mjög að vini sínum og kennara, Árna Pálssyni, anda-
gift hans og lífsstíl, en vinnufílósófía hans var honum
hvorki holl fyrirmynd né styrkur til bragarbóta. Á hinn
bóginn var það kostur á Sverri, að hann þekkti takmörk
sín og lét ■skkert frá sér fara nema hann væri sæmilega
ánægður með það. Eftir þessar misheppnuðu prófraunir
hélt Sverrir alfarinn heim 1939, en Hafnardvölin hafði
orðið honum mikill skóli. Hann hafði aflað sér víðtækrar
þekkingar, lært fræðileg vinnubrögð og strokið af sér svip
heimaalningsins, en allt þetta kom honum síðar að haldi við