Saga - 1976, Page 210
202
JÓN GUÐNASON
talizt til slíkrar viðleitni, að hann naut lögfullra réttinda
kennarastéttarinnar til orlofs og eftirlauna. Þeir voru líka
ófáir, sem töldu, að hann ætti enga umbun skilið vegna
syndugs lífernis og róttækra stjórnmálaskoðana. Til þess
að sannfærast um að eitthvað sé í þessu hæft er handhæg-
ast að skoða fjárúthlutun úr opinberum sjóðum til rit-
höfunda og fræðimanna. Vert er þó að geta þess, að Jónas
Jónsson frá Hriflu beitti sér fyrir því, að Sverrir fékk
launalaust leyfi frá kennslustörfum 1959—1961 til þess
að safna og gefa út á vegum Menningarsjóðs blaðagreinar
Jóns Sigurðssonar.
1 sagnfræði skrifaði Sverrir margt og sótti á mörg mið,
en áhugi hans beindist einkum að nútímasögu með upphaf
í frönsku byltingunni. Viðfangsefni Sverris voru sérstak-
lega myndun og þróun nútímaþj óðfélaga, sem félagslega
einkenndust af vexti og framsókn borgarastéttar og verka-
lýðsstéttar. 1 mörgum ritgerðum hefur Sverrir lýst drama-
tískustu þáttunum í þessum stórfelldu og flóknu umskipt-
um, þegar þjóðernislegar og stéttarlegar andstæður voru
orðnar svo bólgnar, að þær voru ekki leystar nema látið
væri sverfa til stáls. Sverrir lýsir þessum hamförum, eink-
um hvernig þær birtust í pólitískri mynd, en jafnframt
gerir hann glögga grein fyrir söguvettvangi, félagslegri
og efnahagslegri gerð hans. Söguna skoðaði hann og skýrði
frá sjónarmiði sögulegrar efnishyggju og gerði það á mjög
lifandi en ekki einsýnan hátt, sem birtist bæði í efnistökum
og efnisskipan. Hann var þó ekki þeirrar skoðunar, að á-
kveðin söguleg heimssýn og aðferð leysti sagnfræðinginn
undan neinum fræðilegum skyldum eða hann gæti gengið
vélrænt um akur sögunnar. Þótt söguskoðun marxismans
væri Sverri skært ljós um myrkviði og fléttugróður sög-
unnar, biðu ráðgáturnar við hvert fótmál. 1 áritun á eitt
eintak Kommúnistaávarpsins kveðst hann líka „hafa ratað
á hina erfiðu leið marxískrar söguhyggju." Sverrir var
með fróðustu mönnum hérlendra í fræðiritum sósíalismans,