Saga - 1976, Síða 211
SVERRIR KRISTJÁNSSON SAGNFRÆÐINGUR
203
og rit þeirra Marx og Engels voru honum sífelld ný opin-
berun allt til æviloka. Hitt þótti honum miður, hversu fram-
lag austur-evrópskra sósíalista til marxisma á síðustu ára-
tugum var rýrt í roðinu bæði til fræðikenninga og nútíma-
sögu. Útgáfustarfsemi þeirra væri mikil, en fátt um nýjar
hugmyndir og ferskan anda. Á hinn bóginn fannst honum
mikið til um verkfærni og skarpskyggni þeirra marxísku
sagnfræðinga, sem komið hafa fram á Bretlandi síðustu
áratugi (Isaac Deutscher, Christopher Hill, E. J. Hobs-
bawm, George Rudé o. fl.).
Sverrir samdi margar ritgerðir og greinar um bók-
menntalegt efni, en hann hafði yndi af skáldbókmenntum
og bar á þær gott skynbragð, enda var hann bæði víðles-
inn og vellesinn í verkum margra höfunda íslenzkra og
erlendra frá síðari öldum. Listrænt eðlisfar og hrifnæmi
leiddu hann inn í heim skáldbókmenntanna og gerðu hann
þar hagvanan. Þar þótti honum rýmra um sig en í þröng-
um kufli sagnfræðingsins, strengirnir fleiri, viðjarnar
færri. En Sverrir mat þó ekki skáldverk einungis frá bók-
menntalegu eða fagurfræðilegu sjónarmiði, því að það var
ríkt í honum að skoða þau einnig af sjónarhóli sagnfræð-
ingsins og tengja þau náið tíma sínum og umhverfi. Þessi
sjónvídd gerði hann skyggnari mörgum öðrum fremur á
ýmsa staði í heimi bókmenntanna. Sverrir hafði dálæti á
mörgum rithöfundum og voru þeir af ýmsu tagi og sniði,
en í öndvegi skipaði hann þeim, sem voru uppreisnarsinn-
aðir og nýjungagjarnir (Heine, Brandes), voru gæddir
næmu sögulegu þróunarskyni (Thomas Mann, Johannes V.
Jensen) og ætluðu alþýðustéttum að rétta hlut sinn og
héldu fram nýrri þjóðfélagsskipan (Gorki, Nordahl Grieg,
Stephan G. Stephansson, Halldór Laxness). Annars kunni
Sverrir að meta góða frásagnarlist hvar sem hún birtist,
einnig í svonefndum skemmtibókmenntum (Jack London,
Agatha Christie). Ekki skal láta ógetið þeirrar bókar, sem
honum þótti guðdómleg, þótt klædd væri í búning fáránleik-