Saga - 1976, Page 228
218
IUTFREGNIR
að bregða enn skærara ljósi yfir eymdina, mannvonzkuna og grimmd-
ina, sem löngum vill vera fylgifiskur örbirgðar og niðurlægingar. En
hann beitir einnig brögðum skálds til þess að ylja lesendum með
glóð mannlegra tilfinninga af viðkvæmara toga, mitt í allri eymd-
inni — eða næsta nágrenni við hana.
Naumast þarf að taka fram, að flest er þetta sakafólk lítt eða
ekki þekkt úr ritaðri landssögu. En hver kannaðist við Jón Hregg-
viðsson fyrir daga Islandsklukkunnar? Annars vill svo til, að einn
þessara hrjáðu raunamanna öðlast hér óvænt fleiri lífdaga en hon-
um hafa til þessa verið mældir í sögunni. Er það sá alkunni Jón
Sunnevubróðir. Ekki verður hann samt litríkari hér í sögu en
hann hefur verið til þessa. Þjóðsögur virðast þó benda til þess, að
hann hafi að minnsta kosti verið laginn við kvenfólk.
Auk sakafólks eru áberandi persónur í Haustskipum ýmsar yfir-
valdspersónur, sem á sínum tíma töldust sitja sólarmegin í lífinu, þ.
e. gegndu virðingar- og valdastöðum og nutu oftar þeirra réttinda
að dæma aðra en þeir urðu fyrir þeirri hremmingu að vera sjálfir
hafðir fyrir sökum og jafnvel dæmdir. Allir eiga þessir valdsmenn
(þ.e. hinn íslenzki hluti þeirra) nú þegar sess í ritaðri íslenzkri
sögu, og venjulega lyftast höfundar ættartalna í sæti, þegar þeim
tekst að koma síðari tíma mönnum í ættartengsl við svo valinkunna
höfðingja sem Þorstein Magnússon á Móeiðarhvoli, Brynjólf Sig-
urðsson í Hjálmholti, Guðmund Runólfsson á Setbergi, Arnór Jóns-
son í Belgsholti, Erlend Ólafsson í Ögri, Hans Wíum á Skriðu-
klaustri eða aðra þeirra líka.
Annað mál er, hvort nú verði senn tekið til óspilltra málanna við
að hafa upp á afkomendum Vestfirðinganna Landbjarts Jónssonar,
Sigmundar Jónssonar og Guðmundar Pantaleonssonar; eða Ólafar
Jónsdóttur úr Landeyjum. Má í því sambandi minna á, að lengi vel
fannst íslendingum lítil fremd í að vera afkomandi Jóns biskups
Arasonar. Nú er víst svo komið, að sætt er sameiginlegt skipbrot,
því að enginn Islendingur er lengur svo lúterskur, að hann fái vikið
sér úr niðjatölu þessa kynsæla kaþólska píslarvotts.
Það leynir sér ekki, að sakafólkið á samúð höfundarins óskipta.
Verður honum oft heitt í hamsi, þegar hann lýsir þeirri rangs-
leitni, sem það sætti löngum. En hins ber og að gæta, að hann er
saklaus af allri væmni. Mín vegna má hver sem vill lá honum þann
þátt, sem hann tekur í raunum ógæfufólksins íslenzka í þrælakist-
um Kaupmannahafnar. Á hinn bóginn finnst mér fullmikillar dóm-
hörku gæta í garð sýslumanna og lögsagnara. Valdsmenn þessir
hafa sér þó altjent til málsbóta, að þeir eru börn sinnar eigin aldar.
Þeim var á hendur falið að gæta hagsmuna hinna eigandi og meg-
andi í þjóðfélaginu, og vei þeim, sem dottaði á þeim verði. Að baki