Skinfaxi - 01.02.2011, Qupperneq 12
12 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands
Starfsemin innan Ungmenna- og íþrótta-
sambands Austurlands hefur sjaldan verið
í eins miklum blóma og nú. Starfið er þrótt-
mikið á öllum sviðum og fram undan er
Unglingalandsmótið sem haldið verður á
Egilsstöðum um verslunarmannahelgina
í sumar. Það má því segja með sanni að
héraðssambandið hafi í nógu að snúast
og verkefnin verði ærin á næstu mánuðum.
„Laugardaginn 28. júní 1941 var
haldinn fundur að Eiðum og þar rædd
og ákveðin stofnun ungmennasam-
bands fyrir Austurland. Undirbúning
að fundinum hafði annast nefnd, kosin
af sambandi Eiðamanna. Nefndina
skipuðu þrír menn, skólastjóri og
kennarar Eiðaskóla, þeir Þórarinn
Þórarinsson, Þóroddur Guðmunds-
son og Þórarinn Sveinsson. Á fundi
þessum voru mættir fulltrúar frá sex
félögum, auk fundarboðenda og
Ingólfs Kristjánssonar tollvarðar, en
hann mætti fyrir hönd Íþróttaráðs
Austurlands. Stofnað var Ungmenna-
samband Austurlands – U.M.S.A. –
og samin lög fyrir það. Flestir fundar-
manna skrifuðu þó undir lög sam-
bandsins með fyrirvara, þar sem þeir
töldu sig ekki hafa nægilega traust
umboð frá viðkomandi félögum.
Sambandssvæðið var Múlasýslur
báðar. Sambandinu var valið lög-
heimili að Eiðum. Kosin var fimm
manna stjórn og jafnmargir til vara.
Skólastjóri Eiðaskóla, Þórarinn Þórar-
insson, sagði við þetta tækifæri, að
allar dyr Eiðaskóla skyldu standa opn-
ar fyrir starfsemi ungmennasam-
bands á Austurlandi. Var þeim orðum
vel fagnað og þótti af vinsemd mælt.“
Svo hljóðar lýsing Skúla Þorsteinssonar
á stofnfundi héraðssambands á Austur-
landi sem hann ritaði í Snæfell á fimm ára
afmæli UÍA. Á sambandsþingi árið eftir
var nafni sambandsins breytt í Ungmenna-
og íþróttasamband Austurlands og gekk
sambandið til liðs við bæði UMFÍ og ÍSÍ,
fyrst héraðssambanda.
Alla tíð síðan hefur UÍA skapað kjölfest-
una í austfirsku æskulýðs- og íþróttastarfi
ásamt ungmenna- og íþróttafélögunum
og staðið fyrir ótal samkomum, mótum,
námskeiðum en síðast en ekki síst verið
ötull talsmaður austfirskrar æsku á
landsvísu.
Elín Rán Björnsdóttir, formaður UÍA,
segir að starfsemin innan UÍA í dag snúist
að mestu leyti um að hvetja aðildarfélög
til að starfa saman að því að bæta íþrótta-
starfsemina á Austurlandi, vinna saman
að mótahaldi, keppa saman undir merkj-
um UÍA út á við og vinna saman að því
sem snýr að félagsmálafræðslu og teng-
ingu við UMFÍ og ÍSÍ.
– Nú virðist sem mikill kraftur sé í
starfi ykkar hvert sem litið er. Var
ákveðið að blása til sóknar?
„Já, það var ákveðið árið 2008 að gera
það. Okkur fannst hafa verið svolítil lægð
í starfseminni. Við vorum því farin að sjá
verulega þörf fyrir að héraðssambandið
yrði sterkt og aðildarfélögin fundu að eitt-
hvað þurfti að gerast. Ný stjórn kom til
starfa 2008, afskaplega virk, og um leið
komu inn einstaklingar sem voru tilbúnir
að leiða starfið. Þá stóð ekki á því að
aðildarfélögin væru tilbúin að vera með.
Við settum í gírinn og unnum markvisst
að því að færa héraðssambandið til
nútímans. Mikill tími var búinn að fara í
stefnumótun og vinnu í því hvernig við
vildum sjá héraðssambandið. Um leið
og stefnan lá fyrir var miklu auðveldara
að vinna að henni. Árangurinn af þessu
starfi hefur hægt og bítandi verið að koma
í ljós. Greinaráðin eru mun virkari en áður,
þeim fjölgar og fólk er farið að koma til
okkar í mjög mörgum tilfellum og biðja
um að stofnuð verði greinaráð í fleiri
greinum til að standa saman að móta-
haldi. Við finnum fyrir mun meiri vilja en
áður til að hrinda af stað fleiri hlutum.
Núna nýlega var stofnað körfuboltaráð,
sem aldrei hefur verið til innan UÍA, og
einnig er komin í gang keppni um Bol-
holtsbikarinn í utandeildarkörfubolta.
AFSKAPLEGA GEFANDI
AÐ STARFA INNAN
HREYFINGARINNAR
Elín Rán Björnsdóttir, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands:
Elín Rán Björnsdótt-
ir, formaður UÍA.