SunnudagsMogginn - 07.02.2010, Blaðsíða 24
24 7. febrúar 2010
R
agnar Bragason er önnum kaf-
inn þessa dagana í rétt-
indabaráttu fyrir kvikmynda-
gerðarmenn sem verða nú að
þola mikinn niðurskurð. Ríkið hefur
skorið niður framlög til kvikmyndagerð-
ar og RÚV hefur ákveðið að draga mjög úr
kaupum á innlendu efni. Þessu hafa
kvikmyndagerðarmenn mótmælt kröft-
uglega og sagt að með þessum aðgerðum
sé vegið illilega að íslenskri kvikmynda-
gerð. „Þessa dagana helga ég mig því að
réttlæta tilvist íslenskra kvikmynda,“
segir Ragnar. „Vonandi er þetta síðasti
slagurinn sem þarf að taka til að sannfæra
ráðamenn um mikilvægi kvikmynda-
gerðar. Allar alvörumenningarþjóðir hafa
fyrir löngu áttað sig á þessu en við virð-
umst því miður ekki vera komin lengra
en þetta.“
Hvað er að gerast hjá þér á listasvið-
inu? Ertu að fara að vinna að nýrri
kvikmynd eða sjónvarpsseríu?
„Ég hef verið að vinna að hugmynd að
sjónvarpsseríu sem gerist á geðdeild. Það
er búið að leggja grunndrögin en ekki bú-
ið að skrifa handrit. Þau sem vinna með
mér í þessu eru þau sömu og stóðu að
vöktunum og Bjarnfreðarsyni. Þættirnir
eru hugsaðir sem blanda af alvöru og
gamni en þarna verða ekki sömu persón-
ur og í vaktaseríunum. Það hefur orðið
sprenging í handritagerð fyrir sjónvarp
og margir eru um hituna þannig að nú
þegar lítur út fyrir að fjármagn verði af
skornum skammti þá er spurning hvort
takist að framleiða þessa þætti.“
Orðinn fullnuma
Þú ert 38 ára gamall og það er ekki hægt
að segja annað en að þú hafir notið mik-
illar velgengni. Dreymdi þig snemma
um að verða kvikmyndagerðarmaður?
„Ég varð ungur yfirmáta heillaður af
kvikmyndum. Ég er alinn upp í Súðavík
og við hliðina á heimili mínu var félags-
heimilið og þar voru kvikmyndasýningar
þrisvar í viku. Þar átti ég mínar fyrstu
stóru kvikmyndaupplifanir, eins og þeg-
ar ég sá Chitty Chitty Bang Bang og annað
góðmeti. Fyrsta trúarlega kvikmynda-
reynslan var þegar móðir mín hrúgaði
hálfu þorpinu af börnum aftur í Bronkó-
inn og brunaði út á Ísafjörð þar sem við
sáum Star Wars í Ísafajarðarbíói árið
1978. Þá var ég sjö ára. Mörgum árum
seinna tók ég kúrs í kvikmyndagerð í
Fjölbrautaskólanum í Ármúla hjá Önnu
G. Magnúsdóttur. Eitt af verkefnunum á
önninni var að gera stuttmynd. Anna
hrósaði minni mynd og hvatti mig. Upp
frá því varð ekki aftur snúið. Reyndar
hafði ég ætlað að verða rithöfundur. Ég
var mikill bókaormur strax sem krakki
og frá tíu ára aldri voru Charles Dickens,
Robert Louis Stevenson og Edgar Allan
Poe mínir menn. Kvikmyndagerðin náði
að sameina öll áhugasvið mín sem eru
sögur, hið sjónræna, tónlist og leiklist.“
Heldurðu að þú eigir eftir að skrifa
bók?
„Já, það gæti orðið. Ég hef reynt að
setja sumar af þeim stóru og viðamiklu
sögum sem eru á floti í hausnum á mér í
kvikmyndahandrit en vegna umfangs og
kostnaðar eiga þær að öllum líkindum
litla möguleika á að verða að kvikmynd-
um. Ætli þær endi ekki sem skáldsögur
einhvern tíma seinna.“
Þú hefur aldrei lært leikstjórn í skóla,
sem hlýtur að þýða að þú hafir lært mest
af því að horfa á kvikmyndir.
„Þetta er rétt, ég lærði ekki leikstjórn í
skóla heldur fór lengri leiðina. Þegar ég
flutti í bæinn um tvítugt hafði ég aðgang
að Aðalvídeóleigunni á Klapparstíg. Hún
varð mitt fræðasetur. Í mörg ár var ég þar
einn atkvæðamesti kúnninn og horfði á
allar myndir sem ég komst yfir. Ég lærði
mikið af því að fylgjast með hvernig aðrir
gera hlutina, bæði því sem þeir gera vel
og því sem þeir gera illa.
Maður nær ekki tökum á neinu nema
með því að vinna og framkvæma. Þeir
menn sem ég lít mest upp til, eins og
gömlu meistararnir Ingmar Bergman og
Alfred Hitchcock, höfðu þennan háttinn
á og gerðu mjög mikið af myndum. Ég hef
alltaf gert eins mikið og ég mögulega get
því ég trúi því að upp úr í eljunni og
magninu spretti gæði. Á síðustu fimm ár-
um hef ég gert þrjár bíómyndir og fjórar
sjónvarpsseríur, sem telst bara nokkuð
gott. Núna líður mér eins og ég sé orðinn
fullnuma.“
Myndir sem hreyfa við fólki
Hvernig myndir viltu gera?
„Ég er alltaf að hugsa um hina full-
komnu mynd en fyrst og fremst vil ég
gera myndir sem hreyfa við fólki. Ég held
að á endanum sé það kannski það eina
sem skiptir máli. Maður er að biðja fólk
um að gefa tíma af ævi sinni til að horfa á
verk sem maður hefur gert. Þá skiptir
máli að fólki finnist að tíma þess hafi ver-
ið vel varið. Ef leikstjóri nær að skilja eftir
einhverja tilfinningu eða nýja hugsun hjá
áhorfandanum ætti hann að vera sáttur.
En það er sem betur fer engin formúla
fyrir því hvernig eigi að gera það og því er
þetta endalaus leit.“
Hvernig leikstjóri ertu?
„Árið 2003 ákvað ég að brjótast frá því
viðhorfi að leikstjórinn væri eins konar
alvaldur sem trónir yfir sköpunarverki
sínu. Ég gerði tvær kvikmyndir, Börn og
Foreldra, með Vesturportshópnum þar
sem við í sameiningu unnum frá grunni
persónur og söguþráð. Ég notaði þessa
aðferð líka í vaktasjónvarpsþáttunum og
kvikmyndinni Bjarnfreðarsyni. Eigum
við ekki bara að segja að ég sé lýðræð-
islegur kvikmyndagerðarmaður?
Mér finnst mjög gaman að vinna með
fólki, sem er kannski ástæðan fyrir því að
ég loka mig ekki inni til að skrifa bækur.
Ég er félagslyndur og mér finnst ekkert
betra en að vera nálægt skemmtilegu og
vel gefnu fólki. Það eru forréttindi að
vera kvikmyndagerðarmaður þegar fólk
leitast við að vinna með manni og maður
getur unnið með nánast hverjum sem er.
Leikstjórn snýst fyrst og fremst um að
laða fram það besta í hæfileikaríku fólki
og nýta það sem fólk hefur fram að færa.
Þetta leitast ég við að gera og oftast hefur
mér tekst það“
Hverjar eru mestu hæfileikamann-
eskjur sem þú hefur leikstýrt?
„Þær eru mjög margar. Jón Gnarr er sá
leikari sem mér hefur fundist einna mest
gefandi að vinna með. Hann er merki-
legur maður fyrir margra hluta sakir og
hefur óumdeilda snilligáfu. Það er mjög
gaman að vinna með honum því maður er
í hláturskasti nánast allan daginn. Hann
hefur áhuga á fólki, stúderar það og hefur
afburðagóðan skilning á mannlegu eðli,
sem er mjög mikilvægt í leikara.“
Georg Bjarnfreðarson, aðalpersónan í
sjónvarpsþáttunum og samnefndri
kvikmynd, sem Jón Gnarr leikur, er eins
og lifandi persóna í hugum fólks. Það
hlýtur að gleðja þig.
„Það fyllir mig bæði gleði og stolti.
Georg Bjarnfreðarson er eins og persóna
úr skáldsögu eftir Dickens. Hugmynd
mín var sú að gera hann að leiðinlegasta
manni sem hægt væri að hitta og Jón
Gnarr fann öll réttu blæbrigðin sem skapa
þannig persónu. Já, fólk talar um Georg
eins og nágranna sinn og það er nánast
eins og hann sé orðinn hluti af menning-
unni og tungumálinu. Ef einhver þykir
leiðinlegur eða fordómafullur þá er sagt:
Engan Bjarnfreðarson hér!“
Dvel ekki í
Næturvaktinni
Tilnefningar til Edduverðlaunanna hafa verið kynntar. Fangavaktin, hinn
vinsæli sjónvarpsþáttur í leikstjórn Ragnars Bragasonar, og hin rómaða
kvikmynd hans, Bjarnfreðarson, fá fjölda tilnefninga. Ragnar, sem segir
verðlaun skipta sig litlu máli, segist helga sig því þessa dagana að réttlæta
tilvist íslenskra kvikmynda.
Viðtal
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is