SunnudagsMogginn - 04.04.2010, Blaðsíða 35
4. apríl 2010 35
Hverjum er treystandi?
Mál Schön þótti sýna að jafningjamat vísindagreina gæfi ekki næga trygg-
ingu fyrir því að niðurstöðum væri treystandi. Nokkrir vísindamenn (t.d.
Alan Sokal) hafa viljandi sýnt fram á galla jafningjamatsins með því að fá
birtar „vísindagreinar“ sem eru setningafræðilega réttar en að öðru leyti
samhengis- og merkingarlaus flaumur tækniorða. Framhaldsnemar við
MIT skrifuðu tölvuforritið SCIgen sem getur búið til ráðstefnugreinar á
sviði tölvunarfræði úr tilviljanakenndum íðorðum, línuritum og töflum.
Vegna hins sérhæfða tungumáls sem afmarkaðar vísindagreinar þróa með
sér er nánast ógjörningur fyrir lesendur sem ekki hafa sérfræðiþekkingu á
viðkomandi sviði að greina hvort um sé að ræða texta með raunverulegu
innhaldi eða merkingarlausa samsuðu orða og hugtaka. Höfundum SCI-
gen-forritsins hefur jafnvel tekist að fá sumar þessara bullgreina sam-
þykktar sem framlag á alþjóðlegum ráðstefnum á sviði tölvunarfræði.
Svipuð forrit má finna á netinu sem framleiða innihaldslausan texta úr
orðaforða hugvísindagreina, stjórnunarfræða, o.s.frv.
Þrátt fyrir að oft sé vandratað í heimi vísindanna þá hafa rannsóknir og
vísindastarf undanfarinna 300 ára þó lagt grunninn að samfélagi nú-
tímans. Langstærstur hluti birtra vísindarannsókna er sjálfsamkvæmur og
stenst kröfur um endurtakanleika. Á þeim geta óháðir aðilar því byggt
frekari athuganir og tilgátur til að auka skilning á ákveðnu viðfangsefni,
hvort sem um er að ræða sólstjörnur, siðblindu eða sortuæxli. Eðlilegt er
því að almenningur hafi þróað með sér ákveðið traust til vísindalegrar
hugtakanotkunar, þótt hvert og eitt okkar hafi sjaldnast forsendur til að
skilja hana til hlítar.
Gervivísindi
Að sama skapi þarf ekki að koma á óvart að vísindaleg orðræða hafi laum-
að sér inn á ýmis svið þar sem fólk vill láta taka sig alvarlega. Mýmörg
dæmi má finna um hvers konar töfralækningar, eilífðarvélar, leiðir til vel-
líðunar, friðar, öryggis, ríkidæmis, o.fl., o.fl., sem haldið er fram að bygg-
ist á strangvísindalegum staðreyndum og framburði hinna ýmsu doktora í
greinum allt frá stjarneðlisfræði til sálarrannsókna.
Í langflestum tilfellum er hér um að ræða vísindaleg hugtök sem slitin
eru úr sínu eðlilega samhengi og blandað saman við alls óskylda hluti í
þeim tilgangi að gera málstað viðkomandi meira sannfærandi. Gott dæmi
um slík gervivísindi (e. pseudoscience) eru nýlegar bækur dr. Norbertos
Keppes sem er upphafsmaður nýrrar vísindakenningar sem byggist á
„óúthverfðri frumspeki“ (í lauslegri þýðingu greinarhöfundar). Sam-
kvæmt heimasíðu dr. Keppes er hér um að ræða einhvers konar andstæðu
viðtekinna lögmála í eðlisfræði, líffræði og sálfræði sem má m.a. beita til að
lækna sjúkdóma og smíða vélar (Keppe motor) sem ganga að hluta til fyrir
„frumorku“ úr geimnum og geta þannig leitt til umtalsverðs orkusparn-
aðar fyrir mannkynið.
Nú gætu lesendur e.t.v. hugsað með sér að hefðbundnir vísindamenn
séu forpokaðir afturhaldssinnar sem neita af þrjóskunni einni saman að
viðurkenna byltingarkenndar nýjungar eins og þær sem dr. Keppe setur
fram. Slíkt er auðvitað fráleitt því hlutverk vísindarannsókna er einmitt að
skapa nýja þekkingu og vísindamenn sem stunda grunnrannsóknir þurfa
dágóðan skammt af skapandi og frumlegri hugsun í sínu starfi sem gengur
út á að hugsa upp og framkvæma hluti sem aldrei hafa verið gerðir áður.
Rétt er að í sögu vísindanna hafa á stundum komið fram bylting-
arkenndar hugmyndir sem hafa gengið þvert gegn viðteknum kenningum
þess tíma. Margar nýstárlegar kenningar sem í raun og veru hafa haft eitt-
hvað nýtt fram að færa hafa með tímanum náð að festa sig í sessi og endað
sem almennt viðtekin og viðurkennd vísindi.
Röksemdafærslan gengur þó ekki í hina áttina – sú staðreynd að bylt-
ingarkenndar nýjungar í vísindum hafi gengið gegn hefðbundinni vitn-
eskju leiðir ekki af sér að allar hugmyndir sem ganga gegn hefðbundinni
vitneskju séu byltingarkenndar nýjungar. Í langflestum tilvikum hafa
slíkar hugmyndir litla sem enga tengingu við vísindin sem notuð eru til að
gefa þeim trúverðugleika. Vísindamenn sem og aðrir þurfa sífellt að vera á
verði gagnvart misnotkun vísindalegrar orðræðu en á sama tíma átta sig á
takmörkunum þess kerfis sem hún er sprottin úr.
E
kki er ýkja vinsælt á okkar dögum að minnast á hugtakið synd.
Væri þó hollt að dusta rykið af því og gefa gaum. Kristin trú legg-
ur áherslu á að maðurinn er syndugur, manneskjan er syndug í
föllnum heimi, það merkir frásnúin Guði og hinu góða. Við þekkj-
um öll grundvallarboðorð umhyggju og kærleika, en það dugar ekki til. Í
okkur blundar í senn engill og ári, demón og dýrlingur. Hið góða og illa
eiga sér bústað í sérhverri sál og hverju hjarta. Jesús segir dæmisögur til að
varpa ljósi á það, svo sem dæmisöguna um illgresið meðal hveitisins. Mað-
ur sáði hveiti í akur sinn. Óvinur hans sáði illgresi í akurinn. Það kom í ljós
þegar frá leið. Menn vildu rjúka til og rífa burt illgresið, en húsbóndinn
neitaði því: „Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um
leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði.... þá mun ég segja
við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að
brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.“ (Matt.13.24-30) Þarna dregur
hann upp mynd af aðstæðum okkar, illgresið og hveitið vaxa saman. Regla
og upplausn, blessun og bölvun, siðaður maður og ósiðlegt samfélag eru
samofin. Í lífinu takast á hinn góði vilji skaparans, og illvilji óvinarins, það
illa vald og vilji sem vill eyða, spilla, tvístra, menga og deyða. Samt er Guð
stöðugt að verki að skapa, leysa og lækna þetta líf. Og Guð þekkir sína.
„Hann hveiti sitt þekkir“ segir í páskasálminum góða (Sb.149,5). Sérhvert
verk til varnar og viðhalds lífinu og Guðs góðu sköpun, allt sem gert er
henni til eflingar og lækningar, fyrirgefningar og miskunnsemi, allt sem
hamlar gegn óhamingju og dauða, allt sem hlynnir að lífi og eflir hið góða
og fagra er verk og áhrif skaparans að skapa og endurleysa. Við erum köll-
uð til að taka þátt í því verki.
Guð birtir vilja sinn og lögmál í kerfum sköpunarverksins og höfðar til
samvisku manna. Konan sem fæðir finnur þegar hvað henni ber að gera
sem móðir, lífsaflið knýr hana, afl umhyggju, móðurástar, kærleikans. Í
öllu litrófi sköpunarinnar, kynlífi, stjórnmálum, trú, er Guð að tala gegn-
um lömálið sem ritað er á hjörtu mannanna, með samviskunni sem tekur á
móti boðunum, les í táknin, afsakar eða ákærir þau þar til dagur Guðs
rennur upp og hann kemur til að dæma (Róm.1.15-16)
Heiminum verður ekki skipt í lið hins góða og illa, þau góðu sem eru
okkar megin og hin vondu sem eru á móti okkur. Slík einföldun leiðir alltaf
til ófarnaðar. Við erum syndug, frásnúin Guði og hans góða vilja og valdi.
Hvað þarf til að varast það og koma í veg fyrir að vald og áhrif hins illa nái
undirtökum í mannlífinu?
Hér kemur fagnaðarerindið til skjalanna, sem boðar fyrirgefninu synd-
anna og endurlausn lífsins innan þessa heims. Fagnaðarerindið boðar sigur
Jesú Krists yfir synd og dauða og valdi hins illa, og boðar von þess að um
síður muni Guð setja vald sitt yfir öllum óvinum sínum og lífsins. Þess
vegna er von og framtíð. „Gerið iðrun og trúið fagnaðarerindinu“ segir
Jesús (Mark. 1.15). Fagnaðarerindið boðar afl fyrirgefningarinnar. Í dæmi-
sögunni um Týnda soninn (Lúk. 15.11-32) lýsir Jesús hvað í því felst. Engar
aðstæður eru vonlausar, engin útlegð, engin svínastía vonlaus. Maður getur
alltaf staðið upp og snúið heim. Og að viðleitni til að láta gott af sér leiða sé
aldrei til einskis. Boðskapur fagnaðarerindisins er ekki aðeins fyrirgefning
heldur líka endurlausn frá afli dauðans og demónískra afla sem eru að
verki í sögunni og mannlífinu. Krossfestur og upprisinn Jesús Kristur hefur
sigrað Satan og dauðann. Í Kólossubréfinu 2.15 segir: „Hann fletti vopnum
tignirnar og völdin......“ Með krossdauða sínum og upprisu hefur Kristur
sigrað afl dauðans og hins illa valds í eitt skipti fyrir öll. Þessi sigur er samt
ekki augljós öllum. Dauðinn er sigraður, en samt deyr fólk. Syndin er að
velli lögð, lausnargjaldið er greitt, samt syndgum við, brjótum boðorðin,
afneitum því góða sem við viljum og þráum. En afl og áhrifamáttur hins
góða er að verki. Það birtist okkur í orði Guðs sem vekur, áminnir, kallar
til iðrunar. Það birtist í sakramentunum þar sem Guð veitir okkur fyr-
irgefning syndanna, líf og sáluhjálp. Það birtist í góðvild, umhyggju, gæsku
og mildi góðs fólks sem vekur og virkjar samviskuna og beinir á veg hins
góða.
Jesús er ekki siðavandur móralisti. Víst er hann skorinorður gegn hvers
konar spillingu og synd. En hann kemur alltaf fram eins og mildur faðir
eða móðir sem elskar barn sitt þó svo að val þess og ákvörðun sé henni á
móti skapi. Guð virðir val mannsins, jafnvel þótt það valdi honum sársauka
og sorg. Og föðurfaðmur hans stendur opinn öllum sem snúa við, það er
iðrast. Að iðrast er að snúa sér að því, snúa sér til Guðs. Á máli dæmisög-
unnar um týnda soninn: Fara heim. Sérhver dýrlingur á fortíð og sérhver
syndari sér framtíð, það er fagnaðarerindið: fyrirgefning syndanna.
Hugvekja
Karl Sigurbjörnsson
Gildi, siðgæði,
boð og breytni
II Syndin
Geimfarið Mars Climate Orbi-
ter var sent frá jörðinni í des-
ember 1998 og náði til Mars
tæpu ári síðar. Geimfarið
brann hins vegar upp í and-
rúmslofti reikistjörnunnar
vegna þess að stýriforrit á
jörðu niðri sendi því upplýs-
ingar í enskum mælieiningum
sem hefðu átt að vera í
metrakerfi. Það sem kallað
hefði verið klaufavilla á eðl-
isfræðiprófi í menntaskóla má
ætla að hafi kostað NASA yfir
100 milljónir Bandaríkjadala í
þessu tilfelli.
Lítil mistök
fyrir manninn –
stórslys fyrir
mannkynið