SunnudagsMogginn - 10.04.2011, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 10.04.2011, Blaðsíða 29
10. apríl 2011 29 „Mér finnst fullkomlega óviðeigandi að kalla mig heimspeking, eiginlega bara fráleitt. Mér er illa við að kalla mig leikskáld þótt ég hafi skrifað allnokkur leikrit og ég verð mjög hissa þegar fólk kallar mig tónlistarmann. Ég sýsla bara við ýmis- legt ef mér finnst það nógu skemmtilegt. Leik- listaráhuginn kviknaði árið 1985 þegar ég var vakinn einn morguninn og mér skipað að fara í prufu hjá Leikfélagi Húsavíkur. Ég gerði það með miklum semingi en endaði í stóru hlutverki og fékk algjöra leiklistardellu. Á vissu tímabili var það eina sem ég hafði áhuga á að verða leikari. Það var ekki fyrr en seinna sem ég byrjaði eitt- hvað að skrifa. Um leið og ég kom suður og í Há- skólann þá datt ég inn í leikfélagið Hugleik og hef verið þar allar götur síðan. Þessa dagana er ég að leikstýra ásamt konunni minni, Huldu B. Há- konardóttur, næstu uppfærslu Hugleiks sem er leikritið Einkamál.is eftir Árna Hjartarson. Leik- ritið er eins konar tilbrigði við umræðuna um staðgöngumæður en er skrifað áður en sú um- ræða hófst. Árni er býsna naskur á að stinga á kýlum áður en þau verða til.“ Ertu sjálfur að skrifa eitthvað? „Já, ég er alltaf eitthvað að skrifa. Síðustu mánuðina hef ég verið í samkrulli við Gafl- araleikhúsið í Hafnarfirði og þar hef ég tengst nokkrum mismunandi verkefnum, aðallega handritaskrifum. Svo er reyndar lítil gam- anópera í smíðum fyrir Hugleik.“ Holl vinna fyrir orðháka Þín daglega vinna er starf á auglýsingastofu. Hvernig á sú vinna við þig? „Ég hef verið viðloðandi auglýsingabransann síðan 2000. Það sem heillar mig við þá vinnu er að ég þarf að sífellt að brjóta til mergjar hluti sem ég hef ekkert óskaplega mikinn áhuga á og þar kemur upp spurninga- og staðreyndanördinn í mér. Það er gaman að neyðast til að skilja kosti einnar sjálfskiptingar umfram annarrar eða skilja af hverju lífeyrissparnaður er góð hugmynd. Það er líka góður skóli í skrifum að fást við það knappa form sem auglýsingar byggjast á. Þú færð að gera sjónvarpsauglýsingu, sem útheimtir handritaskrif líkt og stuttmynd, en hún má bara vera 30 sekúndur, þú skrifar texta í blaða- auglýsingu en hann má ekki vera meira en fjórar línur. Þú skrifar útvarpsauglýsingu og hvert ein- asta orð kostar. Mjög hollt fyrir orðháka.“ Finnst þér ekkert erfitt að skipta þér á milli listgreina, tónlistar og leiklistar? „Það truflar ekki nema þá skipulagslega. Ég get alveg séð skynsemina í því að sérhæfa sig á einhverju einu sviði og ná þar mikilli færni. En ég er búinn að sætta mig við að verða ekkert óskaplega góður á einu sviði en kannski nothæf- ur á ýmsum sviðum. Stundum hugsa ég: Er ekki best að taka einn mánuð þar sem ég geri ekki neitt nema æfa mig á fagott? Svo svara ég sjálf- um mér: Nei, nei, það er bara vitleysa. Ég held að rótin að því að ég mæðist í mörgu sé í pönkinu. Það er mín kynslóð og þó ég hafi aldrei verið neitt átakanlega mikill uppreisn- armaður þá er jarðvegurinn þar. Þannig að ég vil gera hlutina sjálfur og gefa skít í takmarkanir sem geta og kunnátta setja manni, sem eru kannski ekki síst sálrænar takmarkanir. Pönk- boðorðið mikla sem Purrkur Pillnikk kyrjaði um árið er mér enn mjög kært: Málið er ekki hvað þú getur, heldur hvað þú gerir.“ Hvernig hefurðu tíma fyrir allt sem þú gerir? „Maður gerir það sem maður hefur tíma til og stundum meira. Við Íslendingar erum fáir og all- ir þurfa að gera margt.“ Ertu sérvitur? „Já, ábyggilega, en ég reyni að vera opinn fyr- ir alls konar hlutum, les fjölbreytt efni og hlusta á alls konar tónlist. Það er meira gaman hjá manni ef manni finnst fleira skemmtilegt en leiðinlegt. Það er erfiðara líf að hafa mjög þröng- an og vandaðan smekk. Ég hef það ekki á nein- um hlutum.“ Þú þykir nokkuð fyndinn. „Já, er það? Ég hef mjög litla tilfinningu fyrir því. Kannski vegna þess að ég umgengst svo mikið fólk sem mér finnst klárlega fyndnara en ég.“ Svæsin umræða Þú bauðst þig fram til stjórnlagaþings. Hefurðu mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum? „Já, ég fylgist vel með, les og rífst. Mér fannst stjórnlagaþing vera vettvangur þar sem ég gæti gert gagn og um leið haft gaman af að gera gagnið því þarna sameinast margt sem ég hef áhuga á. Heimspekibakgrunnur er undirstaða hugsana, kenninga og þanka um það hvernig fólk á að haga samfélagi sínu. Og fyrir félagsmálamann eins og mig þá eru þjóðfélagsmál félagsmál á hæsta stigi. Svo er ég þjálfaður í því gegnum nám og störf að tjá mig í rituðu máli, og það er mikilvægt að til- laga frá stjórnlagaþingi komi fram á auðskilj- anlegu, skýru og afdráttarlausu máli sem erfitt verður að hártoga og skrumskæla.“ Hvernig viltu sjá íslenskt samfélag? „Við erum klárlega í ógöngum. Það er sama úr hvaða átt er horft, það er enginn ánægður með stöðu mála, hvort sem menn eru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eða andstæðingar, hvort sem þeir eru já- eða nei-sinnar í ESB eða já- eða nei- sinnar í Icesave. Það er almenn tilfinning fyrir því að ýmislegt þurfi að laga og breyta. Ég er svo sem ekki með neina lausn. Hugmyndir sem ég hefði sennilega barist fyrir á stjórnlagaþingi orka tví- mælis, eins og allt annað, hugmyndir eins og beint lýðræði, breytingar á valdahlutföllum og valdaþáttum í þjóðfélaginu. En þessi gegnsýrða óánægja með alla hluti er mjög áberandi í þjóð- félaginu og sennilega óhjákvæmileg, en jafnframt mjög skaðleg og óþægileg.“ Finnst þér þjóðfélagsumræðan vera of heift- úðug? „Það er hún og síðustu daga hefur mér hvað eftir annað ofboðið. Ég hélt að það væri liðin tíð að skoðanamunur kristallaðist í persónulegri óvild, en umræðan verður stöðugt svæsnari. Allt- af stígur einhver fram og segir að við verðum að hætta þessu og allir vita að það er rétt, líka þeir sem hamast í andstæðingum sínum. Staðreyndin er sennilega sú að við erum ófullkomin pólitísk dýr.“ Morgunblaðið/Golli Þorgeir Tryggvason: „Það er meira gaman hjá manni ef manni finnst fleira skemmti- legt en leiðinlegt.“

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.