Fréttablaðið - 18.11.2011, Blaðsíða 16
18. nóvember 2011 FÖSTUDAGUR16
Föstudagsviðtaliðföstuda
gur Amal Tamimi varaþingmaður og framkvæmdastjóri Jafnréttishúss í Hafnarfi rði
A
mal Tamimi settist í fyrsta
skipti á þing í byrjun nóvem-
ber í fjarveru Lúðvíks Geirs-
sonar. Hún er fyrsta konan
af erlendum uppruna til þess
að taka sæti á Alþingi auk
þess sem hún er fyrsti múslíminn sem það
gerir. „Ég tel mig vera í starfsaðlögun eins
og þegar fólk kemur í fyrsta skipti í nýtt
starf. Þá þarf bara að sitja og fylgjast með,“
segir Amal. Hún mætir á nefndarfundi en
segir að þegar fólk sé nýkomið inn á þing
í fyrsta sinn sé það auðvitað ekki með það
á hreinu hvað verið sé að gera í nefndinni.
Þegar varaþingmenn stoppi stutt sé ekki
heldur hægt að taka að sér mörg verkefni.
„En ég er að safna og bæta við mig þekk-
ingu og rosalega mörgu öðru sem ég fengi
ekki annars. Ég verð með meiri reynslu
þegar ég fer út og ef ég kem aftur inn verð
ég búin að læra þetta. Fyrsta skiptið er
líklega erfiðast.“
Vel tekið í hugmyndir um innflytjendamál
Þó að hún segist vera í starfsaðlögun hefur
hún látið til sín taka strax á fyrstu vikun-
um. Á þriðjudag var hún málshefjandi að
sérstakri umræðu um málefni innflytj-
enda sem vakti mikla athygli. Hún ræddi
meðal annars um íslenskukennslu og túlka-
þjónustu fyrir útlendinga. „Já, þetta er mál
sem ég tel mig vera sérfræðing í. Ég hef
unnið í innflytjendamálum frá árinu 2002,
fyrir utan mína eigin persónulegu reynslu,“
segir Amal, en hún flutti hingað til lands
árið 1995 frá Palestínu.
Hún segist fljótt hafa gert sér grein fyrir
því að málefni innflytjenda væru ekki tekin
saman sem málaflokkur, heldur væru mis-
munandi hlutir á forræði mismunandi
ráðuneyta. Þá fylgi ekki sérstakt fjármagn
málaflokknum. Mikil þörf sé á breytingum
í þessum málum.
„Þess vegna hélt ég ræðuna. Vanda-
málið við málefni innflytjenda er að ekki
er hægt að spyrja einn ráðherra. Það eru
margir að stýra þessu og þegar innflytj-
endur og útlendingar lenda í vandræðum
þarf að finna út hver á að sjá um það. En
þessu var vel tekið og margir alþingismenn
styðja þetta málefni. Innanríkisráðherra
sjálfur er til í að styðja verkefnið en það
þarf fjármagn. Þetta tókst vel.“ Amal segir
ekki síst vegna svona mála mikilvægt að
fá fólk af öðrum uppruna inn á þing. „Hér
eru svo margir innflytjendur sem hafa sína
reynslu og þekkingu frá heimalandinu. Við
getum notað það til að bæta okkar reynslu
og þekkingu hér. Þetta er nauðsynlegt.“
Fleiri kvennaathvörf þarf
Amal segist geta hugsað sér að beita sér
fyrir fleiri málum. „Ofbeldi gegn konum
er rosalega stórt mál sem við þurfum að
tala um. Á Íslandi er kvennaathvarf hér á
höfuðborgarsvæðinu, en ég held að það sé
ekki nóg að hafa bara eitt. Fleiri konur hafa
þörf fyrir svona þjónustu. Í síðustu skýrslu
sem kom frá Kvennaathvarfinu kom fram
að 70 prósent af konum sem heimsóttu eða
dvöldu í athvarfinu fóru aftur til ofbeldis-
mannsins sem þær bjuggu með. Þetta segir
kannski að það þarf meiri tíma, meira pláss,
meiri þjónustu. Ekki bara pláss til að sofa,
það þarf að byggja þessar konur upp.“ Amal
segir Kvennaathvarfið vinna frábæra vinnu.
Þangað fari erlendar konur til að
mynda og fái alla þá þjónustu
sem hægt sé að veita. Þessi mál
séu bara ekki efst á baugi.
Túlkaþjónusta nauðsynleg
Í umræðum um málefni innflytj-
enda á þriðjudag tók Amal dæmi
af erlendri konu sem var beitt
ofbeldi af eiginmanni sínum.
Þegar hún spurði félagsráð-
gjafa um það hvernig hún ætti
að sækja um skilnað kom í ljós
að hún var þegar fráskilin. Mað-
urinn hennar hafði sagt henni að
hann væri að kaupa bíl og hún
þyrfti að skrifa undir pappíra.
Þau fóru saman með þá til sýslu-
manns en konan gerði sér hvorki
grein fyrir því hvar hún væri né
hvað hún hefði verið að skrifa
undir. Þekkir hún mörg svipuð
dæmi?
„Já. Við vitum að það er fullt
af útlendingum sem kunna ekki
íslensku. Þó að þeir kunni að
bjarga sér úti í búð eða banka
þýðir það ekki að þeir skilji eignaskiptingu
hjá sýslumanni. Tökum sem dæmi fólk sem
hefur ekki heyrt orðið forsjá – hvernig á
það að vita hvað það þýðir? Hér er fullt af
útlendingum sem bjarga sér en það þýðir
ekki að það sé ekki þörf fyrir túlkaþjónustu
i svona alvarlegum málum – til að tryggja
mannréttindi.“
Spurning um að byggja upp samfélag
Amal starfar sem framkvæmdastjóri hjá
Jafnréttishúsi í Hafnarfirði. Hún segir að í
íslenskukennslu þar hafi samfélagsfræðsla
verið tekin inn. „Við förum með þau á Alþingi.
Fæstir okkar nemenda, sem höfðu kannski
verið í fimm ár á Íslandi, vissu að þetta hús
væri Alþingi. Það vantar meiri upplýsingar,
það vantar breytingar á íslenskukennslu.“
Í kennslunni hjá Jafnréttishúsi er jafn-
framt farið með nemendur á bókasöfn og
minjasöfn. „Við reynum að gera
allt sem Íslendingar gera. Þegar
Harpa kom vissi enginn hvað
Harpa var. Þau sáu þessa stóru
byggingu en nafnið Harpa, hvað
var það? Þau þekkja stelpuna
Hörpu. Með því að fólk þekki sam-
félagið erum við líka að minnka
fordóma. Ef við setjum sérstakt
fjármagn í innflytjendamál erum
við að tryggja betri framtíð fyrir
samfélagið, af því að útlendingar
eru að koma hingað og búa hér
og þeir eru ekki að fara. Þetta
eru ekki greiðar við útlendinga,
þetta er spurning um að byggja
okkar samfélag. Þá lendum við
ekki í byltingu frá þriðju kynslóð
innflytjenda eftir tuttugu ár.“
Sérstök stofnun eða umboðs-
maður fyrir innflytjendur
Að mati Amal þyrfti að vera sér-
stök stofnun sem sæi um öll mál-
efni innflytjenda þar sem upplýs-
ingar væru í boði. „Fólk lendir í
alls konar vitlausum vandamálum,
sem væri hægt að forðast með smá upplýs-
ingum. Þess vegna þurfum við einhverja
stofnun, umboðsmann, eitthvað sem hjálpar
innflytjendum að fá réttar upplýsingar og
tækifæri til að aðlagast.“ Hún segir þó margt
hafa breyst til batnaðar frá því að hún kom
til landsins. Þá hafi til dæmis aðeins verið
íslenskukennsla á kvöldin og bara í Austur-
bæjarskóla. „Nú erum við með fjölmenning-
arsetur á netinu og þar er fullt af upplýsing-
um á mörgum tungumálum, en vandamálið er
að fólk er kannski ekki með aðgengi að tölv-
um eða kann ekki á þetta. Það verður að vera
staður þar sem fólk getur komið og spurt og
fengið upplýsingar, og þessi staður verður að
vera öllum þekktur.“
Þau sáu
þessa stóru
byggingu,
en nafnið
Harpa, hvað
var það? Þau
þekkja stelp-
una Hörpu.
Samfélagið græðir á innflytjendum
Amal Tamimi hefur búið hér á landi frá árinu 1995 og er nú fyrsta konan af erlendum uppruna til að setjast á Alþingi. Hún vakti
athygli á málefnum innflytjenda í sérstakri umræðu á þinginu fyrr í vikunni. Hún fór yfir málin með Þórunni Elísabetu Bogadóttur.
MEÐ ÞINGIÐ Í BAKSÝN Amal hefur setið á Alþingi frá 3. nóvember og verður út mánuðinn, í þetta skipti. Hún segist enn vera í aðlögun en var málshefjandi að umræðu um málefni innflytjenda fyrr í vikunni. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Spurð hvort eitthvað hafi komið henni sérstaklega á óvart við veruna á Alþingi segir hún svo
varla vera. „En mér finnst mjög gott samband milli fólks fyrir utan pólitík. Fólk situr á sama borði
og borðar. Þetta er eitthvað annað en í arabalöndunum. Þar er ekkert persónulegt annars vegar
og vinnutengt hins vegar. Þá er það bara „ef þú ert á móti mér í pólitík er rosalega erfitt að vera
vinkona þín“. Hér situr fólk og spjallar og hlær, þótt það hafi verið að rífast fyrr um daginn. Einka-
lífið og vinnan er sér.“
Alþingi ólíkt arabalöndunum