Morgunblaðið - 10.12.2010, Qupperneq 18
Umræðan
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. DESEMBER 2010
Því hefur aldrei og
hvergi verið haldið
fram af hálfu Akureyr-
inga, að vitað sé,
hvernig kirkjurúðan
fræga í miðglugga kórs
Akureyrarkirkju hafi
borist frá Coventry til
London. Það hefur
hins vegar oft verið
sagt og skrifað, að sá
þáttur ferils hennar sé
ókunnur. Hins vegar
hefur Hjálmtýr V. Heiðdal staðhæft
víða, m.a. í Mbl. 2. des., að henni hafi
verið stolið úr geymslustað og síðan
hafi hún (ásamt fleiri rúðum) verið
flutt í listmunaverslun í London. Þó
hefur hann varist allra frétta um,
hvernig hann veit það og hverjir
önnuðust flutninginn. Ekki hefur
hann heldur mér vitanlega lagt fram
nein sönnunargögn fyrir þessari
fullyrðingu. Hún er hins vegar upp-
haf þeirrar leynilögreglusögu, sem
þeir Karl Smári Hreinsson kalla
rangnefninu „heimildarkvikmynd“
og þeir spinna síðan eins og
kóngulóarvef um Akureyri og ýmsa
íbúa hennar og bendla nokkra þeirra
við alvarlegar ávirðingar. Nú síðast
spyrðir hann okkur sr. Svavar Al-
freð Jónsson saman og bregður um
lygar. Þar syndga ég í góðum fé-
lagsskap og má vel við una.
Lítið dæmi um áreiðanleika
„heimildarkvikmyndarinnar“ skal
nefnt hér: Tvisvar (að mig minnir)
er minnst á „Brekkuskóla“ vegna at-
viks, sem gerðist 1963 eða 1964.
Tápmiklir drengir úr 2-3 hverfum
höfðu það að leik þetta góðviðra-
haust að mynda hópa, sem lumbruðu
hver á öðrum með birkigreinum eft-
ir að skyggja tók. Eitt kvöldið höfðu
tvær sveitir tekist á í nánd við kirkj-
una, einhver gripið upp stein, skotið
honum af teygjubyssu, en hæft litla
rúðu í steinda glugganum af klaufa-
skap eða óheppni. Morguninn eftir
talaði skólastjórinn við nemendur og
bað foringjana að láta af þessum
leik, svo að ekki hlytust af meiðsl á
fólki eða frekara eignatjón. Tók svo
fyrir þessi læti, enda brá nú til verra
tíðarfars. Gert var við rúðuna, og
málið gleymdist. En
viti menn! Ekki var
annað að heyra á texta
„heimildarkvikmynd-
arinnar“ en að með
þessum slettirekuskap
hefði skólastjórinn
sýnt af sér óhæfilega
afskiptasemi af ótta við
Jakob Frímannsson og
frímúrara! – Því er við
að bæta, að „Brekku-
skóli“ var ekki stofn-
aður fyrr en haustið
1997 eða um ald-
arþriðjungi síðar. Vönduð vinnu-
brögð?
Varla hefur nokkurn Íslending
grunað, að myndarúðan fræga væri
ránsfengur eða þýfi, þar sem hún
var til sölu í London árið 1942 eða
1943. Eðlilegt var að álykta, að hún
væri venjuleg verslunarvara og ætti
ekki afturkvæmt í kirkjuna sína, því
að hún var brunnin, hrunin og rústir
einar. Andvirðið gæti komið sér vel
við byggingu nýrrar kirkju síðar.
Átti Helgi H. Zoëga að biðja um að
fá að sjá kvittanir og innkaupaskrár
verslunarinnar? Er venjan sú, þegar
fólk fer í búðir?
Átti Jakob að krefja Helga um
tollskýrslur, reikninga og kvittanir,
þegar hann sá rúðuna í búðinni við
Aðalstræti í Reykjavík? Var það eða
er það venja, þegar fólk kemur inn í
sölubúðir í Reykjavík? Stóð toll-
gæslan ekki í stykkinu sínu? Versl-
un Helga var meira að segja nærri
því undir nefinu á embætti toll-
stjóra. Krefst Hjálmar V. Heiðdal
þess að fá að sjá tollskýrslur, þegar
hann fer í búðir? Tortryggja menn
hver annan, þegar þeir eiga við-
skipti? Umgangast þeir hver annan
sem sennilega afbrotamenn og lög-
brjóta?
En þá erum við komin að mikil-
vægustu röksemdunum fyrir því, að
hjónin Borghildur Jónsdóttir og
Jakob Frímannsson hafi talið sig
hafa vissu fyrir því, að myndarúðan
væri vel fengin:
1) Þau gáfu hana, aukna og upp-
setta, hinum nýja helgidómi Akur-
eyringa, kirkjunni, sem þeim þótti
vænt um.
2) Þau gáfu hana í minningu for-
eldra sinna, annars vegar Bjargar
Ísaksdóttur og Jóns Finnbogasonar,
bankastarfsmanns, og hins vegar
Sigríðar Björnsdóttur og Frímanns
Jakobssonar, trésmiðs.
Enginn, sem þekkti til Borghildar
og Jakobs, hefði látið sér til hugar
koma, að þau hefðu viljað bendla
nöfn foreldra sinna og minningu
þeirra um aldur og ævi við hlut, sem
þau hefðu minnsta grun um, að væri
illa fenginn. Slík hugmynd væri fá-
ránleg fjarstæða, gersamlega
óhugsandi, afsannar sig sjálf.
Mér þykir illa fara á því og ómak-
legt að bregða prestum Akureyrar-
kirkju um vanrækslu og skort á
skyldurækni. Ólatara fólk er vand-
fundið og hefur unnið verk sín langt
fram yfir skyldu. Sumir prestarnir
unnu ótrúleg þrekvirki í þágu safn-
aðarins, ekki síst unga fólksins, enda
virtir og dáðir. Þeir eru nú flestir
látnir og ættu að fá að hvíla í friði.
Til eru lítil dýr með loðinn belg og
langt skott, skær augu og umfram
allt: hvassar tennur. Mörgum finnst
þessi dýr snotur, og þau eru dugleg
að bjarga sér. Gallinn er sá, að þau
eru líka miklir skemmdarvargar,
naga og naga með beittu tönnunum
sínum, sem vaxa jafnóðum og þær
slitna af brúkun. Þau geta ekkert að
þessu háttalagi gert, þetta er eðli
þeirra, yndi og æðsta köllun. Naga
og naga. Og himinn þeirra er ekki
hótinu hærri en þak holunnar, sem
þau búa í. Þess vegna fyrirgefst
þeim, – þangað til þau fara að naga
mannorð þeirra, sem horfnir eru. Þá
er það skylda okkar hinna að sker-
ast í leikinn.
Ofsögur
Eftir Sverri Pálsson »Krefst Hjálmar V.
Heiðdal þess að fá
að sjá tollskýrslur, þeg-
ar hann fer í búðir? Tor-
tryggja menn hver ann-
an, þegar þeir eiga
viðskipti?
Sverrir Pálsson
Höfundur er fv. skólastjóri og var
fréttaritari Morgunblaðsins á Akur-
eyri 1962-1982.
Mér hefur oft sárn-
að þegar ég heyri tal-
að niðrandi um ís-
lenska grunnskóla og
störf þeirra. Iðulega
er bent á hversu dýr
fræðslumálin eru og á
stundum er óbeint
vegið að kennurum
þegar rætt er um fjár-
mál sveitarfélaganna
einkum nú þegar
þrengir að.
En nú get ég ekki orða bundist.
Klifað hefur verið á rekstrartölum,
fjölgun starfsmanna o.s.frv. en oftar
en ekki eru engar raunhæfar skýr-
ingar nefndar. Námsárangur ís-
lenskra barna talinn svo og svo
slakur og jafnvel mætustu „gáfu-
menn“ voru farnir að
tala um í ræðu og riti
að nú myndi aldeilis
ekki verða betri út-
koma úr síðustu Pisa-
könnun. Ég hugsaði
með mér; hvar er nú
bjartsýnin sem við eig-
um svo mikið af Ís-
lendingar? Hvar er já-
kvæðnin gagnvart
menntun barnanna
okkar?
Og svo komu Pisa-
niðurstöður. Þær voru
sannarlega gleðiefni, námsárangur
á uppleið og við svo sem í hópi ann-
arra vestrænna þjóða, jafnvel þó við
sinnum verk- og listgreinum miklu
meira heldur en almennt gerist hjá
nágrannþjóðum og hlýtur að rýra
þann tíma sem fer í bóklegt nám.
Og þá er að finna ástæðuna fyrir
þessari góðu útkomu. Jú, háttvirtur
menntamálaráðherra taldi – hafi ég
heyrt rétt í kvöldfréttum Sjónvarps
7. des. – að lesskilningur sem væri
svo miklu betri núna væri því að
þakka að foreldrar hefðu haft betri
tíma með börnum sínum eftir hrun!
Vissulega hafa margir betri tíma
og nýta hann vonandi með börnum
sínum en að halda því fram að tím-
inn frá hruni haustið 2008 og til
þess tíma er Pisa var lagt fyrir í
mars 2009 hafi skipt þar sköpum er
auðvitað í besta falli vitleysa. Af
hverju ekki að segja eins og er að
íslenskir grunnskólakennarar eru
metnaðarfull stétt sem leggur allt
að veði til þess að koma nemendum
sínum til þroska á öllum sviðum? Af
hverju virðist svona erfitt að segja
jákvæða hluti um kennara? Hvers
eiga þeir að gjalda?
Hvers eiga íslenskir grunn-
skólakennarar að gjalda?
Eftir Hönnu
Hjartardóttur » Af hverju ekki að
segja eins og er að
íslenskir grunnskóla-
kennarar eru metn-
aðarfull stétt sem legg-
ur allt að veði til þess að
koma nemendum sínum
til þroska á öllum svið-
um?
Hanna Hjartardóttir
Höfundur er skólastjóri og amma
grunnskólanemenda.
Móttaka aðsendra greina
Morgunblaðið birtir alla útgáfudaga aðsendar umræðugreinar frá les-
endum. Blaðið áskilur sér rétt til að hafna greinum, stytta texta í samráði við
höfunda og ákveða hvort grein birtist í umræðunni, í bréfum til blaðsins eða á
vefnum mbl.is. Blaðið birtir ekki greinar, sem eru skrifaðar fyrst og fremst
til að kynna starfsemi einstakra stofnana, fyrirtækja eða samtaka eða til að
kynna viðburði, svo sem fundi og ráðstefnur.
Þeir sem þurfa að senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að
nota innsendikerfi blaðsins. Formið er undir liðnum „Senda inn efni“ of-
arlega á forsíðu mbl.is. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/
sendagrein.
Nánari upplýsingar gefur starfsfólk greinadeildar.
Munið að
slökkva á
kertunum
Slökkvilið
höfuborgasvæðisins
Kertakveikur á ekki að
vera lengri en 1 cm.
Klippið af kveiknum
svo að ekki sé hætta
á að logandi kveikur
detti af og brenni
út frá sér