Morgunblaðið - 11.04.2011, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 11.04.2011, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 11. APRÍL 2011 ✝ RagnhildurJónsdóttir var fædd á Gautlönd- um í Mývatnssveit 24. ágúst 1926, dóttir hjónanna Önnu Jakobsdóttur frá Narfastöðum í Reykjadal, f. 1891, d. 1934 og Jóns Gauta Péturssonar frá Gautlöndum í Mývatnssveit f. 1889, d. 1972. Systkini hennar eru Ásgerður f. 1919, Sigríður f. 1922, d. 1993 og Böðvar, f. 1925, d. 2009. Ragnhildur giftist Jóni Sig- urgeirssyni frá Helluvaði í Mý- vatnssveit f. 14. apríl 1909, d. 11. september 2000. Börn þeirra eru: 1) Jón Gauti f. 17. júlí 1952, d. 22. maí 2007. Ekkja hans er Helga Pálína Brynjólfsdóttir. Jón Gauti átti Eirík Gauta f. 6. maí 1975, með Jennýju Karítas Steinþórsdóttur. Með fyrri konu sinni, Lilju Ásgeirsdóttur, átti Jón Gauti þá Jón Ásgeir f. 15. júlí 1983 og Guðmund Karl f. 6. september 1986, sem kvæntur er Þórunni Jens- dóttur. Dóttir þeirra er Katla f. 26. ágúst 2009. 2) Geirfinnur f. 5. júní 1955, kvæntur Hlíf Sigurjónsdóttur, synir þeirra hennar tíma. Ragnhildur og Jón hófu búskap í Aðalstræti 50 á Akureyri en árið 1957 fluttu þau í Spítalaveg 13. Þar bjuggu þau alla sína tíð og Ragnhildur síðan ein eftir lát Jóns þar til hún flutti á Dval- arheimilið Hlíð í byrjun árs 2008. Heimili þeirra hýsti margan gestinn og ætíð var pláss fyrir alla. Ragnhildur vann með hléum á Kristnes- hæli frá 1968 til ársins 1976 þegar hún hóf störf á Skatt- stofu Norðurlands, en þar var hún við skrifstofu- og af- greiðslustörf til 71 árs aldurs. Ragnhildur vann mikið að fé- lagsmálum. Hún gekk í kven- félagið Hlíf 1960 og átti stóran þátt í fjáröflunarstarfsemi fyr- ir uppbyggingu barnadeildar F.S.A. Hún var lengi í skóla- nefnd Húsmæðraskólans á Ak- ureyri, sat í stjórn Slysavarna- félagsins og lagði hvarvetna mikið af mörkum. Hún hafði ríka réttlætiskennd og lét sig varða málefni réttlætis og mennsku. Menning og listir voru áhugamál Ragnhildar og hún sótti flestar leik- og mynd- listarsýningar og tónleika sem í boði voru og studdi menning- arlífið af lífi og sál. Hún var Mývetningur í hjarta en Ak- ureyri var hennar heimabær og hún var stolt af bæjarbúum sem fegruðu bæinn sinn með gróðri og umhirðu og byggðu Hof yfir listirnar. Útför Ragnhildar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin kl 13.30. eru Jón H. f. 29. nóvember 1991 og Böðvar Ingi H. f. 28. júní 1995. 3) Sólveig Anna f. 21. maí 1959. 4) Her- dís Anna f. 11. ágúst 1962, gift Steef van Oos- terhout. Synir þeirra eru Jakob f. 16. júlí 1997 og Tómas f. 27. des- ember 2000. Ragnhildur var alin upp á stóru heimili á Gautlöndum. Hún missti móður sína ung og tengslin við móðurfólkið á Narfastöðum voru sterk og mikilvæg. Hún drakk í sig menningu beggja heimila og bjó að því alla tíð. Almenn sveitastörf og farskóli ásamt ungmennafélagsstarfi voru skólagangan þar til hún fór til náms við Reykholtsskóla í Borgarfirði árið 1945. Ári síð- ar fór hún til Svíþjóðar á lýðháskóla og dvaldi næstu ár ytra við nám og störf, lengst af í Noregi og lauk þaðan vefn- aðarkennaraprófi 1950. Ragn- hildur kenndi vefnað við hús- mæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði eftir heimkomuna en smám saman tók stórt heimili og mikill gestagangur allan Ragnhildur frænka kynntist fólki auðveldlega, ræktaði sam- band við það, fór ekki í mann- greinarálit né skipti kynslóðabil- ið hana nokkru máli og átti hún vini á öllum aldri. Heimili henn- ar og Jóns í Spítalavegi 13 var í þjóðbraut, bæði voru gestrisin með afbrigðum og margir nutu. Greiðvikni þeim í blóð borin, bæði alin upp við að greiða götu hvers manns ef mögulegt var og gerðu það svikalaust; snúningar og innkaup fyrir aðra, lagt út fyrir því – allt frá dráttarvél til trúlofunarhringa. Því þótti Ragnhildi sjálfsagt að leita til annarra þyrfti hún þess með þótt ekki hefðu allir skilning á hve eðlilegt henni var það. Aldrei minnist ég þess að hún legði illt til nokkurs manns en hún gat orðið hissa á framkomu fólks. Á heimilinu var aldrei tal- að um fólk í öðrum tilgangi en að ættfæra það, enda bæði ágætlega ættfróð. Hún fylgdist mjög vel með stórum frænd- garði, hvað hver lagði fyrir sig; menntun eða vinnu, hverjir tóku saman, hvaða börn fæddust, hvað varð um þau og mundi allt fram í andlátið, sama hvern um var rætt. Aðdáunarverður var einlægur áhugi hennar fyrir annarra velferð. Henni þótti vænt um fólk og hún kunni að sýna það. Svo þótti hún líka dálítið stjórnsöm, en ég held að það hafi stundum verið nauðsynlegt. Hún var fróðleiksfús með afbrigðum alla tíð en algerlega hrekklaus. – Já, hún var bara afskaplega væn og góð manneskja, sem auðvelt var að þykja vænt um. Heilsan var verulega farin að gefa sig, verst fór þó Parkinson með hana. Dísusynir orðuðu það laglega þegar þeir töluðu um að álögin væru komin yfir ömmu, sem mátti til sanns vegar færa. Hún hafði ætlað sér að eiga nokkur góð ár í ellinni – njóta þeirra á sinn hátt; vera þátttak- andi. Heilsan kom í veg fyrir að það yrði á þann hátt sem hún sjálf hefði kosið. Þrá hennar til að njóta þess sem eflir andann var rík en þannig skynjaði ég áhuga hennar fyrir leikhúsi, myndlistarsýningum, tónleikum og öðru slíku. Umhverfi hennar og heimili ómaði af tónlist en líka töluðu máli; af ákafa – stundum svo miklum að þegar hver spurningin rak aðra og manni gafst ekki tóm til að svara af því að hún var svo spurul, þá kom fyrir að við skelltum upp úr. Hún naut þess að hafa félagsskap af öðru fólki, henni féll ekki einveran. Nú hefur lífsklukkan hennar Ragnhildar frænku minnar hljóðnað og mér finnst eins marrið í stigum og gólfi í Spít- alavegi 13 hafi einnig breytt um tón. Líf hennar síðustu mánuði var ekki það líf sem hún kaus sér; fangi síns krankleika. Ég trúi því að nú líði frænku minni vel og því er í rauninni ástæða til að gleðjast, hennar vegna. Óþarft er að telja upp afrek þeirra hjóna þótt listinn gæti í sjálfu sér verið langur og litrík- ur. Sé hugsað til systkinanna úr Spítalavegi 13 má átta sig á hví- líkar mannkostamanneskjur þau voru bæði, Jón og Ragnhildur. Að skilnaði held ég að sé við hæfi að „nota ferðina“ eins og Gautum er gjarnt og biðja þig, kæra frænka mín, að skila kveðju frá mér til ættmenna vorra fyrir handan. Meira: mbl.is/minning Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir. Unibaryt, uppstoppaður fálki, Þeistareykir, ferðaorgel, Spít- alavegurinn, hundrað-milljón- helvít, Herðubreið, rússajepp- inn, gestaþrautir, Gautlönd, „taktu-af-þér-væni minn,“ – allt þetta eru þau Jón og Rænka, bæði tvö, og hvort fyrir sig. Húsið þeirra í brekkunni: æv- intýraheimur. Ferðalögin: geim- ferðir hvað? Jón farinn fyrir nokkru, þræðir biskupaleiðir á himnum, Rænka nú sjálf farin á hálendið, hittir þar sinn Jón. Reyndar var Rænka í raun aldrei efnisleg, eiginlega allt annað: hugmyndarík, forvitin, fyndin, mótsagnakennd, músík- ölsk, spennusækin, leiftrandi, og óendanlega hjálpsöm. Það eru bara þessir litlu skrýtnu hlutir í kringum hana sem gera leik- myndina, og örnefnin kalla fram áfangastaðina. Gautlönd voru uppruninn, rússinn farartækið, Spítalavegurinn heimilið, og fálkinn vakti yfir stofunni. Ó jú, gestrisnin, nei ekki gestrisnin, heldur bara viðmótið og hlýjan, – já hlýjan. Það er rétta orðið. Sem krakki á leið í Mývatns- sveit, eða á leiðinni til baka heim aftur til Ísafjarðar, þá var húsið í brekkunni skiptistöðin, þar sem beðið var næsta fars. Fyrir mig reyndar var Akureyri þá stórborg, meira að segja rúllustigi í magasíninu og full- orðinsmyndir í bíóinu. Eldhús- borðið var staðurinn þar sem allt þetta gerðist, áfangastaður sveitunganna og fréttastofan þar sem nýjustu tíðindin voru alltaf eldri en þau síðustu. Gengið inn bakdyramegin, og þú gast valið um að fara upp tröpp- urnar fjórar eða niður stigann í kjallarann. Að fara upp var að taka þátt, að fara niður, var að ganga í draum. Eldhúsið uppi, stofan, fálkinn, og píanóið, en niðri: smiðjurnar og galdratólin hans Jóns. Þvílíkur heimur! Skil ekki ennþá hvernig það gat gerst að þau komu okkur krökkunum öllum fyrir afturí í jeppanum, þetta var blæju- rússi, og svo öllu nestinu og teppunum og tjalddótinu þar líka, þau sjálf samankreppt í framsætunum. Síðan af augum fram um hálendið þvers og kruss, yfir hraun og sanda, mela og börð, sjaldnast vegir en alltaf ratað rétt. Óbyggðirnar vakn- aðar til lífsins, sagnaheimur, söngur og kveðandi: „hundrað- milljón-helvít, hnullungar og stórgrýti,“ og fjöllin leika drottningar sem kallast á yfir heiðan morgun. Í ljómanum skiptir plássið ekki máli, jeppinn er alltaf nógu stór. Elsku frænka, þú alltaf svo örlát og gefandi, ekki bara í barnsins minningu, heldur alltaf og ekki síður þegar aldurinn færði okkur nær. Þú hlustaðir, þú skildir og þú treystir. Harm- urinn þegar Gauti þinn dó, býr djúpt í okkur öllum, hverfur aldrei, og var kannski engum sárari en þér. Þú samt óbrotin, reist, og styrktir okkur sem í hlýjuna til þín leituðu. Þú finnur hann þar, þar sem slóðarnir enda. Unibaryt er merking á stál- kassa. Kassinn ekki stór, en rúmar vel samlokur og smurt brauð í nesti fyrir hjón á jeppa með krakkahóp. Ferðinni heitið til óbyggða. Veit ekki hvað þetta þýðir, Unibaryt, en trúi því að kassinn hafi verið utan af geisla- virku efninu fyrir röntgentækið á spítalanum. Hvort það var þannig, skiptir ekki máli, töfr- arnir eru þeir sömu. Hjálmar H. Ragnarsson. Gautlandasystkinin Ásgerður, Sigríður móðir okkar, Böðvar og Ragnhildur voru allt frá barn- æsku ákaflega samrýnd og sam- heldin. Þar breytti engu þótt Ásgerður flyttist til Reykjavík- ur, móðir okkar til Ameríku og seinna til Ísafjarðar, og Ragn- hildur til Akureyrar. Þau áttu sitt annað heimili hvert hjá öðru og börn þeirra og barnabörn sömuleiðis, allt fram á þennan dag. Heimili Ragnhildar og Jóns Sigurgeirssonar, fyrst í Aðal- stræti 50 og síðar að Spítalavegi 13 á Akureyri, var alla þeirra búskapartíð vafalaust eitt gest- kvæmasta heimili á Íslandi. Spítalavegurinn var fastur og sjálfsagður áfanga- og áningar- staður ótrúlegs fjölda fólks sem átti erindi til Akureyrar eða leið í gegnum bæinn. Ragnhildur var sérlega myndarleg og hag- sýn húsmóðir og aldrei skorti mat né drykk þótt heilu kór- arnir eða leikfélögin dyttu óviðbúið inn úr dyrunum. Raun- ar vissu allir að dyrnar voru ólæstar og auðratað í búrið, væru húsráðendur ekki heima. Helst áttu þeir þó að vera heima, því þá var svo gaman. Ragnhildur var mikil sögukona, stórgáfuð og tilfinningarík, allt- af með skoðanirnar á hreinu. Hún var ræðin, orðheppin og fyndin, stundum meinfyndin. Jón var fremur hljóðlátur en góður hlustandi. Hann hafði þó engu að síður ánægju af sel- skapnum sem safnaðist flesta daga í eldhúsinu. Þegar honum fannst öldugangurinn orðinn heldur gusumikill átti hann til að segja: „Já, já og einmitt það,“ söngla vel valda vísu og allt hljóðnaði í smástund. Fjöl- breyttustu málefni bar á góma. Ekkert var of hversdagslegt til að vera krufið og diskúterað út í ystu æsar. Oftast voru menn ósammála og erfitt að slíta sig frá umræðunum. Þá tók Ragn- hildur af skarið og sagði: „Jæja, nú verða allir að fara að gera eitthvað.“ Og allir hlýddu. Það þurfti hugmyndaflug og sveigjanleika til að halda hlut- unum gangandi á hinu erilsama heimili. Ragnhildur stundaði öll sín störf af stakri vandvirkni og natni og ætlaðist til hins sama af öðrum. Líf hennar snerist að miklu leyti um að létta undir með samferðafólki sínu og gera því kleift að njóta lífsins. Hún hafði ríkan skilning á mannleg- um breyskleika og vandfundið er blíðara hjarta en hennar, sem nú er hætt að slá. Það var gott að halla sér að barmi hennar ætti maður bágt eða við sorgir að stríða. Jón og Ragnhildur stunduðu óbyggðaferðir löngu áður en slíkt varð tískusport. Frænd- fólkið á dásamlegar minningar um ferðalög sem urðu mörgum kveikjan að varanlegum áhuga á náttúru Íslands og umhyggju fyrir vernd hennar. Ragnhildur var fagurkeri og hafði sérstakan áhuga á listiðn- aði og textíllist, enda lærður vefari. Hún hafði yndi af tónlist og sótti gjarnan tónleika. Það sópaði að henni hvarvetna og vissulega var hún það sem nú er í tísku að kalla „flott kona“. Mikið söknum við elskulegrar frænku okkar. Við þykjumst þess þó fullviss, að í himnaríki finnur hún horfna ættingja og vini. Þau sitja í notalegu horni, þar er fjör í tuskunum og gott að vera. Við systkinin þökkum fyrir okkur. Anna Áslaug, Sigríður og Hjálmar. Rænka var ein af þeim sem mér fannst að gætu einfaldlega ekki yfirgefið þennan heim. Uppfull af fróðleik, sögum, reynslu og síðast en ekki síst hlýju. Þó svo að margt hafi gefið sig síðustu ár gat ég alltaf stól- að á hlýjan faðm hennar og spurninguna „hvað má bjóða þér, nafna mín?“, en þau forrétt- indi að heita í höfuðið á afasyst- ur minni eru ómetanleg. Örlögin höguðu því þannig að Rænka gekk eiginlega í ömmu- hlutverkið. Þegar ég flutti til Akureyrar vegna námsins var alltaf jafn gott að geta komist frá heimavistarmatnum í al- mennilegan heimilismat og hafa annað ömmu-athvarf þar. Rænkuströnglar og kleinur með mjólk, kandís og rúsínur í skál, pekanhnetu- og karamelluís í frystikistunni. Þegar fyrsti bíll- inn var keyptur var ekkert sjálf- sagðara en að taka þriðjudaga eða fimmtudaga frá í hverri viku til að geta aðstoðað Rænku við heimilisinnkaupin eða keyra hana í lagningu. Það sem virtust vera óþarfa aukamínútur þá, finnst mér vera bónusmínútur núna. Rænka hafði alltaf áhuga á að heyra hvernig mennta- skólalífið gekk fyrir sig. Námið, vinkonurnar, strákarnir. Oft fékk hún að heyra meira en margir aðrir, hún var svo skiln- ingsrík og gat hlustað og leið- beint vel. Ég er svo innilega þakklát fyrir það að hún hafi verið hluti af lífi mínu hingað til, og áfram. Eitt er það sem aldrei gleymist, aldrei, það er minning þín. (Guðmundur G. Halldórsson.) Ragnhildur (nafna þín). Ragnhildur Jónsdóttir flugfelag.is ÍS L E N S K A /S IA .I S •• •• •• •• •• •• •• •• •• Langar þig til Ísafjarðar? Skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara 2. maí og 16. maí. Kjörið fyrir þá sem vilja komast í náttúruparadísina á Vestfjörðum. Allar upplýsingar veitir Emil Guðmundsson í síma 898 9776. Einnig hægt að senda tölvupóst á emil@flugfelag.is eða hopadeild@flugfelag.is Lokað Vegna jarðarfarar FINNBOGA GUÐMUNDSSONAR fv. landsbókavarðar verður bókasafnið lokað mánudaginn 11. apríl kl. 14.30 - 16.30. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Að skrifa minningagrein Ekkert gjald er tekið fyrir birtingu minningagreina. Þær eru einnig birtar á www.mbl.is/minningar. Skilafrestur minningagreina er á hádegi tveimur virkum dögum fyrir útfarardag, en á föstudegi vegna greina til birtingar á mánudag og þriðjudag. Fjöldi greina í blaðinu á útfarardag ræðst af stærð blaðsins hverju sinni en leitast er við að birta allar greinar svo fljótt sem auðið er. Hámarkslengd minningagreina er 3.000 tölvuslög með bilum. Lengri greinar eru vistaðar á vefnum, þar sem þær eru öllum opnar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.