Morgunblaðið - 27.10.2011, Blaðsíða 36
KVIKMYNDIR
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Yfirskrift kvikmyndahátíðar Amn-
esty International í Bíó Paradís er
(Ó)sýnileg (á veggspjaldi er búið að
strika yfir ó-ið með x-i) og er þar
vísað í starf samtakanna sem fagna
í ár fimmtugs-
afmæli. Á hátíð-
inni verða sýndar
tólf heimildar-
myndir þar sem
sjónum er beint
að þeim áhrifum
sem aðgerðir eða
aðgerðaleysi yfir-
valda í ólíkum
löndum hafa á líf
fólks. Myndirnar
hafa allar hlotið
alþjóðlega viðurkenningu.
„Þetta er í annað sinn sem Ís-
landsdeildin stendur fyrir mann-
réttindakvikmyndadögum. Í fyrsta
sinn var það í tilefni af 20 ára af-
mæli deildarinnar, árið 1994,“ segir
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, fram-
kvæmdastjóri Íslandsdeildar Amn-
esty International. „Þetta eru
myndir sem hafa vakið athygli á há-
tíðum erlendis, þarna eru ólík við-
fangsefni og ólík nálgun á þau líka,
aðferðirnar sem eru notaðar við
gerð myndanna eru ólíkar.“
Áþreifanleg ógn
– Gætir þú nefnt mér dæmi um
það, hvernig aðferðirnar eru ólíkar?
„Já. Við byrjum t.d. á The Green
Wave sem fjallar um aðdraganda
kosninganna í Íran árið 2009. Sú
mynd er byggð þannig upp að hluti
hennar byggist á bloggumræðum
og Twitter-færslum sem bárust frá
Íran og sá hluti myndarinnar er
teiknaður, allt teiknimyndir og
mjög vel gerðar. Síðan eru viðtöl
við fólk inn á milli þannig að hún er
að hluta til teiknimynd. Hún er
mjög áhrifamikil og kallast á við
það sem er að gerast núna í Norð-
ur-Afríku og Mið-Austurlöndum,“
segir Jóhanna.
Í Independent Mind sé fjallað um
tjáningarfrelsið og nokkrum ein-
staklingum fylgt eftir; reggí-
söngvara frá Fílabeinsströndinni,
skopteiknara frá Túnis sem þurfti
að fara í útlegð þar sem hann teikn-
aði skopmynd af þáverandi forseta
landsins og ljóðskáldi sem hefur
þurft að yfirgefa ættjörðina og býr
núna í Svíþjóð. Kastljósinu sé beint
að ólíkum hliðum tjáningar-
frelsisins. Jóhanna nefnir einnig
heimildarmynd frá Perú, The Devil
Operation, en hún fjallar um áhrif
námavinnslu á líf bænda þar í landi.
„Að horfa á hana er eins og að horfa
á spennumynd. Þótt hún sé heimild-
armynd er hún þannig að maður sit-
ur spenntur í sætinu. Sem áhorf-
andi finnur þú fyrir ógninni.“
Manneskja, ekki fórnarlamb
Þó svo umfjöllunarefni mynd-
anna séu alvarleg er gamansamur
tónn í sumum þeirra. Jóhanna nefn-
ir sem dæmi þar um Pink Saris,
mikill húmor sé í henni sem og í Sis-
ters in Law. „Einstaklingar hafa
svo margar ólíkar hliðar. Þótt þú lif-
ir og sért í aðstæðum sem eru ekki
til fyrirmyndar þá ertu manneskja
en ekki fórnarlamb. Þú ert bara að
takast á við hlutina. Það er eigin-
lega hægt að segja um flestar þess-
ar myndir að þú nálgast í þeim ein-
staklinga á svo fallegan hátt,“ segir
hún.
Löfgren heiðursgestur
Sérstakur heiðursgestur hátíðar-
innar verður Peter Löfgren, fram-
leiðandi heimildarmyndarinnar Tra-
vel Advice for Syria frá árinu 2008.
Hann verður viðstaddur sýningu á
myndinni 8. nóvember og mun sitja
fyrir svörum að henni lokinni. Jó-
hanna segir Löfgren sérfræðing í
málefnum Mið-Austurlanda, hann
hafi starfað þar til fjölda ára, búið í
Líbanon og starfað fyrir sænska
sjónvarpið. Í myndinni er fjallað um
aðdraganda uppreisnarinnar í Sýr-
landi, þá spillingu og mannréttinda-
brot sem þar hafa viðgengist. „Þetta
er mjög áhugaverð mynd, hún lýsir
því vel hvernig er að búa í ríki þar
sem eftirlit er allan sólarhringinn,
eins og hefur verið í Sýrlandi hjá
Assad-feðgum,“ segir Jóhanna. Það
sé tilhlökkunarefni að fá að hlusta á
Löfgren segja frá gerð myndarinnar
og útskýra fyrir áhorfendum hvað sé
að gerast í Sýrlandi í dag.
Jóhanna nefnir einnig heimildar-
myndina Nowhere in Europe. Í
henni sé fjallað um nokkra Tétsena
sem hafa þurft að flýja vegna átaka í
heimalandi sínu. Þeirra á meðal sé
blaðamaður sem vann með rúss-
nesku rannsóknarblaðakonunni
Önnu Politkovskaju og þurfti að
flýja land. Jóhanna segir að í mynd-
inni sé fjallað um þær hömlur sem
settar séu á hælisleitendur í Evrópu,
hvernig þeir séu í hálfgerðu tíma-
leysi, í endalausri biðstöðu. „Hún
kallast á við raunveruleika fólks sem
er hér í sömu biðstöðu, veit eiginlega
ekkert hvað verður.“
Jóhanna segir að bíógestum verði
boðið í ferðalag sem leiði þá til allra
heimshorna og veiti þeim innsýn inn
í líf og aðstæður fólks. Að ferðalag-
inu loknu muni bíógestir hafa kynnst
fólki sem þrátt fyrir oft á tíðum erf-
iðar aðstæður haldi áfram að krefj-
ast réttar síns til að lifa með reisn.
Þess má geta að miðaverði verður
stillt í hóf á kvikmyndadögum Amn-
esty International, bíómiðinn mun
kosta 700 krónur.
Hið ósýnilega gert sýnilegt
Indland Úr heimildarmyndinni Pink Saris, einni þeirra mynda sem sýndar verða á kvikmyndadögum Amnesty.
Íslandsdeild Amnesty International heldur kvikmyndadaga í Bíó Paradís,
3.-13. nóvember Heimildarmyndir sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu
Jóhanna K.
Eyjólfsdóttir
bioparadis.is.
amnesty.is
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. OKTÓBER 2011
Á morgun mun Richard Scobie
ásamt hljómsveitinni TRUMS leika
á Gauk á Stöng. TRUMS er nýstofn-
uð ábreiðuhljómsveit sem sérhæfir
sig í klassískri rokktónlist áttunda
áratugarins. Tónlist með hljóm-
sveitum eins og Bad Company,
Queen, ZZ Top, Thin Lizzy, Deep
Purple og fleirum góðum.
Meðlimir TRUMS eru sjóaðir úr
tónlistarbransanum og hafa marga
fjöruna sopið. Um sönginn sér Rich-
ard Scobie (Rikshaw, Loðin rotta).
Gítarleikarar eru Guðmundur Jóns-
son (Sálin hans Jóns míns) og Davíð
Þór Hlínarson (Dos Pilas, Butter-
cup). Hrynsveitina skipa Guð-
mundur Gunnlaugsson (Centaur,
Sixtís) á trommur og á bassa er Pét-
ur Kolbeinsson (Bermúda).
Richard Scobie snýr
aftur á Gauk á Stöng
Fyrsta plata hljómsveitarinnar
Gang Related er komin út. Platan
heitir Stunts & Rituals og inniheld-
ur tíu lög og er gefin út af Brak
hljómplötum, undirmerki Kima.
Meðlimir hljómsveitarinnar eru
bræðurnir Albert og Gunnar Pétur
sem syngja og spila á gítar, Helgi
Pétur trommar og Jón Otti spilar á
bassa. Hljómsveitin spilar draum-
kennt rokk og sækir áhrif frá The
Kinks, Pavement og Bruce Spring-
steen. Öll lögin voru tekin upp í
hljóðstofu Friðriks og Jóhanns. Al-
bert söngvari sveitarinnar tók einn-
ig þátt upptökum á plötunni og sá
um hljóðblöndun. Platan var svo
masteruð af Aroni Arnarsyni.
Gang Related gefur
út sína fyrstu plötu
Breski tónlistarmiðillinn Drown-
ed in Sound hefur lengi verið mikill
Íslandsvinur og hefur nú birt langa
og ítarlega úttekt á Airwaves-
hátíðinni. Það er Luke Slater sem
heldur um penna, eða þrýstir á
lyklaborð öllu heldur. Grein Slaters
er nokkurs konar ferðadagbók þar
sem tónlistarupplifun er þrætt sam-
an við. Slater er hrifinn af landinu,
Reykjavík og hátíðinni og segir
hana fanga anda Reykjavíkur full-
komlega. Slater er þá hrifinn af
Ham, segir erfitt að útskýra fyrir
þeim sem ekki séu Íslendingar ná-
kvæmlega hvert aðdráttaraflið sé
en þegar sveitin sé börð augum á
tónleikum verði það kristaltært.
Drowned in Sound
fjallar um Airwaves
3. nóvember
The Green Wave. Heimildarmynd byggð á
Twitter- og bloggfærslum frá Íran í aðdrag-
anda og í kjölfar kosninganna árið 2009. Veitt
er innsýn í atburðina í gegnum sögu ungs stúd-
ents. Höfundur: Ali Samadi Ahadi. Þýskaland/
Íran, 2010.
4. nóvember
Sisters in Law. Ferðalag til Kamerún þar sem
áhorfendur fá að kynnast systrum sem starfa
sem lögfræðingar og í þágu kvenna og barna.
Höfundur: Kim Longinotto. Bretland/Kamerún,
2005.
5. nóvember
An Independent Mind. Í myndinni er tekist á
við tjáningarfrelsið og kynntar sögur fólks frá
ólíkum löndum sem hvert á sinn hátt nýtir
þennan grundvallarrétt andspænis ógnandi
valdi. Höfundur: Rex Bloomstein. Bretland,
2008.
6. nóvember
The Devil Operation. Mynd sem segir frá áhrif-
um námavinnslu á líf bænda í Perú og hvernig
námafyrirtæki skirrast ekki við að ógna íbúum.
Höfundur: Stephanie boyd. Kanada/Perú, 2010.
7. nóvember
Pink Saris. Hér er fjallað um baráttu konu
gegn ofbeldi og erfðastéttakerfinu á Indlandi.
Hún heimsækir fjölskyldur þar í landi sem hafa
ýmist gert dætur sínar brottrækar af heimilinu
eða beitt þær ofbeldi. Höfundur: Kim Longi-
notto. Bretland, 2010.
8. nóvember
Travel Advice for Syria. Í myndinni er ljósi
varpað á sýrlenskt samfélag í aðdraganda upp-
reisnarinnar. Peter Löfgren, framleiðandi
myndarinnar og höfundur, verður viðstaddur
sýninguna. Svíþjóð, 2008.
9. nóvember
Nero’s Guests. Fylgst er með blaðamanni sem
skrifar um fátækt og sjálfsmorðsfaraldur meðal
indverskra bænda. Höfundur: Deepa Bhatia.
Indland, 2009.
10. nóvember
Silent Snow. Hér segir af ungum Grænlendingi
sem leitar orsaka mengunar sem ógnar sam-
félagi inúíta. Höfundar: Jan Van Den Berg,
Pipaluk De Groot. Holland, 2010.
11. nóvember
Budrus. Fjallað um tilraunir Palestínumanns til
að leiða saman ólíka hópa í friðsamlegri bar-
áttu gegn aðskilnaðarmúrnum sem ógnar af-
komu íbúa þorpsins Budrus. Höfundur: Julia
Bacha. Palestína/Ísrael/Bandaríkin, 2009.
12. nóvember
Nowhere in Europe. Saga fjögurra flóttamanna
frá Tétsníu í leit að griðastað. Höfundur: Kerst-
in Nickig. Pólland/Þýskaland, 2009.
13. nóvember
The Jungle Radio. Fylgst með femínistanum
Yamileth Chaverría sem stofnaði útvarpsstöð í
Níkaragva, Raddir kvenna, í þeim tilgangi að
fordæma heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börn-
um í landinu. Höfundur: Susanna Jäger. Hol-
land, 2009.
The Mobile Cinema. Í Kongó ferðast hópur
kvikmyndagerðarmanna um stríðshrjáð svæði
og sýnir íbúum kvikmynd í þeim tilgangi að
hafa áhrif á viðhorf þeirra til nauðgana. Höf-
undar: Ilse og Femske Van Velzen. Holland,
2011.
Dagskrá kvikmyndadaganna
Íran The Green Wave er að hluta teiknimynd.