Húsfreyjan - 01.10.1969, Blaðsíða 45
Stofnaður var sjóður til minningar
um Sigurlaugu í Ási, og skal fé hans
varið til tækjakaupa handa sjúkrahúsi
Skagfirðinga. Gáfu sambandsfélögin 10
þúsund krónur í sjóðinn og ættingjar
frú Sigurlaugar 10 þúsund.
Þá var og haldin heimilisiðnaðarsýn-
ing í sambandi við afmælið og sýndir
margir munir, sem skagfirzkar konur
hafa unnið, sumir meira en aldar gaml-
ir. Ljómandi skemmtilegt minningarrit
um samtök skagfirzkra kvenna var gef-
ið út í sambandi við afmælið, þar sem
rakið er í stuttu máli hvaða verkefni
hvert félag hafi einkum valið sér.
Það er athyglisvert að lesa lög þessa
elzta kvenfélags landsins, ekki síður en
lög Kvenfélags Svínavatnshrepps, sem
Húsfreyjan birti fyrir nokkru. Hlýtur
lesandinn að dázt að víðsýni og stór-
hug þeirra kvenna, sem við aðstæður
þeirrar aldar mótuðu jafn merkar starfs-
reglur og þessi lög eru. Svo segir í minn-
ingarritinu um hina fyrstu stefnuskrá,
sem vinna átti eftir:
1. Um hreinlæti og hvað mest er
ábótavant hjá oss í því tilliti í baðstofu,
búri, eldhúsi, bæjardyrum og útifyrir
þeim, kringum bæinn, og hvernig bezt
verði ráðin bót þar á.
2. Um bágindin, og hvað hér er enn
ónotað, sem hafa mætti til manneldis,
og hvort ekki mætti taka upp hyggilegri
tilhögun á því, er notað hefur verið.
3. Að minnka óþarfa kaup á þessu
sumri.
Á næsta fundi, sem haldinn var ári
síðar, var þessu bætt við stefnuskrár-
atriðin:
1. Að venja börn snemma við starf-
semi og sérílagi heyvinnu, frá því er þau
væru 10 ára, ef kringumstæður leyfðu.
2. Að láta ekki óþvegna ull í kaupstað
á haustin.
3. Að koma upp vefstólum á bæjum,
þar sem þeir ekki voru áður, og kenna
konum vefnað, fremur en karlmönnum,
svo að þeir geti sótt sjó, svo sem áður
hefur verið.
4. Að hver kona komi til næsta fund-
ar með eitthvað það verk, er hún hefur
bezt unnið, svo að aðrar konur gætu
lært af henni.
Enn halda konurnar áfram að bæta
við stefnuskrá sína árið 1871:
1. Að láta kenna öllum börnum að
skrifa og reikna, sem til þess eru fær.
2. Að reyna að viðhalda þjóðerni voru
eftir megni, sér í lagi með tilliti til máls
og klæðasniðs, og láta eigi börn heita
óþjóðlegum nöfnum.
3. Að láta konur koma upp matjurta-
görðum, þar sem þá vantar.
4. Að koma til næsta fundar með
reikninga yfir tilkostnað og arð af ýms-
um matföngum og innanbæjarvinnu.
5. Að stofna sjóð til kaupa á einhverri
þarflegri vinnuvél, þegar hann er þess
megnugur.
Leið ekki á löngu þar til félagið hafði
fest kaup á prjónavél. Mér hefur verið
sagt, að Thorvaldsensfélagið í Reykja-
vík hafi flutt fyrstu prjónavélina til
landsins, en konurnar í Rípurhreppnum
hafa þá efalaust fylgt fast á eftir.
En kvenfélagið hafði einnig forgöngu
um það, að stofnaður yrði kvennaskóli
og tók hann til starfa að Ási 1877.
Vafalítið má telja, að 4. liður í síð-
asta þætti stefnuskrár kvenfélagsins sé
fyrsta tilraun hérlendis til að fá starf
húsmóður metið til peningagildis.
Kvenfélag Rípurhrepps starfar enn,
þótt yfir því dofnaði um sinn og hefur
sem fyrr ýmis menningar- og mann-
úðarmál á stefnuskrá sinni. Núverandi
formaður þess er Jónína Sigurðardóttir,
Egg.
Húsfreyjan árnar Kvenfélagi Rípur-
hrepps allra heilla og þakkar hið merka
framlag þess til félagsþroska íslenzkra
kvenna. Það var meira átak fyrir hundr-
að árum að efna til félagssamtaka með-
al kvenna en það er nú, en verkefni eru
jafnan fyrir hendi fyrir þá, sem vilja
þroska stéttar sinnar og samfélags sem
mestan.
S. Th.
HÚSFREYJAN
41