Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1997, Page 248
246
Ritdómar
fyrir erlenda íslenskunema, en þeim fer fjölgandi með ári hverju og engin ástæða til
að ætla að þeirri þróun linni á næstunni. Enn fremur er Orðastaður fundið fé fyrir þá
sem vinna að samningu íslensk-útlenskra orðabóka. Hingað til hafa þeir aðeins haft
Islenska orðabók við að styðjast, auk helstu íslensk-útlenskra orðabóka sem fyrir eru,
en þar eru upplýsingar um tengsl orða einatt af skornum skammti. En við samningu
tvímálaorðabóka þarf að „fara yfir“ sem flest sambönd flettu við önnur orð til að
ganga úr skugga um hvort einhver slík sambönd, hversu lítils háttar sem þau kunna að
vera, verði ekki (aðeins) þýdd á markmál bókarinnar frá orði til orðs og þurfi því að
tilgreina sérstaklega.
Orðastaður hlýtur því að verða ein höfuðheimild við gerð íslensks stofns til tví-
málaorðabóka og þeirra notkunardæma og annarra upplýsinga sem flettuforða slíks
stofns þurfa að fylgja, þá einkum með íslensku sem viðfangsmál í huga. Benda má
t. d. á úrvinnslu orðsins nótt sem einkar gott dæmi um grein er hagnýta mætti við gerð
þess konar orðabókargrunns.
Að lokum er ástæða til að benda á að orðabók Jóns Hilmars Jónssonar skráir
ástand íslenskrar tungu í lok 20. aldar og verður í framtíðinni gullvæg heimild um ís-
lenska málsögu.
Einkenni og umfang Orðastaðar
Orðastaður er nýmæli og heiti hennar nýyrði í íslenskri orðabókargerð. Það er erfitt
að gera sér í hugarlund hvílíkt starf liggur að baki þessa mikla verks. Jón Hilmar er
fornliði á sviði orðabókarfræði og liggja þegar eftir hann mörg rit og greinar um þau
fræði, en af þeim er Orðastaður langviðamestur. Nú verður hugað nánar að efni bók-
arinnar.
Meginmál Orðastaðar er nær 700 bls. Bókin hefst á ítarlegum formála (nær 30
bls.) þar sem sköpunarsaga hennar er rakin, leiðbeint er um notkun hennar og gerð
grein fyrir byggingu.
Orðastaður er ekki fyrst og fremst merkingarfræðileg handbók. Forsenda notkun-
ar er þekking á semantík almenns orðaforða málsins. I formála segir höfundur að bók-
in sé ætluð jafnt útlendingum sem leggja stund á íslensku og íslendingum sem leggja
fyrir sig ritstörf af ýmsu tagi. „Reynt er að koma til móts við þennan stóra og sundur-
leita notendahóp með því að leiða notkun orðanna fram á sjónarsviðið í virku og lif-
andi samhengi þar sem áherslan hvílir á fjölbreytni og breytileika" (bls. V). Þótt bók
Jóns Hilmars ætli sér þannig að vera leiðarvísir, telur höfundur sig ekki hafa ritað
„normatífa" bók: „Þetta er gert í trausti þess að notendur geti nýtt sér slíka orðalýs-
ingu til leiðsagnar um einstök atriði og til aukins málþroska. Þar með á bókin á sinn
hátt að geta gegnt máluppeldislegu hlutverki þótt ekki sé verið að vísa málnotendum
veginn til réttrar málnotkunar með dómum og fyrirmælum" (ibid.).
Vinnutitill verksins mun í upphafi hafa verið íslensk orðtengslabók, og undirtitill
bókarinnar er „Orðabók um íslenska málnotkun". I kaflanum: „Um gerð bókarinnar,
tildrög og heimildir" (bls. XXIX-XXXI) er getið ýmissa erlendra orðtengslabóka sem