Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1997, Blaðsíða 262
260
Ritdómar
Út af fyrir sig verður ekki dregið í efa að einhverjir gelískumælandi menn hafi flust
með norrænum mönnum til íslands, Færeyja og Noregs. „En þeir töluðu framandi
mál, voru varla mjög margir, bjuggu sennilega dreift innan um norræna menn og
höfðu lága þjóðfélagsstöðu í framandi löndum. Þeir hafa fljótlega samið sig að siðum
innfæddra og tekið upp norrænu" (bls. 167).3 Við þær aðstæður telur höfundur ótrú-
legt að tökuorð hafi borist úr gelísku í norrænu, enda mælir útbreiðsla orðanna gegn
því. Niðurstaðan er sú að orðin hafi borist frá byggðum norrænna manna fyrir vestan
haf. Þessu til stuðnings bendir höfundur ennfremur á athyglisverða staðreynd sem
hingað til hefur verið gefinn lítill gaumur í þessu sambandi (bls. 168). Sum tökuorð-
anna koma einnig fyrir í miðensku og enskum mállýskum á norrænum landnáms-
svæðum á Skotlandi og Englandi, fjarri byggðum gelískumælandi manna, eins og í
Lancashire, Northumberland og Yorkshire. Þangað hljóta þau að hafa borist úr nor-
rænu máli fyrir vestan haf áður en það vék fyrir ensku á þessum slóðum. Á meðal
þessara orða eru enskar samsvaranir við: bagall, des, kapall, kjall-, knokkur, kró,
kunnmið, slafak og ærgin.
Við þetta er því að bæta að líkt gildir um þau tökunöfn sem rakin eru í sjöunda
kafla. Af 43 nöfnum sem þar er fjallað um kemur 21 fyrir á tveim eða fleiri stöðum
þar sem norrænir menn bjuggu. I flestum tilvikum er það annars vegar á íslandi og
hins vegar á norrænum landnámssvæðum fyrir vestan haf. Hér er því nánast alveg
sama hlutfallið og (tökuorðunum, nær helmingur.
Loks er þess að geta að óeðlilega hátt hlutfall af tökuorðunum (15 af 45) og töku-
nöfnunum (15 af 43) byrjar á k-, sem er miklu meira en búast má við samkvæmt tíðni
orða sem byrja á c- í gelísku og k- í norrænu (bls. 160, 187). Þetta er sérkennilegt at-
riði og höfundur hefur ekki skýringu á því á reiðum höndum. Engu að síður er hægt
að taka undir með honum þegar hann segir (á bls. 186-187) að þessi samsvörun,
ásamt öðru, bendi til þess að hvort tveggja, tökunöfn og tökuorð, séu upprunnin á
sama svæði á svipuðum tíma.
6. Papar á íslandi?
Auk yfirlits í sjöunda kafla eru í fjórða og fimmta kafla einnig rakin nokkur ömefni
sem talin hafa verið til marks um veru írskra manna á Islandi. Einkum er þar athygl-
isverð umfjöllun um örnefni kennd við papa sem eru þekkt á mörgum stöðum, ekki
3 Til skamms tíma var haft fyrir satt að blóðflokkar bentu til þess að íslendingar
væru komnir í meira eða minna mæli af Irum (sjá t.d. Gísla Sigurðsson 1988:118).
Nýlegar rannsóknir hafa þó leitt í ljós að þessi skoðun stenst ekki. Þannig hefur Stefán
Aðalsteinsson (t. d. 1989, 1992) rakið hvernig tíðni ABO-blóðflokka getur gerbreyst í
bólusóttarfaröldrum eins og þeir gerðust á Islandi. Þar er réttilega varað við því að láta
blóðflokkaskipan hafa áhrif á túlkun á fomum menningartengslum milli Islands og
Irlands. Við svipaðan tón kveður í yfirlitsgrein eftir Olaf Jensson (1996:62-63) sem
styðst við niðurstöður af erfðamarkarannsóknum margra rannsóknarhópa.