Vera - 01.11.1990, Síða 3

Vera - 01.11.1990, Síða 3
SKEMMTIFERÐ Á SKATTSTOFUNA Eg skrapp á skattstofuna um daginn. Erindið var að fá staðfestar upplýsingar um tekjur mínar og eignir s.l. þrjú ár. Eg hélt satt að segja að þetta væri ofur einfalt mál. Það átti bara að færa nokkrar tölur á þar til gert eyðublað. Kannski hefði þetta líka verið venjulegt stofnanavesen ef mað- ur væri ekki sífellt að blanda einhverjum kvenfrelsissjónarmiðum í allt. Líklega er það vandamálið. En aftur á skattstofuna. Maðurinn sem afgreiddi mig var nokk- uð snöggur að uppgötva að ég væri fráskilin. Það var líka það eina sem gekk fljótt fyrir sig og virtist lengi vel ekki ætla að hjálpa honum við afgreiðslu málsins. Hann fann nefnilega enga skattskýrslu frá mér og hélt því staðfastlega fram að ég hefði ekki skilað framtölum. Ég ákvað snarlega að tileinka mér kurteislegt, ívið kuldalegt viðmót og tjáði manninum að mér væri ágætlega kunnugt um hvaða skýrslum ég skilaði. Þá spurði maðurinn hvort ég hefði kært álagninguna. Ég kvað nei við og enn var karpað svolítið um það hvort ég hefði skilað framtali. Þá var eins og blessaður maðurinn fengi hugljómun og næsta spurning var: „Ertu í rekstri?" „Ja, ef hægt er að kalla það rekstur, ég var með verktakatekjur upp á nokkra tugi þúsunda." Maðurinn lifnaði allur við og sagði: „Ef við getum kallað það rekstur þá get ég fundið framtalið". Við eygðum nú lausn á málinu og ég brá mér á næstu skrifstofu á meðan gengið væri frá plagginu. Fimmtán mínútum síðar kom ég aftur og það verður að játast að þá fór ég að eiga nokkuð erfitt með að halda minni yfirveguðu grímu, var þó enn vel meðvituð um að það hefur ekkert gott í för með sér að afhjúpa hysterísku kvensuna. Skilaboðin nú voru nefnilega að ég hefði ekki skilað „eigin" framtali á síðasta ári. Og enn var þrefað smástund. Einhver lítill púki í mér hvíslaði að best væri að láta skattstofumanninum eftir að koma með tillögu til lausnar þess- ari deilu, þ.e.a.s. sækja sönnunargögnin. I aðra röndina var ég þó ekki alveg örugg um að yfirvöld hefðu ekki hreinlega sett mína prívat og persónulegu skattskýrslu í endurvinnslu og afmáð öll verksummerki. Vonum seinna kom hinn reyndi og virðulegi starfsmaður skattstofunnar með lausnarorðið. „Það er best að ég sæki skýrsluna svo að þú getir séð þetta". Sigri hrósandi kom maðurinn til baka og með hvað? Jú, skattskýrslu fyrrverandi eiginmanns míns, þar sem búið var að færa allar niðurstöðutölur af mínu framtali yfir á hans. Þeir hafa náttúrulega skilið það strákarnir á skattinum, sem mér var fyrirmunað að skilja, að maðurinn fyrrverandi yrði að geta nýtt sér persónu- afsláttinn minn. Ég benti skattmanninum - fremur elskulega - á að fletta upp á undirskriftinni minni á þessu framtali. Og viti menn, hún var þar ekki. Nú var andrúmsloftið orðið dálítið spennt og skattkallinn fletti taugaveiklunarlega í fylgiskjölunum og þar fannst hið forsmáða framtal mitt. Mér var ekki alveg ljóst hvort mig langaði að hlæja eða gráta þegar ég sá hver örlög það hafði hlotið eftir allt baslið við að koma því saman. Það hafði nefnilega verið strikað vandlega yfir það með rauðum tússpenna, sem væntanlega merkir að þetta plagg skipti ekki máli, en megi svo sem liggja þarna. Allt um það, tölurnar sem mig vantaði voru fundnar. Ég fékk eyðublaðið mitt, greiddi fyrir „þjónustuna" og hvæsti léttilega milli samanbitinna tannanna: „Þetta er nú jafnréttið", áður en ég snerist á hæli og fór út. Ekki er öll sagan sögð. Ég gekk um bæinn eins og grenjandi ljón og sagði samherjum mínum í kvennabaráttunni söguna. Þegar mér var runnin mesta reiðin gerði ég mér aðra ferð niður á skattstofuna og óskaði eftir afriti af öllu framtali mínu. Sagan endurtók sig, nema hvað nú var það kona sem afgreiddi mig, sem breytti málinu auðvitað talsvert. Eftir nokkra stund ráðfærði hún sig við manninn sem tók á móti mér í fyrra skiptið. Af einhverjum torkennilegum ástæðum virtist hann muna eftir þessum erfiða viðskiptavini. Konan mætti að lokum með skýrslu eiginmannsins fyrrverandi þar sem mín var svo vel og vandlega falin með fylgiskjölum. Ég bað um ljósrit og hún spurði elskulega hvort ég vildi ekki fá bæði framtölin og játti ég því. Þegar ég fékk þau í hendur kom ýmislegt athyglisvert í ljós sem ekki verður tíundað hér. Konan sagði mér svo að þetta kostaði 400 krónur og ég spurði í forundran hvort ég ætti að greiða tvöfalt gjald fyrir tilfærslur skattstofunnar. Auðvitað sá hún að það gekk ekki (af því að konur eru fyrst og fremst vitsmunaverur en ekki kerfisþrælar) og sagði að bragði: „Allt í lagi, 250 krónur". Því miður er ljósritið ekki í lit sem hefði verið mun tilkomumeira nieð rauðu tússpennastrikunum. Boðskapurinn er: Konur, hafið gætur á meðferð þeirra gagna sem þið afhendið því opinbera, ekki síst við hjúskaparslit. Látið ekki bjóða ykkur slíkt misrétti. Strákunum í kerfinu finnst þetta nefnilega svo eðlilegt að þeim dettur ekki einu sinni í hug að senda manni línu um breytingarnar. Sigríður Stefánsdóttir ER KVENNABARÁTTAN ORÐIN OF PEN? 4 í EÐLI ÞÍNU VARSTU ALLTAF VIRKILEGA KVENLEG 6 Um krínólín og korsettu. NÚNA ER ÓÞARFI AÐ BERA UPPREISNINA UTAN Á SÉR 8 Rætt við Þórdísi Kristleifsdóttur, fatahönnuð. LJÓSI PUNKTURINN í KLÆÐNAÐI KARLA 12 ARFUR MÆÐRANNA 18 Frá ráðstefnu í Skálholti um konur og trú NÝBAKAÐAR MÆÐUR MISSA VINNUNA 20 DAGUR í LÍFI KONU 23 Vera fylgist með degi í lífi Elínar Erlingsdóttur. AF HVERJU ÁLVER? 26 Kristín Einarsdóttir fjallar um helstu rök gegn byggingu árvers hér á landi. UR LISTALIFINU 30 KVENNABLAÐIÐ DRAUPNIR 37 KÖNNUN Á VIÐHORFUM KVENNA TIL FJÖLMIÐLA 38 3

x

Vera

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.