Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1945, Blaðsíða 27
Kaj Munk og Nordahl Grieg.
i.
Þótt þess megi vænta, að sá tími nálgist nú óðum,
er hinar kúguðu og þjökuðu þjóðir Evrópu fagna
langþráðu frelsi, er engu að síður margt óráðið um
þau örlög, sem ógnir og ótti siðustu ára hafa búið
þeim. Vér vitum það eitt, að styrjöldin mun skilja
eftir sig mörg opin og erfið sár og varpa þungum
skugga inn i allt líf þeirrar kynslóðar, sem hún hefur
mætt þyngst á, og nú, þegar hildarleiknum lýkur,
verður oss á að spyrja, hvort þeim þjóðum, sem risið
hafa af mestum hetjuhug, trúarstyrk og þolgæði gegn
ofbeldi, hungri og kvölum stríðsins, muni á sama
hátt endast manndómur, þrek og jafnaðargeð til að
mæta þeim vanda, sem friðurinn leggur þeim á herð-
ar. Vissulega munu þær telja sig hafa keypt tilveru
sína og frelsi svo dýrum fórnum, að þeim verði um
það hugað, að þær reynist ekki hafa verið færð-
ar fyrir gýg, og þótt þær komi nú mergsognar og
blóðugar úr morðingjaklónum, mætti svo fara, að sú
auðlegð andlegs og líkamlegs hugrekkis og ástar á
ættjörð og frelsi, sem þær hafa opinberað í hinni
miskunnarlausu prófraun styrjaldaráranna, reyndist
þeim engu haldminna veganesti á leiðinni til nýrra
og betri tíma en liver annar stríðsgróði. Um langan
aldur mun saga hinna frelsiselskandi þjóða frá þessu
háskasamlega tímabili hleypa nýjum kynslóðum
kappi í kinn og kveðja þær til árvekni og trúar á þær
hugsjónir mannlegs anda, sem feður þeirra og mæður
fórnuðu blóði sínu og tárum. Og þó að margt kunni
að verða um óþelcktu hermennina i þeirri hetjusögu,
mun hún einnig kunna skil á ýmsum þeim nöfnum,
sem lengi verður vitnað til með stolti og trega.
Tveggja slikra manna, danska rithöfundarins og
prestsins Kaj Munks og norska skáldsins og liðsfor-
(25)
2