Freyr

Árgangur

Freyr - 01.08.1965, Blaðsíða 6

Freyr - 01.08.1965, Blaðsíða 6
242 FRE YR varla munu dæmi til fyrr. Bændur gátu þess vegna vel komið til fundar til þess að fylgjast með því, sem þar gerðist og þeir komu þangað allmargir, sumir um lang- vegu, en það er nú svo austan lands, eins og annarsstaðar, að fámennt er á heim- ilum og bændur eiga ekki heimangegnt. Að þessu sinni voru áhyggjuefni þeirra þung og mörg því að mislyndi íslenzkrar veðráttu hefur naumast fyrr né annars- staðar veitt búendum þyngri högg. Þar hafa harðindi komið fyrr og síðar, eins og annarsstaðar á íslandi, en á þessu herr- ans ári hafa þau verið þunghöggari en nokkru sinni í tíð þeirra, sem nú stunda þar búskap, meira að segja er talið að árið 1918, með öll þau köl og óáran, er þá dundi yfir, hafi naumast verið svo harð- leikið í garð búenda. ★ „Ég hef nú aldrei séð annað eins.“ „Ég hefði aldrei ímyndað mér að ástæð- urnar væru svona hefði ég ekki séð það.“ Þetta og álíka voru ummæli ýmissa, er komu til fundar á Eiðum, langt eða skammt að og sáu hver afhroð bændur austan lands hafa beðið í ár vegna kalskemmda í tún- um þeirra og vegna grasleysis um úthaga, akurlendi og víðlend tún, í góðsveitum eins og þeim, sem einatt voru taldar vera þar eystra fyrr á tímum. Og það er sann- ast mála, að fáir eða engir þeirra, er fund- inn sóttu, hafa séð tilsvarandi, því að þótt miklar væru skemmdir og stórkostlegar árið 1918 þá voru túnin í þá daga svo lítil, að það voru smáblettir á borð við það sem nú gerist. Það er dapurlegt að horfa á staðreynd- irnar blasa við hvarvetna í svo fögrum sveitum sem þar eru eystra. Víðlend rækt- unarlönd hvít og visin eða þá svört flög, en sumstaðar snarrótartoppar eins og eyj- ar í auðninni. Og það sem heita skyldi grænt var svo grasvana, að ekki var hagi fyrir aðrar skepnur en þær, sem geta geng- ið nærri rót og nagað svörðinn. Og þetta um sólstöður. Og enn ríktu kuldar, rétt ofan við frostmark um daga og frost og héla um nætur öðru hvoru fram í júlí- mánuð. Engin furða þótt ýmsum liggi við hugfalli og þyki vænlegra að hverfa að öðrum greinum atvinnulífsins, sem um stund virðast miklu arðvænlegri og örugg- ari. En fyrr hafa skipst á misæri og góðæri og svo hlýtur enn að vera og verða. Að þessu sinni verða stéttarbræður og þjóð- in öll að rétta hjálpandi hönd þeim, sem svo hart hafa orðið úti án þess að eiga nokkra sök á sjálfir. Bændur þar eystra hafa, eins og aðrir, lagt fram erfiði og fjármagn til þess að efla jarðir sínar, eins þau lönd sem nú urðu svört flög á nokkr- um vikum. Svo mikil er hagsæld þjóðarinnar í dag, að enginn vandi er að veita þá aðstoð sem þarf til þess að bændur eystra geti haldið byggð sinni og störfum áfram þó að á móti hafi blásið í þetta sinn með svalari og af- drifaríkari gusti en gerist að jafnaði. Það þurfa samstillt átök margra aðilja til þess að ráða bót á vandanum og það þarf eitt allsherjar átak þjóðarinnar í heild til þess að rétta það, er hér hallast. Það þarf ekki stærri fjárhæð til að færa allt til betri vegar en sem nemur þunga af halla eins togara, sem alþjóð hefur orðið að taka á herðar sér. Það er allt. Þjóðin verður að axla baggann og rétta hallann. Aðalfundurinn á Eiðum gerði samþykkt hér um og nú er bara að framfylgja sam- þykktinni og knýja á til aðstoðar. G.

x

Freyr

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.