Litli Bergþór - 01.12.1997, Page 5

Litli Bergþór - 01.12.1997, Page 5
Hvað segirðu til? I þessum þætti verður greint frá helstu viðburðum og öðru, sem frásagnarvert telst úr sveitinni, frá byrjun júlí og fram eftir nóvember. Fyrst er það tíðarfarið. Það hefur verið bæði gott og vont. Hlýtt var í sumar og vöxtur grasa, trjáa og garðávaxta með því almesta sem elstu menn muna, og í haust hefur aðeins frosið lítillega einstöku sinnum og jörð varð aldrei hvít af snjó fyrr en um miðjan nóvember. Þá kom snjór í mjóalegg eina nóttina, en hann tók upp í miklum hlýindum seinni hluta mánaðarins. Hins vegar hefur verið nokkuð vætusamt, og olli það erfiðleikum við heyskap, en öðru hvoru komu þó dágóðir þurrkar og oft flæsur, sem nægðu til að koma heyi á sómasamlegan hátt í rúllur. Meðal menningarviðburða voru sumartónleikar í Skálholti með hefðbundnu sniði, og þar hefur einnig gefið að líta frumleg útilistavek í allt sumar. Gestir hafa jafnvel verið minntir á að þeir skuli ekki stela eða drýgja hór og fleira, sem tiltekið er í boðorðunum tíu, en þau voru á skiltum á ýmsum stöðum á staðnum. f Haukadal var haldin vegleg hátíð 22. ágúst til að minnast þess að þann dag voru liðin 100 ár frá fæðingu Sigurðar Greipssonar, stofnanda og skólastjóra fþróttaskólans í Haukadal. Hátíðin hófst með minningarathöfn í Haukadalskirkju, en síðan var samsæti á Hótel Geysi með veitingum, ræðum og söng kórs aldraðra á Selfossi. Afkomendur Sigurðar, gamlir nemendur hans og Héraðssambandið Skarphéðinn stóðu fyrir samkomunni. Þennan dag kom út á vegum Héraðssambandsins bókin Sigurður Greipsson og Haukadalsskólinn. Páll Lýðsson tók hana saman en Jón M. Ivarsson samdi nemendatal. Ymislegt hefur verið byggt hér í sveit í sumar og haust. Verksmiðjuhús Yleiningar var stækkað verulega, fjós fyrir gripi í uppeldi byggt á Krók, hesthús með áburðarkjallara á Torfastöðum, skemma á Efri-Brekku og gróðurhús á Dalbrún. Ibúðarhús, sem áður var bæði í Núpstúni og Birtingaholti í Hrunamannahreppi, hefur verið sett á nýjan kjallara á Myrkholti, en það er sunnan við Gullfossveg í landi Kjóastaða 2, og er þar að rísa smábýli. Við borholuna á Efri-Reykjum hefur verið komið fyrir túrbínu til raforkuframleiðslu, og sér hún dælustöðinni fyrir orku, en afkastageta hennar mun vera töluvert meiri. Hlíðavegur var í júlí Iagður olíumöl frá Brúará að afleggjara að Hlíðalaug. Tölverðir malarhnjúkar standa bæði við Andalæk og vestan við bæ í Uthlíð reiðubúnir að breiða sig á það sem eftir er af þessum vegi. Lítið hefur hins vegar miðað framkvæmdum við Biskupstungnabraut frá Fellsrana að Múla þrátt fyrir áskorun margra heimamanna í bréfi til þingmanna Suðurlands. Nýir hælar eru að vísu komnir á vegakanta á tveggja km spotta upp að Þverkeldu á mörkum Fellskots og Vatnsleysu, og mun búið að velja verktaka til að leggja þann veg. A því að vera lokiðl. júlí nk. Sláturhús Sláturfélags Suðurlands í Laugarási er búið að selja fólki, sem er að koma þar á fót ferðamannaþjónustu. Gönguleið var lögð í sumar í Laugarási, og er hún frá lóð Heilsugæslustöðvarinnar austur að Hvítá og upp með henni á Auðsholtshamar. Önnur slík var lögð í Reykholti, og liggur hún austan við Holtið og Krummakletta. A hæstu bungu Torfastaðaheiðar er um þessar mundir verið aðsetja upp stöð fyrir farsíma á vegum Pósts og síma h. f. Búháttabreytingar eru þær helstar að á svínabúunum í Austurhlíð og Helludal hefur framleiðslu verið hætt, og mjólk er ekki lengur framleidd til sölu á Litla-Fljóti og í Fellskoti. A Felli hefur land verið skipulagt sem sumarbústaðabyggðir, og er búið að leggja þar nokkuð af vegum og byggingaframkvæmdir hafnar við fáeina bústaði. Laxveiði á Iðu er talin hafa verið í meðallagi í sumar, en netaveiði í Hvítá mun hafa verið lítil. Afkoma garðyrkjubænda er líklega svipuð og síðustu ár, þó verð á tómötum hafi verið lágt í sumar. Dilkar munu hafaverið svo sem eins og í meðallagi vænir í haust. Kristinn og Jóhann í Austurhlíð fóru í hefðbundna grenjaleit snemmsumars. Þeir unnu 5 fullorðin dýr og 12 yrðlinga í fjórum grenjum, sem voru í Þjófabrún í Uthlíðahrauni, Nátthaga á Haukadalsheiði, í hæðunum norðan A Haukadalshátíð. f.v. Arni Þorgilsson, form H.S.K., Jóhannes Sigmundsson, Hafsteinn Þorvaldsson, Páll Lýðsson, Jón M. Ivarsson, Már Sigurðsson og Engilbert Olgeirsson, framkvœmdarstj. H.S.K. við túnið í Upphólum og í Miðveri austan við Bláfell. Fjallferðir í haust voru með líku sniði og verið hefur. í fyrstu leit fóru 6. september 24 leitarmenn ásamt matseljum og ökumanni undir stjórn nýs fjallkóngs, Kjartans Sveinssonar í Bræðratungu. Fengu þeir dágott veður og gekk vel ef frá eru talin óhöpp eins og það að hestar þeirra ruddu niður girðingu við Arbúðir fyrstu nóttina og náðust sumir ekki fyrr en niður við afréttargirðingu og fótbrot eins fjallmanns. Tungnaréttar- dagur var 13. september, og sást ekki ský á himni né blakti hár á höfði allan þann dag. Gestir voru fleiri en nokkru sinni fyrr, þó fullyrða megi að þeir hafi ekki verið eins margir og féð. Hlíðaland var smalað 20. september. Veður var óhagstætt til fjárleita þann dag, þoka og rigning, og var ekkert rekið að í Hlíðarétt. Þurftu fjárbændur á Hlíðabæjum því að sækja mikið af fé sínu til fjalla síðar. I eftirsafn fóru 13 um síðustu helgi í september, og var rúmur helmingur þeirra sjálfboðaliðar. Þeir fengu gott veður og komu með 75 kindur eftir tveggja daga leit. Þriðja leit stóð yfir 11. til 17. október. í hana fóru 7 og fengu þau dágott veður og fundu 16 kindur. Aðalfundur Ferðamálasamtaka Suðurlands var haldinn í Haukadal um ntiðjan nóvember. Svo bar við að Geysir heilsaði fundarmönnum með gosi. Þótti það undarlegt, þar sem óheimilt er að setja í hann sápu. Síðar greindi Gísli Einarsson, oddviti, frá því að hann hefði fjarlægt sandpoka úr rauf í barmi hverskálarinnar til að lækka vatnsborð í henni og síðan sett um 50 kg af sápu í hverinn. Hefði hann gert þetta til að mótmæla seinagangi Náttúruverndrráðs við að rannsaka Geysi. I ljós kom að þörf var á að láta hann gjósa, þar sem töluvert af ýmiskonar drasli kom upp úr honum. Erlendur Gíslason í Bergholti, áður bóndi í Dalsmynni, dó í september. Utför hans fór fram frá Skálholtskirkju, en hann var jarðsettur á Torfastöðum. A. K. ____________________________ Litli - Bergþór 5

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.