Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.03.2009, Blaðsíða 20

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.03.2009, Blaðsíða 20
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í mars 2009 Eða þá tilfinningin að lesa bréf borgarstjórans í Reykjavík frá 21. júní 1943, þegar ég var tæplega þriggja mánaða. þar sem hann skipar föður minn fastan bifreiðarstjóra. Laun á hann að taka samkv. IX. launaflokki í samþykkt um laun starfsnranna bæjarins frá 1. apríl 1939. Og undir er kraftmikil hönd Bjarna Benediktssonar. Þetta var stór stund fyrir föður minn sem hafði byrjað sín búskaparár í kreppunni og snapað vinnu árum saman líkt og allur þorri fátækra manna á þeim tíma. Enda sagði hann oft við mig síð- ar á ævinni að atvinnuleysi væri eitt það versta sem menn gætu lent í. Það er líka fyndið að lesa að hann faðir minn hafi í nóvember 1948 þurft að greiða 50 kr í sátt fyrir ólög- legt bifreiðarstæði. Það var eins gott að halda uppi lögum og reglu. Og þann 11. september 1936 skrifar séra Friðrik Hallgrímsson: Eg hefi í dag gefið saman í hjónaband Ragnar Svavar Jónsson og Björg Þuríði Guðfinns- dóttur á heimili mínu Skálholtsstíg 2, hér í borginni. Hjónavígslubréfið er glæsilegt enda útgefið eftir allramildilegastri skipun hans hátignar konungsins Christjans hins tíunda, sem er af guðs náð konung- ur Islands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slesvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Láenborg og Ald- inborg. Sjálf búa þau samkvæmt skjalinu á Klepps- mýrarbletti 12 Reykjavík, á voru landi íslandi. Og fyrir herlegheitin greiða þau 27 kr og 50 aura. En bak við glæsileika hins konungslega skjals leyndist annar veruleiki. Honum kynntist ég þegar ég las lýsingu móður minnar á giftingarvetrinum þeirra pabba: „Við fluttum í Sogamýrina um haustið 1935. Það var gamall sumarbústaður, tvö herbergi og lítið eldhús með smá kolavél. Frá henni lá miðstöð í her- bergin en ofnarnir volnuðu varla svo ég varð að vera í eldhúsinu með Erlu, sem var systir mín, þá á fyrsta ári. Gólfkuldin var svo mikill að hún gat naumast verið á gólfinu. Við settum þess vegna upp rólu sem Ragnar smíðaði í eldhúsdyrnar og í henni rólaði Erla sér. Þegar við vorum í svefnherberginu urðum við að láta loga á olíuvél en það gerði nú ekki gott loft. Skúrinn var þyljaður að innan með masonítplötum og klæddur bárujárni að utan, enda hélaði allt að innan þegar kalt var. Þennan vetur var mjög lítið um vinnu. Ragnar hjólaði morgun hvern ofan á eyri til að leita sér að vinnu, en það voru margir dagar sem ekki var neina vinnu að fá. Og langur dagur að hanga niðri á eyri matarlaus og kaldur. Mjólk fengum við keypta rétt hjá okkur, aldrei meira en einn pott á dag, ég veit varla á hverju maður lifði. Þetta haust, 11. september 1936, gifturn við Ragn- ar okkur. Oli bróðir gaf okkur fjóra stóla. Við höfðum keypt okkur gamalt borðskifli á fornsölu. Svo gaf kunningjafólk Ragnars okkur sex bolla. Gömul kona gaf okkur 10 kr. og kunningi Ragnars sem var bakari gaf okkur rjómatertu.“ Ekki var meira að segja um það brúðkaup. En mamma heldur áfram: „Við vorum þarna eitt ár eða fram á næsta haust. Það var mjög erfitt að fá leigt. Það fyrsta sem spurt var um var: Hvað gerir maðurinn þinn? Veturinn sem við vorum í Sogamýrinni fengum við Erla mislinga og lágum báðar samtímis. En maður var nú ýmsu vanur. „ 1939 fer pabbi á síld norður á Siglufjörð. Útgerð- armaðurinn Olafur Ragnars skrifar kvittun: Vinna sumarið 1939 607.53 aurar, úttekt 161.00 Peningar 446.53 aurar. Um sumarið sendir hann mömmu bréf: Siglufirði 17/7 39. Elsku Björg mín Alla tíma sæl og blessuð fátt er í fréttum, mér líður vel og hef það gott en lítið að gera ennþá og langir eru dagarnir. Oft hugsa ég heim til ykkar og óska að ég væri kominn heim sem snöggvast. Þegar ég kom til Siglufjarðar voru Jóna og Ella báðar oná bryggju og fóru með mér upp í bragga þar sem ég bý. Ég borða á Hótel Gullfoss. Það veiðist síld en það er svo langt í burtu alla leið austur á Vöpnafirði og það er 20 tíma stím og þá er ekki gott að salta hana því hún verður að vera ný. Það verður byrjað að salta 20-25 þessa mánaðar. Mikið er kom- ið af fólkinu, allt fullt. Það sem ekki er ráðið er í vandræðum með húspláss, eitt herbergi er leigt hér á 75-100 kr. Það verða líklega um 70 stúlkur og 15 karlmenn. Jæja elskan mín ég fer að hætta þessu pári og bið kærlega að heilsa Lillu minni og mömmu og öllum sem ég þekki. Það er alltaf ágætis veður hér, sól og sumar. Á sunnudaginn var voru Siglfirðingar að keppa, fyrst við Norðmenn og svo við Dani og unnu báða. Þeir voru að bjóða mér að vera með á æfingum. Jæja elskan mín vertu blessuð og sæl og guð geyrni ykkur. Þinn Ragnar S Jónsson. Utanáskrift er Gránugötu 32 Siglufirði, skrifaðu mér sem fyrst. Já, þannig leggjast púslbitarnir hver við annan og gefa mér býsna heillega mynd af þessu unga pari sem var að hefja sína lífsgöngu saman í kreppu og atvinnuleysi, fátækt og basli en með brjóstin full af ást, vonurn og draumum. Og ég er svo glöð yfir öll- um bréfunum og skjölunum sem þau varðveittu, engu var hent. í dag eru þetta fjársjóðirnir mínir, fjársjóðir sem ég mun varðveita og skila til barna rninna og barnabarna. Já, ég á henni móður minni mikið upp að unna. Hún skráði og skráði, heilu kompurnar á ég fullar af minningum og fróðleik frá ævi hennar og störf- um. Þar skilaði sér menntun föður hennar Guðfinns http://www.ætt.is 20 aett@aett.is

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.