Bændablaðið - 17.12.2009, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 17.12.2009, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | fimmtudagur 17. desember 2009 Íslendingar nýttu öldum saman sel í búskap sínum og ótaldir eru þeir kópar sem hafa lent á borð- um landsmanna í gegnum tíðina. Skinnin nýttu menn einnig og var um tíma nokkuð umfangsmikil verslun með selskinn. Þegar líða tók á síðustu öld hrundi hins vegar sá markaður á heimsvísu, einkum vegna andstöðu ýmissa dýraverndunarsinna. Í dag er selur tiltölulega lítið veiddur enda ekki mikill markaður fyrir afurðirnar. Þó er alnokkur fjöldi bænda sem telja sig til selabænda og nýta sér þau hlunnindi sem selurinn gefur af sér. Pétur Guðmundsson frá Ófeigs- firði er formaður Samtaka sela- bænda. Bændablaðið hitti Pétur að máli og ræddi við hann um upp- vöxtinn í Ófeigsfirði, selveiðar og selaafurðir. Þó Pétur sé búsettur á höfuðborgarsvæðinu og hafi verið um all langt skeið slitnar ekki taugin við æskustöðvarnar „Ég er fæddur í Ófeigsfirði í Árneshrepp á fyrri hluta síðustu aldar. Foreldrar mínir voru Guðmundur Pétursson bóndi þar og Elín Guðmundsdóttir. Þau voru bæði úr Árneshreppi, mamma var fædd í Bæ og pabbi í Ófeigsfirðinum og þar höfðu búið faðir hans og afi á undan honum. Ég elst þar upp en ég fór svo snemma á vertíð og síðar á sjó. Meirihluti minnar starfsævi var sjó- mennskan, fyrst á fiskiskipum og síðar á frökturum. Þegar farið var að stjórna fiskveiðum ofan úr ráðu- neyti hætti ég og fór í fraktsigling- ar.“ – Hvers konar búskapur var í Ófeigsfirði þegar þú varst að alast þar upp? „Það var blandaður búskapur, megin uppistaðan var sauðfé og svo hlunnindi. Við höfðum kýr til heimilisins og hesta til reiðar og áburðar. Það kom ekki dráttarvél í Ófeigsfjörð fyrr en um 1956 eða 1957. Ég man að það voru þrett- án hestar undir reiðing en það var auðvitað heyjað á engjum á þessum tíma. Öll aðföng komu að segja má á bát í Ófeigsfjörð og allt tekið upp á klakk.“ Aldrei keypt spýta í Ófeigsfirði – Ófeigsfjörður er mikil hlunninda- jörð, ekki satt? „Jú, hún er það og kannski má segja að meginhlutinn af tekjum búsins hafi komið frá hlunnindum, æðardún, sel og reka. Þeim hlunn- indum höfum við sinnt áfram eftir að byggð lagðist af, þó að í mis- miklum mæli sé. Þegar ég var að alast upp þá var dúntekja upp á fjörutíu kíló yfirleitt, það voru veiddir 120 til 140 vorkópar og svo var töluverður reki. Allur reki var unninn þarna heima, sagaður í girðingarstaura og allt í húsavið sem notað var þarna heima var tekið úr reka. Það var aldrei keypt spýta. Það kom snemma sög- unarvél heima, upp úr 1950 og eftir það var allur reki sagaður. Það var töluverð sala í girðingarstaurum allt fram að síðustu aldamótum. Þá var hins vegar fjárhag Íslendinga þannig komið að þeir hirtu ekki um að kaupa íslenskar vörur heldur keyptu ónýtt drasl sem ég kallaði.“ – Hvenær leggst heilsárs búseta af í Ófeigsfirði? „Hún lagðist af árið 1965 en síðan höfum við verið þarna á hverju ári og nýtt hlunnindin. Það hefur verið gert á hefðbundinn hátt en reyndar er selveiðin dottin niður að kalla má. Það kom fram frönsk kerling sem hét Brigitte Bardot, ég hefði gjarnan viljað fá hana í selveiðar og reyna að verka hana eitthvað til. Hún byrjaði á því að eyðileggja markaðinn fyrir sel- skinn, hvort sem það var nú gott eða vont fyrir okkur. Það er hins vegar öruggt að með því vann hún mikinn skaða fyrir Grænlendinga og þessar norðurhjara þjóðir. Ógæfu þess fólks má að mínu mati rekja mikið til þessarar konu og hennar fylgismanna. Það var auðvitað ekki til neins að veiða sel þegar ekki var lengur hægt að selja skinnin. Svo í ofanálag kom fiskvinnslan og taldi að landsel- urinn væri orsök allra hringorma í fiski við Íslandsstrendur. Það var því ráðist á hann með offorsi og alls konar veiðiþjófar gerðir út að segja má því þeim var borgað fyrir hvern sel. Menn komust upp með að eyðileggja selalátrin í kring um landið og menn eru ennþá að sum- staðar.“ Óbætanlegt tjón unnið á selastofninum – Þannig að selastofninn hefur beðið mikið tjón af þessum aðgerð- um? „Já, óbætanlegt. Það er eiginlega ekkert orðið eftir af sel. Þegar hringormanefnd var búin með sína yfirferð þá tóku grásleppunetin við. Það var svo sem ekkert óeðlilegt við það nema þar sem menn fóru inn fyrir netlög. Selurinn er synd- ur og fer víða þannig að það er svo sem ekkert við því að segja. Það sem er hins vegar grátlegt er að selnum var nánast alltaf hent úr netunum og ekkert nýttur.“ – Þú ert formaður Samtaka sela bænda. Hvaða hlutverki gegna sam tökin? „Þetta er nú eiginlega bara orð- inn skemmtilegur klúbbur. Þetta er auðvitað hagsmunafélag í grunninn og við beittum okkur mikið varð- andi hringormanefnd, við komum að ýmsu þar. En við höfum auðvit- að ekki mikið hlutverk nú í dag.“ – Sérðu fyrir þér að selaafurð- ir verði aftur nýttar að einhverju marki? „Sá selur sem er veiddur núna er auðvitað vel nýttur því menn eru að veiða sér til matar og skinn- in eru líka nýtt. Það má ekki flytja selskinn til Evrópusambandsins, sem mér finnst alveg frámuna- lega heimskulegt, þannig að við höfum flutt selskinn til Grænlands. Aðeins er um að þau séu nýtt hér heima. Það er farið að súta skinn á Sauðárkróki og þeim tekst býsna vel upp. Eggert feldskeri hefur nýtt skinn af sel og hefur gert það bæri- lega.“ – Snýst félagsskapurinn þá kannski ekki síst um að varðveita menningu og sögu, að viðhalda hefðum og venjum? „Jú, einmitt. Við létum meðal annars gera mynd fyrir nokkrum árum þar sem sýndar voru veiðar og fláning og annað þessu tengt. Við höfum líka komið að selaveisl- unni sem haldin er árlega og hefur orðið æ vinsælli. Við erum búin að sprengja utan af okkur hvert húsið á fætur öðru. Það er án efa hægt að auka notkun á selaafurðum í tengslum við ferðaþjónustu, ekki síst matartengda ferðaþjónustu.“ – Er eitthvað hægt að segja um hversu mikið er veitt af sel á hverju ári hér við land? „Það er ekki orðið mikið. Þetta voru nokkur þúsund selir hér í gamla daga, 5000 til 7000 selir en þetta eru kannski einhvers staðar á milli 50 og hundrað í dag. Bæði er stofninn orðinn lítill og svo er nánast enginn hagnaður af þessu. Menn veiða til að hafa í matinn og hirða skinnin í leiðinni.“ – Myndi stofninn ekki þola meiri veiði ef eftirspurn eftir skinnum yxi? „Nei, hann þolir ekki mikla aukningu. Þetta eru dýr sem lifa lengi og eiga fá afkvæmi, ekki nema eitt á ári. Urtan er yfirleitt orðin þriggja ára þegar hún kæpir í fyrsta skipti. Ég gæti trúað að urtan eigi tólf, kannski þrettán kópa yfir ævina ef hún er langlíf. Það segir sig sjálft að svona stofn stækkar ekki í neinum stökkum og hann mun taka mörg ár að ná fyrri stærð.“ Selurinn aðdráttarafl í ferðaþjónustu – Menn hafa hins vegar nýtt sel á síðustu árum á annan hátt, í tengslum við ferðamennsku. Þetta er til að mynda gert á Selasetrinu á Vatnsnesi og fleiri dæmi eru um að selurinn sé aðdráttarafl í ferða- mennsku. Hafið þið í Samtökunum komið að slíkri vinnu? „Við vorum aðilar að stofnun selasetursins á Hvammstanga. Það er auðvitað allt gott um þetta að segja og gaman að þessu. Menn fá sér síðan auðvitað í matinn líka og það hafa engir árekstrar verið vegna þess.“ – Nýting á sel er auðvitað fyrst og fremst í höndum einkaað- ila. Hefur selkjöt verið í einhverri almennri sölu? „Nei, ég veit ekki til þess að selkjöt sé selt nema á einum stað, veitingastaðnum Laugaás. Þar hafa menn nýtt útsel sem auðveldara er að eiga við en landselinn. Það er hins vegar ekki mikið kjöt af sel, spikið er svo gríðarlega stór hluti af honum. Það er ríflega þrjátíu prósent af selnum.“ – Sérðu fyrir þér einhverjar breyt ingar á nýtingu á sel næstu ár in? „Ég á ekki von á breytingum. Þó má segja að kreppan hafi gert það að verkum að aðeins hærra verð fékkst fyrir skinnin sem seld eru til Grænlands. Kreppan er kannski ekki alvond en það hefði nú mátt sleppa við hana samt.“ fr Félag kjúklingabænda Gleðileg jól. Óskum bændum og búaliði hagsældar á komandi ári. Landssamband kúabænda óskar íslenskum kúabændum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Gleðileg jól Óskum bændum og búaliði hagsældar á komandi ári. Þökkum viðskiptin á árinu sem er að líða. Landssamtök sauðfjárbænda Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár! Æðarræktarfélag Íslands Frönsk kerling eyðilagði markaðinn Á bilinu 50 til 100 kópar veiddir á ári í stað þúsunda áður. Samtök selabænda snúast um að varðveita menningu Nú eru til umræðu fjárlög rík- issjóðs fyrir árið 2010. Öllum er ljós sá mikli niðurskurður og skattahækkanir sem boðaðar eru til að ná niður halla ríkissjóðs. Ein niðurskurðartillagan var að skera niður framlög til eyð- ingar á ref um 17,2 milljónir. Heildarupphæð sem veitt var til þessa liðar á síðasta ári var 34,8 milljónir sem skiptist jafnt til refa- og minkaveiða. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir því að halda áfram eyðingu á mink en hætta að greiða fyrir refaveiðar. Æðaræktarfélag Íslands, Lands samtök sauðfjárbænda o.fl. ályktuðu eðlilega strax um þess- ar tillögur því vandamál tengd fjölgun refs hefur aukist í mörg- um byggðarlögum. Víða hefur fuglalíf beðið mikinn skaða og dýrbitið fé er algengara vandamál en áður. Einnig hefur verið bent á að virðisaukaskatturinn af fram- lagi ríkissjóðs og sveitarfélaga samanlagt sé í mörgum tilfellum hærra en framlag ríkissjóðs til málaflokksins. Sá sem þetta ritar gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að halda áfram refaveiðum og var þetta mál tekið strax upp í fjárlaganefnd en þingmenn úr flestum flokkum höfðu þá lýst sig fylgjandi því að leiðrétta þetta. Nú hefur fjárlagafrumvarpið verið afgreitt úr 2. umræðu og þar var samþykkt að auka fjárfram- lög til refaveiða og hækka þenn- an lið um 17 milljónir. Eftir þessa breytingu er veitt til veiðanna 34,6 milljónum sem er nær sama upphæð og árið 2009. Jafnframt mælti fjárlaganefnd með því að umhverfisráðherra skipaði starfs- hóp til að fara yfir þessi mál í heild og er það í samræmi við orð hennar á Alþingi fyrir skömmu þar sem hún lýsti því yfir að til stæði að skipa starfshóp til að fara yfir þessi mál í heild sinni. Fjárframlög til refaveiða leiðrétt Ásmundur Einar Daðason alþingismaður VG og nefndarmaður í fjárlaganefnd Ríkisfjármál Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði er formaður Samtaka selabænda.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.