Bændablaðið - 03.05.2012, Blaðsíða 52
52 Bændablaðið | fimmtudagur 3. maí 2012
Íslensk hönnun
Fyrirtækið Sólóhúsgögn er að
miklu leyti þjónustuaðili og
hönnunarstofa fyrir íslenska
hönnuði sem fá góða hugmynd
að nýjum stól eða borði. Einnig
framleiðir fyrirtækið mikið af
stólum fyrir fyrirtæki og á gott
samstarf við aðra húsgagnafram-
leiðendur hérlendis.
Upphaf:
„Sólóhúsgögn voru stofnuð árið
1960 og hafa sérhæft sig í smíði
húsgagna úr járni og tré. Kristinn
Guðmundsson trésmiður og Atli
Jensen stofnuðu fyrirtækið en síðan
keypti ég það árið 1989 eftir að
einn aðili hafði átt það í millitíðinni
í um það bil eitt ár. Mig langaði
sjálfan að vera með rekstur, þó
ætlunin hafi kannski ekki verið að
ílengjast í greininni. Reksturinn
hefur verið nokkuð jafn, við fórum
ekkert upp í brjálæðinu sem var
hér á landi og því fundum við lítið
fyrir efnahagshruninu árið 2008.
Nú eru sex starfsmenn með mis-
munandi menntun í vinnu hjá
Sólóhúsgögnum,“ útskýrir Björn
Ástvaldsson, tæknifræðingur og
eigandi Sólóhúsgagna.
Starfsemi:
„Við framleiðum fyrst og fremst
fyrir fyrirtæki og einstaklinga,
eigum gott samstarf við aðra hús-
gagnaframleiðendur og framleið-
um íhluti í þeirra framleiðslu, að-
allega úr stáli. Einnig vinnum við
mikið með hönnuðum og fylgjum
þeim eftir í að útfæra sínar hug-
myndir. Við eigum einnig sam-
starf við bólsturverkstæði þegar
stærri verkefni koma inn á borð.
Mjög vinsælt er meðal einstak-
linga að koma til okkar og velja
sér stól alveg eins og menn vilja,
og geta þá leikið sér með mismun-
andi liti á grind og áklæði,“ segir
Magnús J. Magnússon sölustjóri.
Vörur:
„Gömlu, góðu stólarnir frá 1960
eru vinsælastir hjá okkur, við-
skiptavinirnir þekkja þá og vita
að þeir virka. Síðan er lífstíðar-
ábyrgð á öllum stellum frá okkur.
Greinilegur áhugi er hjá fólki fyrir
eldri húsgögnum, við finnum fyrir
því,“ segir Björn og Magnús bætir
við:
„Núna erum við að endurvekja
Sindrastólinn með afmælisútgáfu
og framleiðum 50 sérmerkt eintök,
því 50 ár eru liðin frá því hann
kom fyrst á markaðinn. Þetta er
samstarfsverkefni Sólóhúsgagna
og G.Á. húsgagna, þar sem
Sólóhúsgögn framleiða stellið,
gæran kemur frá Loðskinni á
Sauðárkróki og plastskelin, sem
er úr trefjaplasti, er framleidd af
bátasmiðjunni Ikan á Akranesi.
Tappana undir stólinn framleiðir
Termó í Reykjavík og G.Á. hús-
gögn sjá um bólstrun. Þannig er
stóllinn eins íslenskur og hann
getur orðið. Einnig endurvöktum
við á síðasta HönnunarMarsi
stólinn Þórshamar eftir Halldór
Hjálmarsson, sem kom fyrst fram
á sjónarsviðið árið 1963, en áður
höfðum við endurframleitt Skötuna
eftir Halldór sem kom á markað
árið 1959.“
Framundan:
„Við höfum framleitt fyrir marga
aðila, t.d. leikhússæti í menningar-
húsið Hof á Akureyri í samstarfi
við Prologus-hönnunarhús. Einnig
höfum við framleitt húsgögn fyrir
Viðeyjarstofu og íslenska sendi-
ráðið í Berlín svo dæmi séu tekin.
Annars er mikið líf í veitinga-
og ferðamannageiranum og við
finnum fyrir því. Fyrir 20 árum
þegar ég tók við voru félagsheim-
ilin úti á landi stórir viðskiptavinir
en í dag eru örfá þeirra í rekstri.
Markaðurinn hér heima er ágætur
í dag og við kvörtum ekki. Við
höfum reynt að þreifa fyrir okkur
með útflutning og fundum fyrir
áhuga en gengið var svo vitlaust
á þeim tíma að því var sjálfhætt.
Það er líka víða kreppa erlendis
og við eigum nóg með innanlands-
markaðinn eins og er,“ segir Björn.
/ehg
Stólar og borð af öllum
stærðum og gerðum
Magnús J. Magnússon sölustjóri og
Björn Ástvaldsson, eigandi Sólóhús-
gagna, í sýningarsal fyrirtækisins.
Eldrauður Funi.
Gömlu stólarnir eru vinsælastir um þessar mundir. Skatan eftir Halldór Hjálmarsson var til að mynda keypt í mennin-
garhús Dalvíkinga og í félagsheimilið í Dimmuborgum. Hér sjást Skötustólar með litríku og skemmtilega útfærðu borði.
Nýverið var Sindrastóllinn endurvakinn og 50 númeruð eintök framleidd í
tilefni af 50 ára hönnunarafmæli stólsins.