Fréttatíminn


Fréttatíminn - 03.06.2011, Side 44

Fréttatíminn - 03.06.2011, Side 44
 MatartíMinn Konungur vorsins F átt rímar betur við bjart en svalt ís-lenskt vor eða snemmsumar en vægt soðinn villtur lax. Upp úr miðju sumri er sjálfsagt að hafa með honum nýuppteknar kartöflur en svona snemma sumars er nóg að bera fram með laxinum heimagert agúrku- salat og majónesu. Eflaust eru einhverjir til sem halda því fram að ræktaður lax sé jafn góður eða betri en villtur. Það var líka til fólk sem fannst Monkees betri en Bítlarnir. Við hin tökum hátíðlega á móti fyrsta villta laxi sumarsins. Hann ber að sjóða við vægan hita í góðu soði og bera fram á eins einfaldan hátt og mögu- legt er. Ræktaða laxinn má reykja, grilla eða kaffæra í teriyaki yfir dimma vetrarmán- uðina en þegar vorar er rétt að leyfa villta laxinum að njóta einfaldleikans. Hann hefur heldur ekkert að fela; hvorki keim af soja- mjöli eða lýsi né losaralega áferð. Best er að sjóða laxinn heilan. Ef þið eigið ekki fiskpott eða nógu stóran ofnpott (sem þið notið undir lambalærið) getið þið skorið laxinn í tvennt. Hreinsið fiskinn, skrapið hreistrið af roðinu og skerið burt tálknin (þau gefa vont bragð í soðið). Svarið liggur í soðinu Þar sem fiskur þarf mun minni suðu en kjöt þarf fyrst að sjóða grænmeti, jurtir og krydd til að búa til bragðgott soð að sjóða laxinn í. Þetta kalla Frakkar court bouillon (sem mætti þýða sem létt soð). Og þar sem við viljum taka vel á móti fyrsta laxi sumarsins skulum við vanda til soðsins: Skerið það grænasta burt af tveimur blaðlaukum, kljúfið þá, hreinsið og sneiðið í sentimetraþykkar sneiðar. Skrælið tvær gulrætur og skerið í jafnþykkar sneiðar. Af- hýðið tvo lauka og brytjið og sömuleiðis einn fennellauk eða fjóra stöngla af selleríi ef þið finnið ekki fennel. Bætið við lárviðarlaufi, þremur greinum af blóðbergi og krömdum geira af hvítlauk. Setjið í pott ásamt tveimur lítrum af vatni og hitið að suðu. Bætið við 10 svörtum piparkornum, bolla af hvítvíni, hálfum bolla af hvítvínsediki og hitið aftur að suðu og látið malla eilitla stund. Kreistið eina sítrónu yfir og hendið sítrónuhelming- unum út í soðið og hitið að suðu. Nú gætuð þið sett laxinn út í soðið, hitað aftur að suðu, lækkað undir, látið soðið kólna niður að um 70°C og haldið því þar. Mælt með mæli hitann á laxinum þar sem hann er þykkastur og tekið hann upp úr þegar hann hefur náð 50°C. Þetta ætti að taka um 20-30 mínútur (fer eftir stærð fisksins). Þetta er góð aðferð og örugglega sú eina rétta á allan fisk – nema kannski lax. Öfug suða Eins og þið vitið næst oft bestur árangur við eldun á kjöti að hita það löturhægt upp í akkúrat rétt hitastig; þar sem það er hætt að vera hrátt en ekki orðið þurrt. En fiskar lifa í hálfgerðu þyngdarleysi í samanburði við landdýr og því ætti það ekki að koma neinum á óvart að áferð fisks og viðbrögð við hita eru önnur en kjöts. Það fer fæstum fiski vel að fara hægt úr kulda upp í kjörhita, hann vill verða hálf maukkenndur – en laxinn þolir þessa aðferð einkar vel. Þið getið reynt að kæla court bouillon-ið niður, sigtað það og kælt enn frekar í ísskáp. Sett laxinn síðan í pottinn og hellt soðinu yfir þannig að það rétt fljóti yfir fiskinn. Kveikt undir pottinum og hitað hægt upp í tæplega 70°C. Fylgist með hitanum í fisk- inum þar sem hann er þykkastur og takið hann upp úr þegar hann er orðinn 50°C. Dundið ykkur síðan við það í sumar að ná fullkomnun í að sjóða villtan lax. Það er miklu meiri breidd í áferð og bragði laxins eftir því hvernig hann er soðinn en ykkur grunar. Og þið verðið með þessum æfingum miklu ríkari af reynslu og upplifun í haust en ef þið reynduð mismunandi uppskriftir af bökuðum, grilluðum, maríneruðum eða steiktum laxi með mörgum ólíkum sósum.  uppsKriFt agúrKusalat og Majónesa  FisKisögur villtur lax og eldis 40 matur Þegar þið hafið soðið laxinn skuluð þið geyma soðið. Það má nota sem grunn í fiskisúpu eða sem tært fiskisoð. Sigtið soðið og sjóðið niður um helming eða svo (þetta er ástæðan fyrir því að salta ekki soðið) eða þar til ykkur líkar bragðið. Ef þið viljið tært soð getið þið tekið eina eggjahvítu og þeytt saman við örlítið af hráum fiski sem þið hafið maukað og setjið út í heitt soðið og sjóðið vægt í smá stund. Eggjahvítan og fiskmaukið á að draga öll óhreinindi til sín og það á að vera auðvelt að fleyta þau ofan af. Rauði liturinn í laxholdinu kemur af rækjum og öðrum skeldýrum sem hann étur á flakki sínu um úthöfin. Þessi litarefni setjast í holdið eins og önnur efni sem laxinn dregur úr fæðunni. Þar geymir hann þau fyrir hina löngu föstu í ánni. Fiskar sem ekki fasta geyma ekki jafn mikið af næringarefnum í holdinu og hafa því hvítt en ekki bleikt hold – þótt þeir éti kannski ekki minna af rækju en laxinn. Eldislax fær aldrei rækju. Honum er gefið fóður sem hefur verið litað með litarefnum unnum úr skeljum – eða annað litarefni sem leggst í holdið. Í sumum tilvikum getur verið gott að salta fisk áður en hann er soðinn. Hann losar sig þá við vatn og verður þéttari en missir síðan minna vatn við suðuna og verður því í raun safaríkari á eftir en ósaltur fiskur. Þið getið reynt þetta á laxaflökum eða laxasneiðum seinna í sumar. Á youtube má finna myndband af manni sem eldaði lax ofan á bílvél. Ef þið viljið reyna þetta, saltið og piprið þið laxasneið, sáldrið smá af ólívuolíu yfir og pakkið sneiðinni vel inn í sterkan álpappír og leggið ofan á bílvélina þar sem pakkinn er þokkalega skorð- aður. Lokið húddinu og keyrið á Selfoss. Þegar þangað er komið ætti að vera safaríkur og vel bakaður lax í álpappírnum. Lax, lax, lax – og lítið meira en lax Af sambúð fisks við soð, lit, salt og bílvélar Helgin 3.-5. júní 2011 Rétt soðinn villtur lax er einhvern veginn hreinn og svalur – eins og íslenska vorið sem hann tilheyrir. Og það er ekki til betri leið til að fagna sumri og þakka fyrir sig en að setjast til borðs þar sem soðinn lax er reiddur fram. Það er ekki hægt að fá þykkari sögu á diskinn sinn en lax sem leitar aftur heim í ána sína eftir ævintýralegt flakk um víðáttur hafsins. Ekki er rétt að spilla þeirri sögu með of íburðar- miklum leiktjöldum. Ljósmyndir/ Nordic Photos / Getty Images Þórir Bergsson og Gunnar Smári Egilsson matur@frettatiminn.is Matur Íslenskt (gróðurhúsa)vor Þegar þið berið laxinn fram skul- uð þið hafa sjávarsalt á borðinu svo að fólk geti stráð eilitlu salti yfir fiskinn. Þess þarf þar sem soðið var ósaltað. Og það er ein- hvern veginn betra að strá salt- inu yfir fiskinn í lokin frekar en að salta soðið. Hvers vegna? Það má Guð vita. En áður en þið sjóðið laxinn skuluð þið taka eina agúrku og sneiða örþunnt. Notið mandólín ef þið eigið, annars ostaskera eða hvað annað sem þið hafið komist upp á lag með. Dreifið sneiðunum á grunnan disk og stráið salti yfir. Skerið 6-8 myntublöð smátt og dreifið yfir (þið getið líka nota kerfil ef myntan er ekki komin upp) og dreypið síðan um tveim- ur matskeiðum af hvítvínsediki yfir og látið standa í um klukkustund. Og meira þarf ekki að gera til að búa til gott agúrkusalat. Majónesan er álíka einföld. Bleytið viskustykki, vefjið í hring og leggið á borðið þannig að þið hafið góða undirstöðu fyrir skál. Setjið eina eggjarauðu í skálina, hálfa teskeið af dijon-sinnepi, hálfa teskeið af hvítvínsediki, örlítinn hvítan pipar og smá salt og hrærið. Dreypið síðan á þetta einum og einum dropa af bragðlítilli (en samt góðri) olívuolíu og hrærið hratt og vel á meðan. Aukið hægt og bítandi við dropana þar til þeir mynda þunna bunu. Þegar majónesan tekur að þykkna hellið þið enn hraðar og loks þegar ykkur finnst eins og þið séuð að hræra af ykkur handlegginn hafið þið hellt rúmum bolla af olíu út í og eigið að hafa aðeins of þykka majónesu í skálinni. Þynnið hana nú með svo sem einni matskeið sítrónusafa. Ef majónesan er enn of þykk, þynnið hana með annarri matskeið af vatni, því þið viljið mjög fínlega majónesu með laxinum en ekki of súra af sítrónu. Seinna í sumar bætið þið við nýuppteknum kartöflum sem þið sjóðið í söltu vatni með einni eða tveimur grein- um af myntu eða dilli. Þunnt skornar agúrkur sem hafa hvílt sig í ediki eru ómiss- andi með fyrsta laxi sumarsins. www.noatun.is Verslanir Nóatúns eru opnar allan sólarhringinn Nýttu þér nóttina í Nóatúni

x

Fréttatíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.