Læknablaðið - 15.01.1987, Page 29
LÆKNABLAÐIÐ 1987; 73: 15-17
15
Halldór Steinsen
SJÁLFSTÆÐI LÆKNA í STARFI
Sókn í stað sinnuleysis
Frá því fyrstu græðararnir lögðu jurtabakstra við
sár eða reyndu að styrkja brotinn lim með kurli,
hefur mikið vatn runnið til sjávar. í upphafi
völdust í læknastétt þeir, sem lagnir voru við þess
háttar og natnir. Síðar þróaðist læknisfræðin í
það, að verða háskólavísindi, sem leituðust við að
sannreyna og þróa alla þá þekkingu, sem hinar
ýmsu og áður ótengdu sérgreinar höfðu geymt og
stundað í aldir. Þar kom, að læknisfræðin varð
það yfirgripsmikil, að hún skiptist að nýju í
sérgreinar. Þó ólíkt því sem áður var. Þessar nýju
sérgreinar voru ekki hver annarri ótengdar,
heldur nú greinar af sama meiði, sem áttu rætur í
heilsuvernd, greiningu sjúkdóma og lækningu
þeirra. Þ.e.a.s. beinum, milliliðalausum
samskiptum læknis við sjúklinginn að hans eigin
ósk, með velferð hans sem einasta markmið. En
læknisfræðin og aðferðir hennar urðu sífellt
umfangsmeiri. Urðu þá til stoðgreinar, sem
jafnframt því að þróast sjálfstætt, hafa fengið
markmið sín frá læknisfræðinni. Lyfjafræði,
hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði eru sennilega
elstar þessara greina. Síðar koma til
sjúkraþjálfarar, röntgen- og meinatæknar auk
margra annarra hátæknifræðinga, svo sem eðlis-,
rafeinda- og rekstrarhagfræðinga
sjúkrastofnana. Allar þessar sérgreinar og margar
fleiri vinna saman að hag sjúklingsins, en engin
nema læknisfræðin menntar fólk sitt í að hafa
yfirsýn yfir vandamál sjúklings í heild og enginn
nema læknirinn getur því stjórnað og borið
ábyrgð á meðferð sjúklings. Þetta kann að vera
erfiður biti að kyngja fyrir suma, en niður verður
hann samt að fara.
Hvers vegna er þá nú svo komið, að ungir
hjúkrunarfræðingar heyrast spyrja lækna, hví
þeir séu að taka sjúkraskrá, þar sem þetta standi
hvort eð er allt í hjúkrunarskrám? Eða að
sjúkraþjálfari segist varast að lesa sjúkraskrá, til
að trufla ekki dómgreind sína?
Vísast er orsakanna mest að leita hjá okkur
sjálfum. Við höfum sem stétt tekið lítinn þátt í
umræðu og skipulagningu náms
hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara.
Stjórnunarstörf lækna á heilbrigðisstofnunum
hafa lengst af verið lítils metin launalega og
takmarkað tillit tekið til tillagna þeirra. Fyrir
önnum kafna menn, sem menntaðir eru til verka
og árangurs þeirra, reyndist þetta ástand oft
óþolandi. Þeir drógu sig i hlé en við tók stjórnun
sem lítil tengsl hafði oft við sjúklingana.
Aðskilnaður hjúkrunarsviðs og læknisfræði í
heilbrigðisþjónustulögunum og tilhneiging í sömu
átt í tillögum að ljósmæðrareglugerð sýna, að
þrýstingi er beitt til að draga úr áhrifum lækna á
meðferð sjúklinga þeirra.
Það sem ég hef rætt um fram að þessu og lýtur að
samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir, er aðeins
annar þeirra þátta, sem varðar sjálfstæði lækna í
starfi. Reyndar er hann í beinum tengslum við
hinn þáttinn, sem er eignar- og rekstrarform
heilbrigðisstofnana. Það segir sig sjálft, að stæðu
læknar að rekstri þessara stofnana væru þessi
vandamál varla til. Það liggur því í hlutarins eðli,
að vilji læknastéttin halda frelsi sínu til að þjóna
sjúklingum sínum verður hún að brjóta af sér
helsi vanahugsunar og fara að huga að nýjum
rekstrarháttum.
Árið 1974 var brotið blað í íslenskri
heilbrigðisþjónustu með nýjum lögum, sem
kváðu á um aukna þjóðnýtingu
heilbrigðisþjónustunnar. Breytingar, sem gerðar
voru á þessum lögum 1983, hertu enn á og
miðstýring ráðuneytisins var aukin. Jafnframt
var svo ákveðið að læknar skyldu enga aðild eiga
að stjórn heilbrigðisstofnana þeirra, sem þeir
störfuðu við. Yfirlæknar mega koma á
stjórnarfundi. Þeir hafa málfrelsi þar og
tillögurétt en það er líka allt og sumt. Sé tekið
álika mikið tillit til tillagna þeirra og Læknafélags
íslands um breytingar á lögum um
heilbrigðisþjónustu 1983, mega tröll taka þann
tillögurétt fyrir mér. Nú er svo komið, að
samkvæmt lögum skal heilsugæsla fara fram á
heilsugæslustöðvum ríkisins. Frjálslyndir menn á
höfuðborgarsvæðinu hafa haft sínar
athugasemdir um ágæti þessa fyrirkomulags og