Læknablaðið - 15.12.1988, Síða 5
LÆKNABLAÐIÐ
389
f
Prófessor Júlíus Sigurjónsson
Fæddur 26. desember 1907
Dáinn 9. september 1988
Júlíus Sigurjónsson prófessor í heilbrigðisfræði
við læknadeild Háskóla íslands var fæddur í
Grenivík 26. desember 1907. Faðir hans, Sigurjón
Jónsson, var þá héraðslæknir í
Höfðahverfishéraði og bjó fjölskyldan í
Grenivík. Júlíus lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum í Reykjavík 18 ára gamall og
kandídatsprófi í læknisfræði 1931, hvort tveggja
með háum einkunnum. Hann stundaði
framhaldsnám í meinafræði og bakteríufræði og
lauk prófi frá heilbrigðisfræðaskóla
Lundúnaháskóla. Hann starfaði sem
meinafræðingur í Reykjavík frá ársbyrjun 1934
og kenndi oft með prófessor Níels Dungal eða í
forföllum hans. Um haustið 1936 hóf hann að
kenna heilbrigðisfræði við læknadeild Háskóla
íslands og varð prófessor í þeirri grein í júlí 1945.
Af þeim störfum lét hann 1976 vegna aldurs.
Júlíus vann mikið að rannsóknastörfum. Rit hans
um skjaldkirtil íslendinga, sem hann varði sem
doktorsritgerð er mjög ýtarlegt og hefur sýnt að
skjaldkirtill í íslendingum er um margt sérstæður.
Annað stórvirki í rannsóknum vann Júlíus þegar
hann tók að sér að stýra manneldiskönnun þeirri
sem síðar hefur verið kennd við Manneldisráð og
fór fram á árunum 1939 og 1940. Um þetta efni
kom út bókin »Mataræði og heilsufar á íslandi
1939-40«. Hann vann talsvert að
matvælarannsóknum, m.a. mikið af c-vítamín
mælingum en á síðari hluta starfsferils síns fór
hann að stunda meira rannsóknir í faraldsfræði.
Hann gaf út mjög áhugaverðar greinar um
dánarorsakir aldraðra og vann mikið að
rannsóknum á magakrabbameini í íslendingum
og niðurstöður hans um þau efni hafa hlotið
verðskuldaða athygli.
Sem kennari í heilbrigðisfræði við læknadeild
Háskóla íslands lagði prófessor Júlíus grundvöll
að þeirri þekkingu í heilbrigðisfræði sem
meirihluti íslenskra lækna í dag býr að.
Á 75 ára afmæli Háskóla íslands var Júlíusi veit
heiðursdoktors nafnbót vegna starfa hans og
rannsókna að heilbrigðismálum.
Margvísleg trúnaðarstörf tók hann að sér. Hann
var ráðunautur landlæknis um
heilbrigðisfræðileg efni alla tíð sem hann kenndi
það fag og kom á stofn og stjórnaði
rannsóknastofu í heilbrigðisfræði. Hann var
mjög oft fulltrúi íslands á þingum Alþjóða
heilbrigðismálastofnunarinnar og var aðalfulltrúi
Islands þar samfleytt í 12 ár.
Leiðir okkar Júlíusar lágu fyrst saman þegar við
störfuðum báðir í stjórn Lánasjóðs stúdenta, en
síðar naut ég kennslu hans í heilbrigðisfræði í
síðasta hluta náms í læknadeild. Júlíus var
ákaflega viðfelldinn maður, skarpgreindur en
lítillátur. Ég tel það lán að hafa kynnst honum á
þessum tíma og einnig síðar er ég tók við störfum
hans við læknadeild Háskólans og
rannsóknastofu í heilbrigðisfræði.
íslensk læknisfræði sér á bak einum af sínum
hæfustu starfsmönnum. Rannsóknastörf hans
munu halda minningu hans á lofti, en á því sviði
var hann brautryðjandi með því að taka að sér
stór og viðamikil verkefni og skila þeim af sér
með prýði. Rannsóknir hans frá síðari árum
starfsævinnar voru einkum um faraldsfræði
hæggengra sjúkdóma svo sem krabbameina.
Vísindagreinar hans allar bera vott um mjög
agaðan vísindamann sem lét ekkert frá sér fara
nema það væri besta.
Hrafn Tulinius