SunnudagsMogginn - 25.12.2011, Qupperneq 43
25. desember 2011 43
Þ
að hafa verið skrifaðar margar bækur um Jón
Sigurðsson, en Páll Björnsson sagnfræðingur er
í bók sinni, Jón forseti allur, ekki að fjalla um
ævi sjálfstæðishetjunnar. Hann er að fjalla um
það sem gerist eftir að hann deyr. Bókin byrjar því á
dauða Jóns og jarðarför hans og Ingibjargar Einarsdóttur
konu hans.
Þetta er sannarlega óvenjulegt sjónarhorn, en áhuga-
vert. Einhver kynni að spyrja, gerðist eitthvað merkilegt
eftir dauða Jóns forseta sem dugar í heila bók um hann?
Já, það gerðist margt. Hans hefur verið minnst með
margvíslegum hætti og mikið hefur verið skrifað um
hann. Raunar svo mikið að Páll hefur þurft að leggja á sig
mikla vinnu að fara í gegnum það allt og velja það sem á
erindi í bókina. Þegar svo mikið hefur verið skrifað um
einn mann hættir höfundum stundum til að láta heim-
ildirnar stýra of mikið efninu og skrifa of langa bók. Páli
tekst að sneiða hjá þessu. Bókin er efnismikil og vitnað
er til gríðarlega margra heimilda, en frásögnin verður
aldrei langdregin eða leiðinleg.
Það fer ekki á milli mála að íslenska þjóðin hafði strax
við andlát Jóns 1879 mikla þörf fyrir þjóðardýrling. Jón
hafði alla kosti til að bera til að verða þessi dýrlingur.
Hann hafði í stjórnmálabaráttu sinni ekki þurft að takast
á við aðstæður sem gerðu hann umdeildan. Þó að hann
hefði af sumum verið gagnrýndur í lifanda lífi gleymdist
það fljótt við dauða hans. Fyrstu kaflar bókarinnar þar
sem segir frá því hvernig Tryggvi Gunnarsson og fleiri
unnu markvisst að því skapa ljóma kringum Jón eru
fróðlegir. Eins er áhugavert að kynnast þeim deilum sem
urðu þegar stytta af Jóni var reist í Reykjavík, gerð
minnismerkis á gröf hans og uppbyggingunni á Hrafns-
eyri og nánast örvæntingarfullri leit að verkefnum fyrir
byggingarnar á fæðingarstaðnum.
Fólk kannast við umræðu um hvaða skoðanir Jón
kynni að hafa á pólitískum álitamálum samtímans, eins
og t.d. aðild að Evrópusambandinu. Páll rekur í bók
sinni að þessi tilhneiging stjórnmálamanna til að skil-
greina hann sem sinn liðsmann er mjög gömul. Árið
1908 gekk þetta svo langt að meiriháttar pólitísk átök
urðu um minningu Jóns þegar heimastjórnarmenn
lögðu blómsveig á leiði hans í Hólavallakirkjugarði.
Þetta gat stjórnarandstaðan ekki sætt sig við og næstu ár
fóru þeir að leiði hans án þátttöku heimastjórnarmanna.
Stundum hefur dýrkunin á Jóni gengið út í hreinar
öfgar. Það er engu líkara en verið sé að fjalla um Jesú en
ekki stjórnmálamann á 19. öld. Mönnum dettur meira að
segja í hug að byggja kirkju á Hrafnseyri þannig að bað-
stofan þar sem Jón fæddist verði hluti kirkjunnar. Páll er
spar á að láta sínar skoðanir á sjálfstæðishetjunni í ljós
en hann getur þó ekki setið á sér að benda á að stundum
fari menn yfir strikið í dýrkun á Jóni.
Margar myndir eru í bókinni og hafa sumar líklega
aldrei sést áður. Nokkrar myndanna hefðu gjarnan mátt
vera stærri. Páll hefur leyst þetta verk einstaklega vel af
hendi. Fyrir alla þá sem áhuga hafa á þjóðerni og því
hvernig sjálfsmynd Íslendinga varð til er bókin skyldu-
lesning. Kostir hennar eru ekki síst að í henni er góð
sagnfræði en jafnframt tekst Páli að skrifa aðgengilega
bók fyrir allan almenning.
Bækur
Jón forseti allur? bbbbm
Jón forseti allur? Táknmyndir þjóð-
hetju frá andláti til samtíðar eftir Pál
Björnsson. Útgefandi Sögufélagið,
2011. 321 blaðsíða.
Egill Ólafsson
Hvernig verður þjóðhetja til?
bréfasafni (1857-1862) ásamt vísinda-
rannsókn á sögum íslenskra biskupa og
lögmönnum Íslands frá 930-1806. Auk
þessa má nefna Biskupa-annála Jóns Eg-
ilssonar og rit Jóns Gissurarsonar um sið-
skiptatímann á Íslandi.
Fjölda annarra verka mætti nefna, sem
tengjast eldri sem yngri íslenskum bók-
menntum og þjóðfræði. Við hlið Ljóða
hins fræga skálds, Jóns Þorlákssonar,
stendur útgáfa Íslenskra fornkvæða ásamt
Svend Grundtvig [27r] (1854-59) og útgáfa
hans, ásamt Oddgeiri Stephensen á Laga-
safni Íslands (frá 1853 eru komin út 13
bindi). Hann hefur frá 1847 starfað með
Dönsku Akademíunni að útgáfu Regesta
diplomatica historiae Danicae, unnið að
grundvallarriti um íslenska stjórnskipan
og sögu hennar (1856), skrifað margar
greinar um skóla- og menntamál eyj-
arinnar, verslunarsögu hennar og stjórn-
málasögu, sem flestar hafa birst í ársritinu
Ný félagsrit (frá 1841).
Fremstu kunnáttumenn á sviði nor-
rænnar tungu og bókmennta, eins og Dr.
Sveinbjörn Egilsson, sáu sér hag í að leita
aðstoðar þessa ágæta manns þegar kom að
strangvísindalegri málfræði (sjá t.d. Fjög-
ur gömul kvæði 1844 og Snorra Eddu
1849). Hann ber samt einnig glöggt skyn á
fjölmörg hagræn málefni Íslands. Hann
gaf út leiðbeiningar um fiskveiðar, fisk-
verkun (1859) og aðra matvælaöflun
(1861) og stýrði rannsókn á illkynjuðum
búfjársjúkdómi (1859). Hann skrifaði um
aldalangt efnahagssamband Íslands og
Danmerkur (1861), og hann ritstýrði nýrri
útgáfu hins sérstæða forna tímatals (frá
1849). Frá endurreisn Alþingis 1845 hefur
hann verið áhrifamesti þingmaður og oft
forseti þess.
Rannsóknir á norðurgermönskum
tungumálum og fornfræði hafa enn ekki
átt sess í skauti Akademíu vorrar, en mik-
ilvægi þeirra á fullan rétt á fulltrúa þar.
Teljist það réttlætanlegt að bera fram til-
lögu í þá átt og ég festi sjón á fyrrnefndan
Jón Sigurðsson, ber ekki að undanskilja
enn einn þátt af öðrum toga, sem enn
styddi val hans. Frá miðri 17. öld hefur það
verið til siðs á Norðurlöndum að íslenskir
lærdómsmenn ynnu störf á sviði forn-
fræðirannsókna, án þess að nafna þeirra
væri getið nema í framhjáhlaupi, en við-
urkenningin félli einungis á hin útgefnu
verk þeirra. Fram til okkar daga hafa þessi
hljóðlátu störf íslenskra fræðimanna hald-
ið áfram til framgangs vísindanna, en til
takmarkaðs heiðurs eða umbunar fyrir
mennina sjálfa.
Tími virðist til kominn að breyta þess-
um aðstæðum og veita verkmanninum
laun erfiðis síns. Það mundi sæma vel
Akademíu vorri að eiga frumkvæði á
þessu sviði.
K[onrad] Maurer
’
... Herra
Jón Sig-
urðsson
(á Íslandi) til-
nefndur af herra
Maurer, með tíu
hvítum kúlum
(einróma)
Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir nýgift haustið 1845.
Í
öllum þeim bókum sem skrifaðar hafa verið um Jón
Sigurðsson hefur Ingibjörg Einarsdóttir jafnan verið
aukapersóna. Í eftirmælum hefur henni verið þakkað
fyrir að hafa stutt mann sinn og búið honum gott
heimili og gert honum þannig fært að sinna sínu mik-
ilvæga forystuhlutverki. Í bók Margrétar Gunnarsdóttur,
Ingibjörg, er reynt að varpa skýrara ljósi á lífsstarf Ingi-
bjargar, en hún hefur lifað annasömu og merkilegu lífi.
Fá varðveitt bréf eru til frá Ingibjörgu og þau gefa tak-
markaða sýn á persónuna. Þau segja lítið til um viðhorf
hennar. Margrét þarf því að treysta á bréf annarra og
ýmsar aðrar heimildir til að komast nær Ingibjörgu. Mest-
ur er skorturinn á heimildum um fyrstu 20-30 árin í ævi
hennar. Til að varpa ljósi á æskuárin notar Margrét ferða-
bækur og fleiri heimildir og dregur þannig upp mynd af
Reykjavík í upphafi 19. aldar þar sem Ingibjörg ólst upp.
Henni tekst vel að búa til heildstæða frásögn þó að skrif-
legar heimildir séu fáorðar.
Oft hefur verið fjallað um að Jón hafi sinnt mörgum og
fjölbreyttum erindum í Kaupmannahöfn fyrir Íslendinga.
Fólk skrifaði Jóni bréf og bað hann um að ganga erinda
fyrir sig en í bók Margrétar kemur fram að Ingibjörg sá
um að afgreiða mörg þessara erinda. Hún keypti inn alls
kyns vörur fyrir ættingja og vini heima á Íslandi, hún var
að sinna sjúklingum sem leituðu sér lækninga í Höfn
o.s.frv. Stöðugur gestagangur var á heimili Jóns og Ingi-
bjargar og því oft mikið álag á húsmóðurinni.
Hvernig persóna var Ingibjörg? Var hún hlý, lífsglöð,
skemmtileg, ströng eða þrjósk? Þessum spurningum
hefði Margrét mátt velta meira fyrir sér. Lesandi fær
vissulega ákveðna mynd af Ingibjörgu í gegnum einstök
bréf og frásagnir en sú mynd er enn dálítið óljós í lok bók-
ar.
Margrét fer stundum í dálitla vörn fyrir sögupersónu
sína þegar hún fjallar um ýmislegt sem sagt hefur verið
um hana í gegnum árin. Hún rökstyður hins vegar ágæt-
lega mál sitt þegar hún fjallar um veikindi Jóns árið 1840
og árin tólf sem Ingibjörg beið í festum í Reykjavík.
Bókin um Ingibjörgu er þörf bók sem greinilega hefur
verið lögð mikil vinna í. Í öllum meginatriðum er hún vel
heppnuð og ágæt lesning.
Konan sem sat
12 ár í festum
Bækur
Ingibjörg bbbmn
Eftir Margréti Gunnarsdóttur. Bóka-
félagið Ugla í samvinnu við Sögufélag
Reykjavík 2011. 350 blaðsíður
Egill Ólafsson