Morgunblaðið - 24.02.2012, Síða 30

Morgunblaðið - 24.02.2012, Síða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. FEBRÚAR 2012 ✝ Björn Jóns-son fæddist á Fossi í Hrútafirði 4. febrúar 1915. Hann lést á Land- spítalanum 13. febrúar 2012. Foreldrar hans voru Jón Mar- teinsson frá Reykjum Hrúta- firði, f. 26.9. 1879, d. 25.6. 1970 og Sigríður Björnsdóttir frá Óspaksstöðum Hrútafirði, f. 29.10. 1884, d. 10.7. 1952. Systk- ini Björns voru Anna Sigríður, f. 26.12. 1910, d. 24.3. 1925, Björn, f. 23.4. 1912, d. 25.5. 1912, Pétur, f. 4.6. 1913, d. 23.8. 1953, Sess- elja, f. 28.8. 1916, d. 8.11. 1924, Karólína Soffía, f. 13.9. 1917, d. 13.5. 1992, Gunnlaugur, f. 10.8. 1919, d. 16.3. 1998, Valdimar, f. 13.5. 1921, d. 5.1. 1983, Stefán, f. 14.1. 1923, d. 3.4. 2003, Sesselja Gíslína, f. 14.10. 1924, d. 16.1. 2001, og Ólafur, f. 28.1. 1927. Guðný Helga Brynjólfsdóttir fæddist í Hlíð í Lóni 10. ágúst 1923 og lést á Landspítalanum 18. febrúar 2012. Foreldrar Guð- Brynja Rut og Ýmir, Guðný Birna, f. 22.11. 1980, í sambúð með Árna Einarssyni, f. 7.10. 1977 og Birgir Ármannsson, f. 21.11. 1984. Pétur Björnsson, f. 4.6. 1954, dóttir hans er Guðrún Birta, f. 29.2. 2000, barnsmóðir Ingveldur Kristjánsdóttir, f. 13.11. 1965. Björn stundaði nám við Reykjaskóla í Hrútafirði og fluttist til Reykjavíkur á árunum ’43-’44. Hann starfaði í Blikk- smiðjunni Gretti og Silfursmiðju Ernu. Björn var mjög virkur í kór- og félagsstarfi og var m.a. í Karlakór Húnvetninga og Kvöldvökukórnum. Guðný ólst upp á Ormsstöðum í Breiðdal ásamt foreldrum og systkinum við almenn sveita- störf. Guðný fór í vist til Reykja- víkur ung að aldri. Hún starfaði bæði í Sælgætisgerðinni Freyju og síðar í Sælgætisgerðinni Mónu til fjölda ára. Helstu áhugamál Guðnýjar voru handa- vinna og að ferðast og skoða Ís- land. Útför Björns og Guðnýjar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 24. febrúar 2012, kl. 13. nýjar voru Brynjólfur Guð- mundsson frá Þverhamri í Breiðdal, f. 18.5. 1892, d. 16.5. 1975, og Guðlaug Eiríksdóttir frá Hlíð í Lóni, f. 19.8. 1894, d. 25.1. 1995. Systkini Guðnýjar voru Guðmundur Þórarinn, f. 17.10. 1920, d. 31.8. 1963, Sigríð- ur, f. 8.7. 1922, d. 4.6. 2005, Gyða, f. 7.10. 1925,d. 1.12. 1996, Guðrún, f. 9.4. 1927, d. 8.2. 2011. Synir Björns og Guðnýjar eru Ármann Björnsson, f. 15.2. 1950, giftur Stefaníu Ingimund- ardóttur, f. 30.1. 1950. Börn þeirra eru Þröstur, f. 20.4. 1976, Sigríður Elva, f. 8.6. 1979, í sam- búð með Illuga Hartmannsyni, f. 3.12. 1981, börn þeirra eru Það er með söknuði að ég kveð tengdaforeldra mína í dag þau yndislegu hjón Björn Jóns- son og Guðnýju Helgu Brynj- ólfsdóttur. Það var erfitt að þið fóruð svo snögglega en um leið fallegt að þið fenguð að fara saman. Þau voru alltaf mjög samhent og dugleg að ferðast um landið í sumarfríum sínum. Björn var mikill Húnvetningur og elskaði sveitina sína mikið. Hann var mjög hress og gamansamur og oft var slegið á létta strengi. Þegar börnin okkar voru lítil fórum við oft með þeim hjónum norður á sumrin og vorum í veiðisýsli. Það var oft létt yfir öllum, sagðar margar sögur, því honum Bjössa fannst svo gaman að segja sögur. Einnig var oft tekinn spilastokkurinn og spiluð vist eða langavitleysa eftir því við hvern var spilað. Guðný var mjög heimakær og sat hún oft og heklaði eða saum- aði út, til eru margir fallegir hlutir á heimili þeirra hjóna sem hún hefur gert. En Bjössi hafði meira gaman af að fara á skemmtanir því hann var skemmtikraftur af guðs náð og hann hafði gaman af því að vera í sviðsljósinu. Hann var í Hún- vetningafélaginu og í karlakór félagsins um tíma. Einnig var hann í félaginu Ljóð og saga og þar starfaði Kvöldvökukórinn sem hann söng með í mörg ár. Í lífi þeirra hjóna hefur tónlistin verið í miklu uppáhaldi, Björn sat löngum stundum við tækið og hlustaði mikið og söng með. Ekki alls fyrir löngu sagði hann við mig „ég get enn lært texta“ og var alveg undrandi enda orð- inn 97 ára gamall. Hann var hættur að geta lesið en hann hlustaði þar til hann náði text- anum. Mér er ofarlega í minni af- mælisdagur Björns fyrir rúmu ári. Þá var hann með skipulagða dagskrá og áttum við mæðgurn- ar að syngja með honum ákveðið lag sem hann setti á fóninn. Næsta lag tók hann sjálfur og spilaði undir á munnhörpuna sína og svo hélt dagskráin áfram. 1. maí var mjög merkur dag- ur hjá honum, Þröstur elsti drengurinn okkar fór alltaf inn eftir til afa og fór með honum í kröfugönguna. Í september ár hvert fór Bjössa að langa í réttirnar, hann hafði svo gaman af að fara og syngja með fólkinu og komast í sveitastemninguna, þetta gerði hann í mörg ár. Björn vann í silfursmiðjunni Ernu og líkaði honum vel að vera að skapa svona fallega hluti og á ég nú nokkrar skeiðar sem hann smíðaði og varðveiti ég þær vel. Guðný vann lengst af í sæl- gætisgerðinni Mónu í Hafnar- firði og kunni hún mjög vel við sig þar enda mikill dugnaðar- forkur í vinnu. Blessuð sé minning þessara heiðurshjóna. Hvílið í friði. Stefanía. Elsku afi og amma. Ég kveð ykkur með miklum söknuði. Eins sárt og það er að kveðja ykkur bæði svona í einu þá hugga ég mig við það að þið eruð saman. Afi minn, þú varst skemmtikraftur af guðs náð og þér þótti ekki leiðinlegt að fá svolítið sviðsljós á skemmtunum ýmist með söng eða að segja sögur. Þú lumaðir endalaust á skemmtisögum sem komu manni til þess að hlæja. Söngur var þitt helsta áhugamál og þótti mér alltaf jafn gaman að heyra í þér þegar þú tókst upp munnhörp- una þína og fórst að spila. Kass- ettutækið þitt var mikið notað, þú tókst upp allskonar efni bæði úr útvarpi og svo fékkst þú okk- ur systurnar stundum til þess að syngja fyrir þig frá unga aldri og upptökurnar varðveittir þú vel. Elsku amma mín, þú varst sko með allt þitt á hreinu, skipu- lagið á þínu heimili var sko al- veg 100% og vona ég að ég hafi fengið brot af þeim hæfileika frá þér, því að ekki þykir mér leið- inlegt að skipuleggja. Þú varst duglegasti vinnukraftur sem sögur fara af því ekki vantaði þig stund úr vinnu alla þína starfsævi og ekki er hægt að gera betur en það. Einnig hafðir þú unun af handavinnu eins og útsaum og hekli og gerðum við nokkrar tilraunir til þess að koma heklhæfileikum þínum yfir á mig en því miður tókst okkur það ekki. Mikið af minningum hafa komið upp í huga minn síðustu daga og á ég mér nokkrar uppá- haldsminningar sem allar eru úr barnæsku. Sem dæmi eru allar þær stundir sem við áttum í borðstofunni á Tungó að spila vist, þar ríkti mikil spenna og gleði. Einnig þær stundir sem við áttum í garðinum þar sem við fengum að leika lausum hala á sólskinsdögum, drekka kaffi í skýlinu og huga að fallegu blóm- unum hennar ömmu. Ég er mjög þakklát að hafa átt ykkur að og veit ég að þið munuð vaka yfir okkur. Ykkar Sigríður Elva Ármannsdóttir. Elsku amma og afi. Það var mjög sárt að kveðja ykkur tvö og það með svona stuttu millibili. En ef maður horfir á björtu hliðarnar sér maður hversu fallegt það er í rauninni að þið tvö fáið að fylgj- ast að eftir allan þennan tíma sem þið hafið átt saman. Margar góðar stundirnar hef ég átt með ykkur í gegnum tíð- ina, og eru mér efst í huga allar stundirnar sem að við áttum saman á Tungó (Tunguveginum) þegar að ég var yngri, stund- irnar í skýlinu góða, gönguferð- irnar um stokkana, sundferðirn- ar og öll sú spilamennska sem fram fór á heimilinu. Á heimili afa og ömmu ómaði alltaf mikil tónlist, og vildu þau yfirleitt hlusta á íslenska tónlist. Bæði tvö sungu þau mikið, afi var alltaf mjög virkur í kór- og félagsstarfi en amma söng meira fyrir sig við heimilisstörfin. Ég smitaðist af ástríðu þeirra á tón- list og var mikið í kórstarfi sem barn sem leiddi út í frekara söngnám seinna meir. Hann afi minn talaði reglulega um hversu mikið tónlistin gæfi honum, enda hlustaði hann sérstaklega mikið á tónlist á seinni árum og voru Álftagerðisbræðurnir alltaf efstir á vinsældalista hans. Hann afi var einnig mikill sögu- maður og var alltaf gaman að heyra frægðarsögur hans frá fyrri tíð og öll þau ævintýri sem hann lenti í. Hún amma mín var svo flink í höndunum. Hún saumaði, prjónaði og heklaði eins og meistari, það lék allt í höndunum á henni og eru þær ófáar hekluðu dúllurnar og milli- verkin sem leynast hér og þar. Einnig var hún alveg snilldar- bakari og getur enginn státað af jafn góðri brúnköku og hennar var, hún var bæði stökk, mjúk og með sultu á milli; alveg him- nesk. Hún amma mín hafði alltaf unun af fallegum hlutum og þótti mér það alltaf voðalega spennandi að fá að skoða skartið hennar þegar ég var yngri. Í hvert skipti sem ég kom fékk ég að máta og skoða þessa fallegu hluti sem hún passaði alltaf svo vel upp á. Enda var hún amma glæsileg kona fram í fingur- góma. Við afi sungum oft saman ein- hver lög þegar við hittumst og er mér það mjög minnisstætt þegar ég fór þann 10. ágúst síð- astliðinn á afmælisdeginum hennar ömmu að ná í hann afa á Borgarspítalann svo að við gæt- um farið í kaffi til hennar. Við afi sungum saman alla leiðina í Hafnarfjörð nokkur vel valin ís- lensk dægurlög hátt og skýrt. Það var alveg magnað hversu mikla söngrödd hann afi minn hafði alveg langt fram eftir aldri, flottur tenór var hann kallinn. Eins sárt og það er að kveðja þá veit ég að það voru forrétt- indi að hafa fengið að njóta þess góða tíma sem ég átti með ykk- ur, elsku afi og amma. Ég á eftir að sakna ykkar. Ykkar sonardóttir og nafna, Guðný Birna. Elsku afi og amma, þið kvödduð okkur svo skyndilega og langar mig að minnast ykkar með nokkrum orðum. Ég á margar góðar minningar um ömmu og afa frá því ég var lítill og gisti hjá þeim, amma dekraði við mann og afi fór oft með mig í sund eða í göngutúra um hverfið. Afi var mjög góður sögumað- ur hann hafði alltaf gaman af því að segja manni sögur og fræða mann um gamla tímann. Hann hlustaði líka mikið á tónlist, spil- aði á munnhörpu, hann var líka mikið í kórum, hann hafði mjög gaman af söng. Þegar við afi vorum á keyrslu var hann oft að spyrja mig spurninga um landa- fræði og má ég þakka honum það sem ég kann í landafræði um Ísland. Við amma og afi rifjuðum oft upp veiðitúr sem við fórum í Fitjavatn í Hrútafirði, þar var óvenjugott veður og við veiddum mikið af fiski. Hitinn var svo mikill að afi þurfti að koma afl- anum í kælingu í Staðarskála. Oft þegar ég kom til ömmu og afa spiluðum við vist eða manna, þau höfðu mjög gaman af því að spila. Svo dapraðist sjónin hjá afa og minna var um spila- mennsku. Amma var mjög góð í eldhús- inu og enginn hefur getað gert eins góða brúnköku og hún og einnig bjó hún til mjög góðan mat, alvöruömmumat. Elsku afi og amma, ég þakka fyrir allar góðu stundirnar með ykkur. Hvílið í friði, Birgir Ármannsson. Björn frændi minn var lengst- um næstelstur systkinanna frá Fossi. Hann var líka síðastur systkinanna sem kvaddi Foss þegar foreldrar hans brugðu búi. Þetta var sveitin sem lifði í hjarta og huga þeirrar sem fluttist á mölina. Um sveitina var bæði sungið og sagðar sög- ur. Bjössi frændi var sá maður sem hélt við arfleifð liðinna með sögum og tengslum við fólk sem átti rætur sínar að rekja til sveitanna við Hrútafjörðinn. Bjössi varð langlífur og einungis Ólafur bróðir hans er enn á lífi. Björn var léttur á fæti og snaggaralegur maður. Hafði yndi af hestum og átti Blesa, sem enginn annar maður gat setið, nema Bjössi. Bjössi sagði oft söguna þegar hann fór einn ungur um vetur yfir í Miðfjörð að sækja fola fyrir föður sinn. Komst Bjössi við illan leik til byggða eftir að hafa farið yfir Hrútafjarðarhálsinn í blindbyl. Björn var því um margt líkur föður sínum að atgervi. Björn var hagleiksmaður, og eftir að hafa unnið við vatnskassavið- gerðir hjá Gretti í mörg ár, venti hann sínu kvæði í kross og fór að vinna við silfursmíðar. Af hagleik smíðaði Björn silfur- skeiðar þar til hann lét af stöf- um sökum aldurs. Björn var frændrækin með afbrigðum og samkvæmismaður hinn besti. Fáa menn var skemmtilegra heim að sækja eða fá í heimsókn en Bjössa frænda. Ósjaldan kom hann í heimsókn til móður minnar og systur sinn- ar í Kópavoginn og stytti henni stundir og alltaf var glaðværð með þeim systkinum. Oftar en ella voru þar líka komnir bræð- ur hans; Gunnlaugur, Stefán eða Ólafur, og kom fyrir að systk- inin tóku lagið saman og Bjössi spilaði undir á hárgreiðu. Þá var líka sögustund fyrir unga fólkið, sem hlýddi af at- hygli þegar brugðið var upp myndum af gömlum tíma, ljóslif- andi atburðum í lífi fjölskyld- unnar. Gott var að heimsækja Bjössa og Guðnýju, en mynd- arlegt meðlæti var ósjaldan á borðum á heimili þeirra á Tunguveginum. Systkinin frá Fossi voru sam- heldin, alin upp í skugga veik- inda í fjölskyldunni. Þau sem lifðu komust vel á legg og skil- uðu góðu dagsverki til sam- félagsins.Við samfagnaði systk- inanna var ávallt glaðværð og glettni í fyrirrúmi. Björn hafði yndi af söng, enda starfaði hann í kór Húnvetninga um tíma og í Ljóði og sögu. Bjössi sýndi einlægu ræktar- semi við sín skyldmenni og sagði sögur og fór með vísur sem allt- af vöktu áhuga, en minni Bjössa var næstum óbrigðult, og það fram á síðasta dag. Þó að heils- unni hrakaði hélt Bjössi áfram að segja sögur og lifa í minningu gamalla tíma. Tíma fátæktar, veikinda og erfiðra heimilisað- stæðna á Fossi. Bjössi var þar oft í hlutverki eldri bróður því heimilisfaðirinn vann á vetrum í fiski hér fyrir sunnan og hús- móðirin á spítala. Vil að lokum kveðja Bjössa frænda minn og þakka honum fyrir alla umhyggju og ræktar- semi sem hann sýndi minni fjöl- skyldu, með vísu sem faðir hans, Jón Marteinsson, orti um Björn son sinn: Tíminn okkar tekur stig táp og hreysti vinna. Lofðung hæða leiði þig á landið vona þinna. Votta fjölskyldum þeirra hjóna Bjössa og Guðnýjar ein- læga samúð mína. Blessuð sé minning þeirra. Jón Ögmundsson. Guðný og Bjössi. Okkur var svo tamt að nefna þau saman. Og nú eru þau farin saman til Sumarlandsins sem við töluðum svo oft um. Þar verður þeim fagnað sem aufúsu- gestum eins og annars staðar þar sem þau áttu viðkomu í þessari jarðvist. Hún – með fallegu brúnu aug- un. Heimakær, skapstór og hreinskiptin. Stjórnsöm og hlý. Hávær þegar vel lá á henni. Verkakonan sem vann í 30 ár hjá sama fyrirtækinu, varð aldr- ei veik og mætti aldrei of seint. Húsmóðirin sem sló ekki af í sláturgerð og bakstri þó að heilu dagsverki væri lokið. Hannyrða- konan sem bróderaði og heklaði þvílík kynstur að halda mætti sýningu. Frænkan sem fagnaði manni alltaf og færði gjafir sem voru engu líkar og gerðar af henni sjálfri. Hann – svo góður, hlýr og fé- lagslyndur. Lét sér ávallt annt um annarra hagi, skyldra sem vandalausa. Elskaði börn og tal- aði við þau af sömu virðingu og fullorðna. Verkamaðurinn sem barðist fyrir kjörum sinnar stéttar. Sögumaðurinn sem elsk- aði að segja sögur svo gaman var á að hlýða. Snyrtimennið sem á tíræðisaldri tók nærri sér ef hárið var ekki rétt snyrt. Töffarinn sem var með franskan silkiklút um hálsinn þegar hann lá á spítala fyrir ári og heillaði þar alla upp úr skónum. Gleðimaðurinn sem elskaði söng og gladdi alla með munn- hörpuleik. Félagsmálamaðurinn sem söng í kórum og sinnti fé- lagsmálum þannig að sumum þótti nóg um. Þegar ég var lítil bjuggum við fjölskyldurnar tvær í sömu íbúð. Það var gaman að vera lítil með Bjössa. Ef ég var eitthvað döpur tók hann fram munnhörpuna og spilaði úr mér fýluna. Í þá daga voru dúkkurnar börn, ekki kon- ur. Og Bjössi tók þátt í leiknum og fór létt með að bregða sér í hlutverk prestsins sem skírði dúkkurnar okkar. Mín hét Heið- björt. Síðan var haldin alvöru- skírnarveisla. Síðustu árin bjuggu þau í Hafnarfirði. Og þá var allt best þar. Eins og sannir heiðursborg- arar tóku þau leigubíl niður í Fjörð, sinntu sínum erindum og enduðu síðan ferð sína á kaffi- húsi. Allir voru svo góðir og elskulegir og Láki fylgdi þeim heim að dyrum. Annars var hún frænka mín með eindæmum heimakær. En heimsmaðurinn Björn Jónsson brá sér gjarnan af bæ. Þó að hann væri hálfblindur með staf rölti hann oft upp Suðurbrautina og settist á bekk við strætó- skýlið. Ekki til að bíða eftir strætó heldur til að hitta ein- hverja til að spjalla við. Þannig var Bjössi opinn, einlægur og áhugasamur. Hann hélt sannar- lega sinni reisn til æviloka. Það var gott að fá þau hjónin í nágrennið og það var gott að koma til þeirra. Hlusta á sögur og hlæja með þeim. Hún var besta frænkan mín og hann var besti maður sem ég hef þekkt. Það verður seint fullþakkað að hafa fengið að njóta samvista þeirra. Elsku Pétur, Ármann og Stef- anía. Þið hafið mikils að sakna. Megi minningin lifa. Bryndís Skúladóttir. Mín kæra frænka og Bjössi hafa nú kvatt þennan heim með fárra daga millibili. Guðný var móðursystir mín og mikill sam- gangur á milli fjölskyldnanna. Þau bjuggu á Tunguvegi og við í Heiðargerði, svo stutt var á milli. Ég minnist margra góðra samverustunda með Guðnýju og Bjössa, sérstaklega ferðarinnar okkar saman til Brighton þegar mamma varð sjötug. Þá fórum við öll systkinin ásamt mökum og mamma, Guðný og Bjössi og Sigga frænka. Það var nú ekki leiðinlegt að vera með Guðnýju í búðunum, en hún hafði yndi af að kaupa sér fallega hluti, sér- staklega glingur, og var mikið verslað og hlegið. Þetta voru yndislegir dagar hjá okkur. Eins var alltaf gaman að koma á Suð- urbrautina, Bjössi alltaf svo flottur í tauinu, skyrta, vesti og slaufa, hann var alltaf svo mikill töffari. Guðný dreif fína útsaum- aða dúka á borð og spariboll- astellið, ásamt heimbökuðu bakkelsi. Þau urðu alltaf svo glöð að sjá okkur, enda talaði hún um okkur systur sem Heið- argerðisstelpurnar sínar. Bjössa fannst sérstaklega gaman þegar Villi kom með mér, þá sátu þeir lengi og töluðu um hesta, en það var sameiginlegt áhugamál þeirra. Guð geymi minningu Guðnýjar og Bjössa. Við verðum alltaf þakklát fyrir að hafa feng- ið að eiga þau sem frænku og frænda. Megi gæfan þig geyma, megi Guð þér færa sigurlag. Megi sól lýsa þína leið, megi ljós þitt skína sérhvern dag. Og bænar bið ég þér, að ávallt geymi þig Guð í hendi sér. (Írsk bæn. Þýð. Bjarni Stefán Konráðsson.) Guðlaug Skúladóttir (Gulla). Björn Jónsson og Guðný Helga Brynjólfsdóttir  Fleiri minningargreinar um Björn Jónsson og Guðnýju Helgu Brynjólfsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.