SunnudagsMogginn - 15.07.2012, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 15.07.2012, Blaðsíða 29
15. júlí 2012 29 annars var fólk bara í vinnu. Mér þótti líka gott að eiga peninga í vasanum en eftir á að hyggja var ég líklega of fljótur að eyða þeim líka.“ Drykkjan tók sinn toll. „Já, þetta var frekar mikið rugl á manni á þessum ár- um. Dansiball á fimmtudögum, fyllerí næstu þrjá daga og svo var bara að skríða glerþunnur til vinnu á mánudegi.“ Næstu ár voru lituð af drykkju Friðriks og hafa ófáar flökkusögur gengið á milli manna í Hafnarfirði frá þessum árum. „Þessar sögur eru margar ýktar og sum- ar hreinlega ósannar,“ segir Fiddi með bros á vör. „Keyptu eina kleinu fyrir mig og ég skal segja þér ansi lífseiga sögu sem er reyndar 100% sannleikur.“ Eftir að hafa sporðrennt kleinunni stendur Fiddi við orð sín og segir frá svakalegri ferð norður yfir heiðar. „Þannig var mál með vexti að leigubíll sem ég var farþegi í fór út af veginum á Arnarneshæð og ég lærbrotnaði illa. Þremur árum seinna fékk ég dágóða summu frá tryggingunum og ákvað að gera mér glaðan dag. Ég greip með mér kunningja sem ég hafði hitt í Reykjavík, hringdi á leigubíl og bað hann að keyra okkur norður á Akureyri með viðkomu í ríkinu að sjálfsögðu. Bílstjórinn var til í tuskið og þarna vorum við í góðum gír í tvo eða þrjá daga, allan tímann með þennan ágæta leigubílstjóra sem okkar sérlega einkabílstjóra!“ Friðrik viðurkennir að áfengið hafi verið töluvert vandamál í lífi sínu. „Auðvitað er þetta sukk búið að taka sinn toll og ég hef fengið nokkra skelli í lífinu. Ég hef reynt að berjast gegn Bakkusi, farið í meðferð og svona þetta helsta sem fólk gerir. Mér finnst reyndar að áfengismeðferð hafi orðið nokkurs konar tískubóla á tímabili. Fólk sem átti ekkert í miklum vandræðum skráði sig í meðferð til að þóknast öðrum en sjálfum sér. Ég er alls ekki á móti því að fólk leiti sér aðstoðar en stundum finnst mér helst til fljótt stokkið á Vog.“ Þaulvanur fyrir framan myndavélarnar Friðrik hefur í gegnum tíðina dúkkað upp í hinum fjölbreyttustu auglýsingum og kvikmyndum. „Ein eftirminnilegasta kvikmyndin er Óðal feðranna sem Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði. Við vorum nokkrir skrautlegir sem áttum að leika fyllibyttur á bar og Hrafn var búinn að setja brennivínsflösku á borðið hjá okk- ur en í henni var bara vatn. Ég vissi að svona tökur tækju dágóðan tíma og hafði því til öryggis tekið með mér flösku með alvörubrennivíni. Það var hægðarleikur að skipta á flöskum í laumi og ég held að Hrafn sé ennþá að reyna að átta sig á því hvernig við náðum að leika drukkna menn á svona sannfærandi hátt.“ Auglýsing MS, sem birt er á degi ís- lenskrar tungu á hverju ári, er Fidda einnig minnisstæð. „Auglýsingin fer í loftið einu sinni á ári og myndarlega unga stúlkan, sem syngur svona listilega vel í henni, er líklega orðin vel fullorðin í dag. Ég fékk fimmþúsundkall fyrir að þykjast vera að kýta við vinnufélaga minn. Mér finnst þetta fín auglýsing enn í dag.“ Íþróttaáhugamaður og einfari Fiddi verður sextugur á næsta ári og að- spurður hvort hann sjái eftir að hafa ekki farið „hefðbundinn“ veg í lífinu, þ.e. fundið sér maka, stofnað heimili og eignast erfingja, hristir hann höfuðið „Auðvitað hef ég velt þessu fyrir mér en ég iðrast þess ekki. Mér líður einfaldlega best einum og ég myndi ekki nenna að hafa einhverja kerlingu vælandi yfir mér öllum stundum.“ Með prakkaraglott á veðruðu andlitinu bætir hann við: „Þá myndu laugardag- arnir með enska boltanum breytast í ís- bíltúra austur fyrir fjall og það væri mér hreint ekki að skapi.“ Friðrik er óforbetr- anlegur áhugamaður um boltaíþróttir og mætir á flesta leiki sem spilaðir eru í Hafnarfirði. „Ég bjó í miklu FH-hverfi og er harður FH-ingur. Mér er samt vel við Haukana líka en hika ekki við að bauna á þá þegar þeim verður á í messunni.“ Friðrik stóð í marki ÍH á handboltavell- inum fyrir u.þ.b. 20 árum og átti nokkra stórleiki. „Ég man eftir einum eftirminni- legum leik á Skaganum en þá var ég kom- inn með 15 bolta varða í hálfleik. Þjálf- arinn skipti mér þá út af og sagði að fyrst menn væru búnir að leggja á sig þetta mikla ferðalag væri sjálfsagt að gefa öllum séns. Við töpuðum leiknum og ég efast um að Akranes geti státað af fleiri hand- boltasigrum á Hafnarfirði.“ Friðrik er byrjaður að skipuleggja sex- tugsafmælið og ætlar að sjálfsögðu að halda það í höfuðvígi FH á Kaplakrika. „Ég hélt upp á fimmtugsafmælið þar líka en mér urðu á mistök í boðskortunum. Ég bauð nefnilega 60 manns í mat en reikn- aði ekki með að makar myndu mæta líka. Það var andskoti dýr veisla!“ Spái lítið í framtíðina Fiddi hefur aldrei velt sér upp úr hlut- unum. „Ætli það megi ekki skrifa það á þessa hugsun sem ég tileinkaði mér sem ungur maður, að lifa eina viku í einu. Ég fór ákveðna leið með mitt líf og það var bara svoleiðis.“ Ungt fólk hefur of lítið frelsi að mati Fidda. „Þessir krakkar eru ofverndaðir og mega ekki gera neitt á eigin spýtur. For- eldrarnir eru með þeim í öllum leik og öllum frístundum. Þetta finnst mér fá- ránlegt, krakkar eiga að læra að bjarga sér á eigin spýtur.“ Fiddi klárar gosdrykkinn og nefnir dæmi um sjálfsbjargarviðleitni fyrri tíma. „Einu sinni vorum við félagarnir á lands- leik í handbolta og báðum strákgutta að hoppa fyrir okkur í sjoppuna til að kaupa tvær kókflöskur. Ég hef ekki séð þennan snjalla gutta síðan!“ Hafnfirðingar hafa alltaf haft reglulegar spurnir af Fidda og hann segir fólk hafa ólíkar skoðanir á sér. „Þegar ég lenti í bíl- slysinu spurðist það leifturhratt út að Fiddi hefði lent í slæmu slysi og einhverra hluta vegna fór sú saga á kreik að ég hefði látið lífið. Vinur minn úr bæjarvinnunni hringdi á lögreglustöðina í Hafnarfirði og spurði hvort það væri rétt að Fiddi hefði dáið um nóttina. Lögreglumaðurinn svaraði sorgmæddur: „Nei, því miður er það ekki rétt.“ Þetta kallar maður að tala frá hjartanu!“ Samtalinu lýkur eins og það byrjaði – á skemmtilegri sögu þar sem Fiddi er sjálf- ur í aðalhlutverkinu. Hafnfirðingar hafa haft gaman af Fiddasögum í hálfa öld og Fiddi er ekkert á því að segja skilið við bæinn í hrauninu. „Æ, ég held að það sé orðið of seint núna. Skutlaðu mér á Kæn- una, ég ætla að hitta nokkra skemmtilega karlpunga þar.“ ’ Við vorum nokkrir skrautlegir sem áttum að leika fyllibyttur á bar og Hrafn var búinn að setja brennivíns- flösku á borðið hjá okkur en í henni var bara vatn. Ég vissi að svona tökur tækju dágóðan tíma og hafði því til öryggis tekið með mér flösku með alvörubrennivíni. Úrslitaleiknum í Evrópu-keppni meistaraliða íknattspyrnu vorið 1986(eins og virðulegasta mót Evrópu hét í þá tíð) lauk með sigri rúmensku meistaranna, Steaua frá Búkarest, á spænsku meisturunum, Barcelona, 2:0, í Sevilla. Alls ekki óvenjuleg markatala í leik sem þessum en það sem sætir tíðindum er að úrslit fengust ekki fyrr en eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni. Markvörður Steaua, Helmuth Duckadam, gerði sér nefnilega lítið fyrir og varði fjórar víta- spyrnur Börsunga. Afrek sem á sér enga hliðstæðu í sparksögunni, alltént ekki í jafnsterku móti og Evrópu- keppni meistaraliða. 120 mínútur og fjórar vítaspyrnur dugðu þessu mikla sparkveldi, Börsungum, sumsé ekki til að koma tuðrunni framhjá Helmuth Duckadam. Markvörður Barcelona, Urruti heit- inn, lá heldur ekki á liði sínu þetta kvöld, varði tvær fyrstu spyrnur Steaua-manna en það dugði skammt. Duckadam varði frá José Ramón Alex- anko, Ángel Pedraza, Pichi Alonso og Marcos og Steaua nægði að skora úr tveimur af sínum spyrnum. Þar voru að verki Marius Lãcãtus og Gavril Balint. Af öðrum leikmönnum Barcelona í leiknum má nefna Þjóðverjann Bernd Schuster og Skotann Steve Archibald en þeir voru báðir farnir af velli þegar kom að vítunum. Terry Venables stóð í Brúnni hjá Börsungum en Emerich Jenei hjá Steaua. Ekki fórnarlamb Ceausecus Búkarest gekk af göflunum enda var þetta fyrsti Evróputitill Rúmena. Steaua-liðinu, einkum og sérílagi Duckadam, var tekið sem þjóðhetjum við komuna heim og það hyllt á torg- um. Duckadam var 27 ára á þessum tíma, sem er kjöraldur fyrir markvörð. Eigi að síður varð þetta síðasti leikur hans fyrir Steaua. Var þar heilsubresti um að kenna. Rætnar tungur hermdu að sá brestur væri af mannavöldum. Athygl- in sem Duckadam fékk í kjölfar afreks- ins var sögð hafa farið í taugarnar á Nicu, syni Nicolaes Ceausescus, hins illræmda einræðisherra í Rúmeníu, með þeim afleiðingum að hann hafi látið mölva aðra höndina á markverð- inum. Duckadam hefur alla tíð borið þessa sögu til baka. „Þetta er það heimsku- legasta sem ég hef heyrt um dagana,“ sagði hann í blaðaviðtali eftir að Ceau- sescu var steypt í byltingunni um jólin 1989. „Fólk hataði Ceausescu svo inni- lega að það bjó til ótrúlegustu sögur um hann og fjölskyldu hans.“ Hið rétta í málinu mun vera að Duckadam fékk blóðtappa í annan handlegginn. Verkir höfðu hrjáð hann hríð, frá því fyrir úrslitaleikinn fræga, en hann dregið að láta líta á sig. Þegar hann loksins komst undir læknis- hendur var ástandið orðið það alvar- legt að honum var hent rakleiðis upp á skurðarborðið. Segja má að læknar hafi bjargað lífi Duckadams með átta klukkustunda langri aðgerð. Skoraði yfir völlinn Það tók kappann þrjú ár að ná sér að fullu og þá var Steaua löngu búið að leysa hann undan samningi. Ducka- dam tók hanskana fram aftur, gegn læknisráði, árið 1989 og gekk til liðs við 2. deildar lið í heimabæ sínum, Vagonul Arad. Vann sér þar helst til frægðar að skora mark yfir endilangan völlinn. Duckadam náði aldrei fyrri styrk og árið 1991 var knattspyrnuferli hans lokið. Hann lék tvo landsleiki fyrir Rúmeníu, báða árið 1982. Erfiðir tímar tóku við hjá Ducka- dam, hann reyndi fyrir sér í við- skiptum en með vondum árangri. Segja má að hann hafi misst allt út úr höndunum, þar á meðal heimili sitt um tíma. Neyddist markvörðurinn til að selja hanskana góðu sem hann klædd- ist í Sevilla fyrir nokkur þúsund evrur. Árið 2003 hljóp loksins á snærið hjá Duckadam þegar hann vann sér inn rétt til að setjast að í Bandaríkjunum í lottói þeirra Rúmena. Hvers vegna býður Íslensk getspá ekki upp á þann möguleika? Duckadam-fjölskyldan settist að í Phoenix en heimilisfaðirinn fann sig aldrei í landi hinna hugprúðu og frjálsu og sneri heim eftir tveggja ára dvöl. Spúsa hans og dóttir urðu á hinn bóginn eftir vestra og lauk þeim viðskilnaði með hjónaskilnaði skömmu síðar. Orðinn forseti Steaua Heima í Arad-héraði tók Duckadam saman við tæplega tuttugu árum yngri konu, Alexöndru Lincar, sem er stjórnmálamaður að atvinnu. Sjálfur reyndi Duckadam að ná kjöri í sveitar- stjórn árið 2005 en var hafnað af kjós- endum. Hvurslags er þetta, vilja menn ekki vera í öruggum höndum? Undanfarin ár hafa verið Duckadam gjöful. Fyrir fjórum árum sæmdi forseti Rúmeníu hann heiðursorðu fyrir framlag hans til íþrótta í landinu og fyrir tveimur árum sneri hann aftur til Steaua í Búkarest – nú sem forseti fé- lagsins. Sannkölluð rússibanareið en Ducka- dam, sem orðinn er 53 ára, er síður en svo ósáttur við lífshlaup sitt. „Hver veit hvers vegna ég tapaði svo miklu? Enginn getur þó tekið af mér kvöldið ótrúlega í Sevilla. Ég myndi glaður tapa aleigunni aftur í skiptum fyrir tilfinn- ingar af því tagi. Fólk dreymir vita- skuld um auð, peninga, stórhýsi og bíla en minningarnar verða alltaf minn auður. Þess vegna er ég gæfusamur maður.“ Hvað varð um … Helmuth Duckadam? Duckadam hefur hlotið margar viður- kenningar fyrir afrek sitt, þess er meðal annars getið í heimsmetabók Guinness. Helmuth Duckadam smellir kossi á Evr- ópubikarinn vorið 1986.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.