Morgunblaðið - 22.05.2013, Síða 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 22. MAÍ 2013
Anna Kristín varð þrítug og svo
samskonar mynd af sömu stelpum
tíu árum síðar. Það eru aðeins örfá
ár í næsta tug en á þeirri mynd
verður þú ljósið sem lýsir.
Hvíldu í friði, elsku mannsbarn-
ið mitt.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Við sjáum á bak yndislegri
samstarfskonu. Anna Kristín var
leiftrandi persónuleiki sem fékk
alla með sér hvert sem viðfangs-
efnið var. Henni var mjög í mun að
vandað væri til verka og öllum
væri sýnd virðing. Hún var leið-
togi í eðli sínu og þannig var oft
eins og dregið væri frá ský þegar
hún hafði tekið málin í sínar hend-
ur. Drifkrafturinn var einstakur.
Hún var góður félagi sem kunni
að gleðjast með sínu fólki. Hún sló
í gegn með stórkostlegum tilþrif-
um. Eftirminnilegt er þegar hún
mætti bleikklædd á furðufatadag
með hárkollu Sollu stirðu. Hún
var flottust. Anna Kristín kom að
stofnun hlaupaklúbbsins hjá Um-
hverfisstofnun og var þar vel virk.
Hún var meðal hörðu naglanna
sem drifu sig út í hvaða veðri sem
var. Hún efldi hópandann og stóð
fyrir því að hópurinn hljóp undir
merkjum stofnunarinnar í
Reykjavíkurmaraþoninu. Oftast
hljóp hún hálfmaraþon en ekki
höfðu allir svo mikið úthald.
Á starfstíma sínum hjá Um-
hverfisstofnun lauk hún fjölda-
mörgum glæsilegum náttúru-
verndarverkefnum. Vinna við
friðlýsingar hentaði henni líka vel
þar sem þá reyndi virkilega á
hæfileika til að hlusta, greina,
skilja og leita lausna. Hún sýndi
öllum virðingu og hlýju í sam-
skiptum en átti líka til ákveðni ef á
þurfti að halda. Hún hafði þétt
handtak og horfði ávallt í augun á
þeim sem hún talaði við. Hún var
heimskona í eðli sínu en naut sín
gríðarlega vel í hinum dreifðu
byggðum landsins, hvort sem var í
stórbrotinni náttúru Vestfjarða
eða Mývatns. Anna Kristín var
ávallt reiðubúin, með allt í tösk-
unni og snaraðist í að bjarga mál-
unum fyrir allan hópinn ef eitt-
hvað óvænt kom upp. Hún tvísteig
ekki yfir hlutunum heldur gekk
hreint til verks. Sátt og samvinna
var lykill hennar að úrlausn allra
mála. Ef í harðbakkann stefndi þá
skerpti hún á varalitnum og brosti
svo breitt að öll heimsins vanda-
mál féllu í skuggann. Við eigum
eftir að njóta hennar krafta lengi
enn þar sem hún var dugleg að
skipuleggja verkefni fram í tím-
ann. Þekking hennar á opinberri
stjórnsýslu var framúrskarandi
og var hún dugleg að gefa ábend-
ingar sem leitt gætu til frekari ár-
angurs.
Anna Kristín var mikil fjöl-
skyldumanneskja og talaði af mik-
illi hlýju um manninn sinn og
börnin sem eru svo glæsileg öll.
Það var svo spennandi að heyra
frásagnir af því hvað þau hafa tek-
ið sér flotta og ólíka hluti fyrir
hendur. Við heyrðum sögur af því
hvernig góðir hlutir gerast hægt
og bítandi í golfinu með Hjörleifi.
Engum duldist sem sá þau saman
að þarna voru samhent hjón og af
þeim stafaði ljómi.
Efst í huga okkar er þakklæti
og minningar um gleðilegar
stundir með okkar kæru sam-
starfskonu Önnu Kristínu. Hún
gaf mikið af sér til allra í kringum
sig og verður sárt saknað.
Fyrir hönd starfsfólks Um-
hverfisstofnunar,
Kristín Linda Árnadóttir
og Sigrún Ágústsdóttir.
Mér er enn í fersku minni er ég
hitti Önnu Kristínu í fyrsta sinn.
Fyrir tuttugu og eitthvað árum,
átti erindi á skrifstofu Kvennalist-
ans og þar var mín kona, í hádeg-
ispásu frá störfum í bandaríska
sendiráðinu.
Við heilsuðumst, skiptumst
stutt á praktískum upplýsingum
um hagi og stöðu en fyrr en varði
vorum við komnar í hörkuumræð-
ur um alþjóðamál; öryggi heims-
ins og lykilhlutverk kvenna í að
tryggja framtíð jarðarbúa.
Ég man svo glöggt hvað ég
varð hrifin af henni; rökfestunni,
þekkingunni, óbilandi ástríðunni;
augun geisluðu þar sem hún sat
með salatbakkann sinn. Ég man
ég hugsaði: Vá, þetta er æðisleg
stelpa.
Og það var hún. Alla tíð. Gef-
andi vinkona. Falleg, skemmtileg
kona með flottan húmor. Fag-
manneskja fram í fingurgóma í
öllum þeim störfum sem hún tók
að sér. Velmenntaður, skarpur
analítíker með ríka réttlætis-
kennd. Og síðast en ekki síst fem-
ínisti í allri sinni dýrð; í nálgun á
lífið, tilveruna, samfélagið, rétt-
lætið. Enda sýndi hún og sannaði
að hún hafði kjark og þor til að
taka feminíska baráttu við hvaða
„garða“ sem er – og sigra þá.
Anna Kristín áorkaði meiru en
margur gerir á tæpum fimmtíu ár-
um. Hún bjó lengi erlendis, bæði
sem barn og fullorðin kona, og öðl-
aðist ferska sýn á lífið. Hún tók
virkan þátt í starfi Kvennalistans
og Reykjavíkurlistans og átti rík-
an þátt í að innleiða þau gildi og
stefnu sem þessi tvö stjórnmálaöfl
stóðu fyrir. Gildi og stefnu sem
ennþá má finna víða og voru í raun
upphafið að nýrri stjórnmálahefð
á Íslandi.
Hún stýrði háskólaskrifstofu
Listaháskóla Íslands og lagði mik-
ið af mörkum til uppbyggingar
hans. Hún sérhæfði sig á síðari ár-
um í umhverfismálum, var stjórn-
arformaður Vatnajökulsþjóðgarðs
á fyrstu árum hans og drifkraftur í
friðlýsingum landsvæða á vegum
Umhverfisstofnunar. Og hér er
aðeins fátt eitt talið.
Við söknum hennar sárt, allir
vinir hennar, og óskum þess heitt
að svona hefði ekki farið. Dýpstur
er þó söknuður krakkanna hennar
flottu þriggja, stjúpdóttur, elsku
Hjörleifs, bræðra, föður og frænd-
garðs alls og sendi ég þeim öllum
mínar hlýjustu samúðarkveðjur.
Ég mun minnast Önnu Kristínar
eins og ég hitti hana fyrst; geisl-
andi flottrar konu sem gerði alla
ríkari, sem kynntust henni.
Ása Richardsdóttir.
Anna Kristín Ólafsdóttir var
einn þeirra nema sem gáfu lífinu
við lagadeild Háskólans í Reykja-
vík lit. Hún kom í meistaranám
með grunngráðu í öðru: Snagg-
araleg, dökkhærð kona, afburða
vel lesin og máli farin, greind, upp-
byggileg við samnemendur sína
og okkur kennarana og skemmti-
leg. Hún var framúrskarandi
nemandi og ein þeirra sem kenn-
arar miðuðu sig gjarnan við: Ef
Anna Kristín skildi ekki, þá voru
útskýringar sennilega ófullnægj-
andi. Hún var líka ein þeirra sem
gáfu af sér, sagði frá eigin reynslu
og hafði góð áhrif á umræður um
lagaleg viðfangsefni.
Við minnumst Önnu Kristínar
með virðingu og hlýju og vottum
aðstandendum innilega samúð.
Margrét Vala Kristjánsdóttir
og Ragnhildur Helgadóttir.
Þar sem jökulinn ber við loft
hættir landið að vera jarðneskt
en jörðin fær hlutdeild í himninum
þar búa ekki framar neinar sorgir
og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg
þar ríkir fegurðin ein
ofar hverri kröfu.
(Halldór Laxness)
Á Látrabjargi horfum við suður
yfir Breiðafjörð á Snæfellsjökul.
Útsýnið er fagurt og umhverfið er
magnað. Það er engu líkara en að
orkan frá jöklinum nái alla leið yfir
á Látrabjarg, slíkur er krafturinn
sem fylgir þessu svæði. Sagan er
við hvert fótmál, fornminjar sem
segja merkilega sögu um útræði
og lífsbaráttu sem var harðari en
hörð, örlítil mistök gátu kostað
menn lífið. Og þarna er einn
merkilegasti staður landsins, ef
ekki heimsins þegar horft er til
náttúrufars og fuglalífs. Síðustu
tvö ár hefur Anna Kristín unnið
ásamt samhentum hópi fólks að
deiliskipulagi og friðlýsingu
Látrabjargs. Anna hafði mikla
reynslu af verkum sem þessu. Það
var mikill fengur fyrir Vestur-
byggð að Önnu Kristínu Ólafs-
dóttur skyldi vera falið þetta
veigamikla hlutverk f.h. Umhverf-
isstofnunar. Verður ekki ofsagt að
Anna Kristín á stærstan þátt í því
hversu vel vinnan hefur gengið.
Hennar fallega og heillandi fram-
koma, skynsemi og stefnufesta
hefur komið verkefninu lengra en
marga óraði fyrir. Önnu Kristínar
er sárt saknað úr hópnum okkar
sem hefur tengst þéttum böndum
við þetta vandasama og mikilvæga
verk.
Síðast hittumst við á Patreks-
firði nú í vor þar sem enn einum
áfanga var náð í vinnunni og allt
var bjart. Við glöddumst yfir því
að Anna Kristín væri með okkur
enda höfðum við ekki farið var-
hluta af veikindum hennar og von-
uðum að sólin væri farin að skína í
hjarta hennar – allt benti til þess.
Hún var að venju glæsileg og
brosandi, með eldrauða varalitinn
sinn og lék við hvern sinn fingur.
Samstarfskonur mínar dásömuðu
þessa fallegu og skemmtilegu
konu sem hlyti að vera langhlaup-
ari því hún væri svo flott, sem hún
auðvitað var. Á dagskrá var Flór-
ídaferð með fjölskyldunni og ís-
lenska vorið og hún var full til-
hlökkunar og orku. Við
kvöddumst og ákveðið var að hitt-
ast fljótt til að ræða næstu skref í
vinnunni okkar og njóta samvista
enda orðnar góðar vinkonur. En
eigi má sköpum renna. Sólin í
hjarta hennar Önnu skein ekki
eins skært og við héldum – eða
vonuðum – og síðustu vikur höfum
við staðið frammi fyrir mörgum
áleitnum spurningum en svörin
eru sýnu færri.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Vest-
urbyggðar, skipulagshópsins á
Látrabjargi og fjölskyldu minnar
vil ég þakka okkar kæru vinkonu
fyrir samfylgdina. Ástvinum
hennar vottum við okkar dýpstu
samúð. Önnu Kristínar Ólafsdótt-
ur verður ætíð minnst með virð-
ingu og hlýju.
Ásthildur Sturludóttir,
bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Það er þyngra en tárum taki að
kveðja Önnu Kristínu Ólafsdóttur,
efniskonu á besta aldri. Óraun-
verulegt og ósanngjarnt er það
líka. Tómleikatilfinning ríkir, ekk-
ert virðist hægt að gera. Erfiðast
er vitanlega fyrir hennar nánustu
að halda áfram og takast á við lífið
sem ekki stöðvast.
Anna Kristín Ólafsdóttir var
aðstoðarmaður borgarstjóra og
minn nánasti samstarfsmaður í
tæpt ár árið 2003. Hún var glað-
sinna, samviskusöm og uppörv-
andi í öllum sínum verkum. Hún
leiddi mig um lendur opinberrar
stjórnsýslu og vann málum fram-
gang af lagni. Hún var vel liðin af
samstarfsfólki sínu í Ráðhúsinu og
var þekkt að því að vera sönn í sín-
um verkum. Dagurinn gat hafist á
erfiðu verki, sem síðan var leitt til
lykta. Um miðjan dag kom hún,
hoppandi inn, jafnfætis, með upp-
örvandi frétt, svo glöð að ekki var
hægt annað en að hrífast með.
Næst sest niður á ný með erfitt
viðfangsefni. Fyrstu viðtölin voru
undirbúin, hún tók af skarið:
„Þetta tek ég með þér.“ Gott var
að fá slík holl ráð, gefin af einlægni
með hagsmuni annarra að leiðar-
ljósi. Ekki sérhagsmuni heldur
starf heildarinnar. Hún var jafn-
aðarmaður, eins og sagt var í forn-
sögunum þegar mikið lá við að
mæra góðan dreng.
Lífið er flókið og oft óskiljan-
legt. Hvernig getur grunni og
staðfestu verið kippt burt á
skömmum tíma? Margar spurn-
ingar vakna en það verður fátt um
svör.
Við Margrét vottum öllum að-
standendum samúð okkar og biðj-
um að þeim auðnist að halda á lofti
jákvæðum minningum um þær
góðu stundir sem Anna Kristín
gaf þeim.
Þórólfur Árnason
Þegar ég sit hér eitt vorkvöld í
Reykjavík og skrifa þessi orð verð
ég að berjast við óraunveruleika-
tilfinningu þá sem ég hef verið að
upplifa frá 12. apríl. Ég trúi því
ekki ennþá að ég eigi ekki eftir að
tala aftur við eða hitta Önnu Krist-
ínu, ástkæra vinkonu mína, en það
er erfitt að hugsa sér gjörvulegri
konu. Í gegnum hugann fara svo
margar hugsanir. Minningin um
hana er svo ótrúlega björt og fal-
leg því að hún var allt í senn falleg,
greind og hæfileikarík. Allt frá því
við kynntumst um og upp úr tví-
tugu og þegar við urðum vinkon-
ur, sem gerðist eiginlega í eldhús-
inu hennar í litlu íbúðinni á
Víðimelnum þegar ég hjálpaði
henni að þrífa íbúðina fyrir flutn-
ingana yfir í Barmahlíðina þegar
við hlógum saman heila nótt yfir
þrifunum. Frá því hefur alltaf ver-
ið strengur á milli okkar sem hef-
ur ekki slitnað þó að við höfum
verið hvor í sínu landinu eða í okk-
ar daglega stússi.
Þegar ég rifja upp samveru-
stundir okkar hér og þar á Íslandi,
í Madison þangað sem ég heim-
sótti hana á námsárunum, í New
York þar sem við skokkuðum
saman í Central Park og fannst
við vera miklir heimsborgarar og
einnig í ógleymanlegri ferð til Pét-
ursborgar sem við fórum í árið
2006 þá brosi ég í gegnum tárin.
Samvistir okkar voru með fjöl-
skyldunum, stórum og smáum
börnum og líka bara við stelpurn-
ar. Anna Kristín var yndisleg vin-
kona, hlý, raungóð, hjálpsöm og
alltaf reiðubúin til að sjá nýja hlið-
ar á tilverunni. Það var alveg
dæmigert fyrir hana að þegar ég
var að flytja í nýtt hús í janúar
2007 – kasólétt að þriðja barninu
þá var hún mætt til að hjálpa mér
að tína fötin úr skápum og raða
þeim í nýja húsinu og skipaði mér
að sitja og horfa á sig.
Í allri sorginni er samt falin
mikil birta í minningunni og þeirri
gæfu að hafa fengið að kynnast
Önnu Kristínu og hafa fengið að
vera vinkona hennar.
Elsku bestu Hjörleifur, Lísa
Margrét, Eysteinn og Bjarki og
aðrir aðstandendur, ég og mín
fjölskylda vottum ykkur innilega
samúð.
Tanya Zharov.
✝ Margrét Guð-björnsdóttir
fæddist í Bjarnar-
nesi, Kaldrana-
neshr., Strand. 30.
apríl 1928. Hún lést
á Dvalar- og hjúkr-
unarheimilinu
Höfða Akranesi 15.
maí 2013.
Foreldrar Mar-
grétar voru Guð-
björn Bjarnason, f.
26. sept. 1880 á Eyjum, Kaldr-
ananeshr., Strand, d. 25.o kt.
1952 og Katrín Kristín Guð-
mundsdóttir, f. 19. okt. 1885 á
Klúku, Kaldrananeshr., Strand,
d. 20. jan. 1967. Systkini Mar-
grétar voru Gunnar Magnús, f.
1910, Sigríður, f. 1911, Bjarni
Kristófer, f. 1913, Anna Mikael-
ína, f. 1915, Kristbjörg Róselía, f.
1916, Elín Rósa, f. 1918, Arn-
grímur, f. 1920, Guðrún, f. 1922,
Þorsteinn Gunnar, f. 1925 og
Torfi, f. 1929. Öll systkini Mar-
steinssyni, börn þeirra eru Arn-
ór, Ingi Þór og Sunna Rún, b) Ás-
laug Ragna, í sambúð með
Þórólfi Guðmundssyni, börn
þeirra eru Bryndís Rún, Birna
Rún og Daníel Rafnar, c) Hrefna
Rún, gift Hlina Baldurssyni, börn
þeirra eru Kristófer Áki, Erik
Vilhelm og óskírð, d) Jón Vil-
helm, í sambúð með Berglindi
Pétursdóttur, dóttir þeirra er
Maren Rún. 3) Guðbjörn, f. 26.1.
1958, kvæntur Þóru Sigurðar-
dóttur, sonur þeirra er Tryggvi
Björn, börn Þóru af fyrra sam-
bandi eru Lilja og Sigurður. 4)
Tryggvi Grétar, f. 23.5. 1970,
kvæntur Þóreyju Þórarins-
dóttur, börn þeirra eru Maren
Ýr, Andri Már og Sunna Lind.
Margrét vann lengst af í eld-
húsinu á Sjúkrahúsi Akraness.
Einnig vann hún mörg sumur hjá
Sigurði Gunnarssyni í gróðr-
arstöðinni. Margrét var mikil
handavinnukona og hafði gaman
af fótbolta og söng. Margrét og
Tryggvi bjuggu lengst af á Jað-
arsbraut 33 en Margrét flutti ár-
ið 2012 að Dvalar- og hjúkrunar-
heimilinu Höfða á Akranesi.
Útför Margrétar fer fram frá
Akraneskirkju í dag, 22. maí
2013, og hefst athöfnin kl. 14.
grétar eru látin.
Margrét giftist 8.
maí 1954 Tryggva
Björnssyni frá Smá-
hömrum, Kirkju-
bólshr., Strand., f. 1.
júní 1927. Foreldrar
hans voru Björn
Halldórsson, f.
1902, d. 1932 og El-
ínborg Steinunn
Benediktsdóttir, f.
1896, d. 1980. Börn
Margrétar og Tryggva eru: 1)
Björn Halldórs, f. 3.8. 1949, d.
18.1. 2012, kvæntur Helgu
Bjarnadóttur, börn þeirra eru a)
Bjarni Ingi, giftur Ingibjörgu
Barðadóttur, börn þeirra eru
Björn Ingi og Helgi Rúnar, b)
Guðrún Hallfríður, í sambúð með
Bergi Jónssyni, c) Elínborg, í
sambúð með Sturla Magnússyni,
synir þeirra eru Viktor og Mar-
inó. 2) Bryndís, f. 24.5. 1953, gift
Áka Jónssyni, börn þeirra eru, a)
Margrét, gift Sigurði Þór Sigur-
Elsku mamma. Ég var ekki
stór þegar ég kom til ykkar upp á
Akranes, og einhvern veginn var
ég alltaf litli strákurinn hennar
Möggu og er kannski enn. Upp-
eldið var mest á þínum herðum
enda sagði pabbi stundum við þig
þegar ég var sem erfiðastur á ung-
lingsárunum: „svona vildir þú ala
hann upp“ og held ég að það hafi
ekki verið neitt grín að ala upp
kenjóttan og mislyndan dreng
sem datt stundum í „Gorkytime“.
Ég man samt aldrei eftir öðru en
að faðmurinn þinn ljúfi hafi verið
opinn alla daga og allar nætur.
Þegar við Þórey hófum búskap
uppi á Skaga ætlaðir þú aldeilis að
hugsa vel um strákinn og fjöl-
skyldu hans með því að bjóðast til
að sjá um allan þvott, strauja og
önnur tilfallandi heimilisverk
meðan við værum í vinnu. Þér hef-
ur trúlega ekki líkað handbragð
okkar nógu vel. Ég skil ekki enn
þann dag í dag hvers vegna mín
heittelskaða afþakkaði þetta góða
boð.
„Illu er best af lokið,“ sagðir þú
þegar við tilkynntum þér áform
okkar um fyrirhugað brúðkaup
síðasta sumar, það vantaði ekkert
upp á orðheppnina. En mikið er ég
glaður, mamma mín, að þú náðir
að taka þátt í þeim stóra degi með
okkur, þar varst þú geislandi og
sjálfri þér lík þrátt fyrir að veik-
indin væru að byrja að taka yf-
irhöndina.
Alltaf fannst börnunum okkar
yndislegt að koma í heimsókn til
ykkar pabba á Jaðarsbrautina þar
sem dótakassinn var tekinn fram
og nýbakaðar pönnukökur voru á
borðum. Þau sakna góðrar ömmu.
Elsku mamma, þú varst mín
stoð og stytta í gegnum lífið og ég
mun sakna þín út í það óendan-
lega. Ég veit að þú ert komin á
betri stað og án efa tekur Bjössi
vel á móti þér. Ég læt hér fylgja
með textabrot sem ég veit að þér
þótti svo fallegt og lýsir hug mín-
um til þín þessa stundina.
„Ég er undir þínum áhrifum í dag og
verð áfram enginn vafi er um það.“
(Stefán Hilmarsson.)
Þinn
Tryggvi Grétar.
Elsku amma Magga. Við systk-
inin erum afar þakklát fyrir hvað
þú hefur verið stór hluti af okkar
lífi í langan tíma. Þú varst einstak-
lega hjálpsöm og vildir allt fyrir
okkur gera. Það var sama hvort
það var að gæta langömmu-
barnanna, prjóna sokka, vettlinga
eða aðstoða á annan hátt. Það voru
ófáar heimsóknirnar á Jaðar-
sbrautina til ykkar afa þar sem
boðið var upp á slátur og heimsins
besta grjónagraut. Þegar við kom-
um í kaffi til ykkar var alltaf eitt-
hvað nýbakað og gott, pönnukök-
urnar þínar voru þar í miklu
uppáhaldi hjá okkur. Þú varst
glæsileg kona, alltaf svo fín og
flott, þú varst algjör snillingur í
höndunum og eftir þig liggja ófáar
lopapeysurnar, heklaðir dúkar og
fleira fallegt. Meðan þú hafðir
heilsu til varstu dugleg að fylgjast
með okkur í fótboltanum. Þú og afi
mættuð á marga leiki og var gott
að finna fyrir stuðningi ykkar. Við
vorum þó ekki alltaf sammála um
boltann og ósjaldan litum við
hvort á annað brosandi yfir skoð-
unum þínum.
Þegar þú vannst í eldhúsinu á
sjúkrahúsinu fannst okkur ansi
spennandi að koma í heimsókn og
fylgjast með þér að störfum og fá
að velja sér eitthvað úr búrinu.
Frá því að við munum eftir okk-
ur höfum við haldið jólin með þér
og afa, bæði á aðfangadagskvöld á
Víðigrundinni og svo hangikjötið á
Jaðarsbrautinni á jóladag. Alltaf
var mikið spilað, hlegið og var
bingóið stór partur af hátíðinni og
slógu happaþrennurnar þínar
ávallt í gegn.
Á okkar yngri árum dvöldum
við mikið hjá ykkur afa. Við fórum
oft niður á Langasand og fylgd-
umst með afa synda í sjónum,
byggðum sandkastala, gerðum
stíflur og annað skemmtilegt. Svo
var komið upp til þín þar sem þú
hafðir alltaf tíma fyrir okkur.
Síðastliðið ár dvaldir þú á Dval-
arheimilinu Höfða þar sem hugsað
var vel um þig. Hinn 30. apríl sl.
varðst þú 85 ára og haldin var
veisla þar sem við komum og
glöddumst með þér, fyrir það er-
um við þakklát.
Að leiðarlokum viljum við
þakka þér fyrir allt sem þú hefur
gert fyrir okkur og kennt í gegn-
um tíðina.
Elsku afi, mamma, pabbi, Guð-
björn, Þóra, Tryggvi Grétar, Þór-
ey, Helga og fjölskyldur, missir
okkar er mikill en minningarnar
margar og fallegar um frábæra
konu.
Takk elsku amma,
Margrét, Áslaug Ragna,
Hrefna Rún og
Jón Vilhelm.
Elsku amma, ég mun sakna þín
óendanlega mikið. Ég mun sakna
þess að koma á Jaðarsbrautina og
fá bestu pönnukökur í heiminum.
Ég veit að þú vildir ekki lifa svona
veik þannig að ég vona að þú sért á
betri stað núna. Ég á erfitt með að
hugsa mér líf mitt án þín.
Ástarkveðja,
Maren Ýr.
Margrét
Guðbjörnsdóttir
HINSTA KVEÐJA
Elsku amma Magga.
Við eigum eftir að sakna
þín og sakna þess að koma
til þín og afa á Jaðarsbraut
og fá bestu pönnukökur í
heimi. Vonandi líður þér vel
núna. Ástarkveðja,
Andri Már og Sunna Lind.