Morgunblaðið - 23.07.2014, Síða 21

Morgunblaðið - 23.07.2014, Síða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. JÚLÍ 2014 ✝ IngveldurEyjólfsdóttir fæddist 29. júní 1938 í Reykjavík. Hún lést á Land- spítalanum við Hringbraut 15. júlí 2014. Foreldrar henn- ar voru Laufey Árnadóttir frá Teigi í Grindavík, f. 18.7. 1921, d. 25.11. 1996 og Eyjólfur Kol- beins Steinsson frá Miðfirði, V- Húnavatnssýslu, f. 22.9. 1911, d. 2.11. 1952. Seinni eig- inmaður Laufeyjar var Gísli Bjarnason, f. 13.5., d. 27.4. 1988. Systkini hennar eru Hel- ena Marín Eyjólfsdóttir, f. 23.1. 1942, maki Finnur Eydal, f. 25.3. 1940, d. 16.11. 1996, Eygló Eyjólfsdóttir, f. 3.7.1949, sambýlismaður Ásgeir Sveins- son, f. 25.6. 1954, sammæðra: Eyjólfur Bjarni Gíslason, f. 13.9. 1954, kvæntur Mary Jane Rupert, f. 3.8. 1954, Bjargey Gígja Gísladóttir, f. 12.1.1958, sambýlismaður Ófeigur Sig- urðsson, f. 8.4. 1953, samfeðra: 20.1. 1994, c) Elva Margrét, f. 16.5. 2001. 3) Elentínus, f. 22.1. 1965, kvæntur Laritzu Pinero Ricardo, f. 7.1. 1974, dætur þeirra eru a) Sheila Barban Pi- nero, f. 13.10. 1994, sambýlis- maður Jóhann Magnússon, f. 15.5. 1991, b) Margrét, f. 2.8. 2010. 4) Sævar, f. 29.5. 1972, kvæntur Steinunni Snorradótt- ur, f. 10.5. 1972. Börn þeirra eru a) Rannveig Hlín, f. 1.9. 1998, b) Lína Rut, f. 4.12. 2009, c) Snorri Þór, f. 16.2. 2011. Ingveldur ólst upp í húsinu Höfðaborg og síðar fluttist hún í Stórholt 19 í Reykjavík. Hún gekk í Laugarnesskóla og síðar lá leiðin í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. 17 ára gömul kynnist hún eiginmanni sínum og hófu þau búskap stuttu síðar í lítilli kjallaraíbúð við Brunn- stíg 2 í Keflavík. 18 ára gömul eignast hún sinn fyrsta dreng af fjórum. Leiðin lá síðan á Vallagötu 4 og lengstan tíma þeirra búskapar bjó fjölskyldan að Baugholti 15 sem þau byggðu 1972. Eftir fráfall Sverris flutti Ingveldur að Nón- vörðu 10 og bjó þar til dauða- dags. Ingveldur var heimavinn- andi húsmóðir alla sína tíð og sinnti sinni fjölskyldu af alúð og ást. Útför Ingveldar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 23. júlí 2014, kl.13. Reynir Jónsson (Eyjólfsson), ætt- leiddur, f. 1937. 2. júní 1962 gift- ist Ingveldur Sverri Elentínussyni, f. 10.8. 1937, d. 23.8. 1991, vörubifreiða- stjóra og síðar leigubifreiðastjóra. Synir Ingveldar og Sverris eru 1) Eyj- ólfur, f. 4.2. 1957, kvæntur Helgu Kristínu Guð- mundsdóttur, f. 25.5. 1961. Börn þeirra eru a) Guðmundur Árni, f. 10.6. 1983, sambýlis- kona Sunna Sigríður Guð- mundsdóttir, f. 3.7. 1990, dóttir þeirra er Helga Kristín. b) Ingveldur, f. 9.9. 1986, unnusti Skarphéðinn Njálsson, f. 30.4. 1987, c) Sævar Freyr, f. 17.7. 1993, kærasta Aníta Rut Adamsdóttir, f. 1.1. 1996. 2) Sverrir, f. 19.6. 1963, kvæntur Auði Óskarsdóttur, f. 14.1. 1967. Börn þeirra eru a) Sonja Ósk, f. 3.8. 1989, unnusti Vikt- or Guðnason, f. 13.12. 1989, b) Eyjólfur, f. 2.9. 1992, kærasta Tinna Björk Stefánsdóttir, f. Þá hefur mamma kvatt þennan heim. Þegar ég horfi til baka er það fyrsta sem kemur í huga minn hversu einstök kona hún var. Hún bar hag pabba og okkar bræðr- anna fyrir brjósti og var alltaf boð- in og búin að gera allt fyrir okkur. Eftir að pabbi lést fyrir 23 árum snérist líf hennar um okkur syn- ina og fjölskyldur þeirra, enda var hún alltaf með okkur sama hvað var gert eða hvert var farið. Mamma var heimavinnandi húsmóðir og var alltaf heima þeg- ar ég kom heim úr skóla eða vinnu og það fyrsta sem hún spurði: „Ertu ekki svangur, Sævar minn?“ Hún hætti ekki fyrr en hún var búin að koma einhverju ofan í mig, það gerði hún alla tíð. Mamma var húsmóðir og sinnti því hlutverki eins og öllum öðrum, fullkomlega. Í hverri viku þreif hún húsið hátt og lágt, bakaði og þvoði gardínur svo allt yrði „spik and span“ fyrir helgina eins og hún orðaði það sjálf. Árið 1983, þá aðeins 45 ára gömul, fékk mamma alvarlegt heilablóðfall. Það hafði gríðarlega mikil áhrif á heilsu hennar og mikið var tekið frá henni við það, en með jákvæðninni og gleðinni náði hún undraverðum bata. Eftir það lenti mamma oft á sjúkrahúsi og okkur leist stundum ekki á blikuna, en alltaf reif hún sig upp og var mætt á rúntinn skömmu síðar. Í einni sjúkrahús- vist hennar sögðu hjúkrunarkon- urnar við mig að starfið væri mun væri léttara ef allir sjúklingar hefðu sömu jákvæðni og mamma hafði. Alltaf hrósaði hún starfs- fólkinu, hversu elskulegt það væri og maturinn góður. Við sögðum oft við hana að kokkurinn væri örugglega búinn að fá kauphækk- un eftir allt hrósið frá henni. Mamma kom nánast daglega í kaffi til okkar á bílaleiguna og settist niður til að spjalla við okk- ur. Oft og iðulega báðum við hana að skjótast með okkur þangað sem þurfti að sækja eða fara með bíla, það þótti henni gaman og ekki síður ánægjulegt að geta hjálpað til. Mamma hafði mikið gaman af að koma í heimsókn og sjá barnabörnin stækka og þrosk- ast. Alltaf lék hún við þau og fífla- ðist í þeim, henni var alltaf tekið fagnandi þegar hún bankaði þrisv- ar á forstofudyrnar og sagði halló með sinni mildu rödd. Oft æsti hún krakkana upp og þegar allt var komið að suðumarki stóð hún upp, sagði að nú væri kominn tími til að skella sér og taka smá rúnt. Undir það síðasta hrakaði heilsu hennar mikið og hefur hún eflaust verið hvíldinni fegin og að fá að hitta pabba loksins aftur. Ég vil þakka mömmu allt sem hún hefur gert fyrir mig og fjölskyld- una. Hennar verður sárt saknað en minnst með gleði og þakklæti. Sævar. Minning þín er ljós í lífi okkar. Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér. Hún heitast þig elskaði’ og fyrirgaf þér. Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf. Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf. (Ómar Ragnarsson) Þessi fallegi texti Ómars Ragn- arssonar hefði svo sannarlega get- að verið saminn um elskulega móður mína Ingveldi Eyjólfsdótt- ur. Í fáeinum orðum langar mig að minnast hennar. Hún var einstök kona á allan hátt, sem helgaði líf sitt uppeldi fjögurra kraftmikilla drengja. Meðan faðir okkar, Sverrir Elentínusson, vann lang- an vinnudag sinnti mamma heim- ilinu af kostgæfni, þannig var hún ávallt til staðar. Þegar ég lít til baka sé ég hversu dýrmætt það var að hafa hana heimavinnandi. Að loknum skóladegi, á yngri ár- um, streymdu vinirnir í heimsókn og heimilið minnti einna helst á leikskóla. Það var glatt á hjalla og með bros á vör reiddi mamma ávallt fram kræsingar í allan skar- ann. Heimili okkar var sannarlega kærleiksríkt og hjónaband for- eldra minna ástríkt og einstakt á marga vegu. Það eru mikil forrétt- indi að fá að alast upp við þær að- stæður, umvafinn ást og um- hyggju, sem var óendanleg. Eitt af aðalsmerkjum móður minnar var jákvæðni á öllum svið- um. Það lýsir sér best í því hvernig hún tókst á við erfið veikindi sem dundu yfir árið 1983. Á skömmum tíma náði hún undraverðum bata þrátt fyrir að útlitið hafi ekki verið gott. Enn á ný sá ég hversu sterk og heilsteypt kona hún var. Kvart- aði aldrei og sá ávallt björtu hlið- arnar á tilverunni, þrátt fyrir að brekkurnar á göngu lífsins hafi á köflum verið brattar. Faðir okkar lést langt um aldur fram, aðeins 54 ára að aldri. Það var fjölskyld- unni mikið áfall. Eftir stóð mamma sem klettur en bar harm sinn í hljóði og helgaði sig barna- börnunum, sem ljómuðu í hvert sinni sem þau sáu hana. Síðustu árin hrakaði heilsu hennar. Með æðruleysi og þessari óendanlegu jákvæðni sigraði hún hvert áfallið af öðru. Jákvæðni hennar var í raun æðri öllum skilningi. Á stundum hélt ég að hún ætti ekki afturkvæmt af sjúkrastofnun. Þá sem endranær kom hún okkur öll- um á óvart. Eftir fáeina daga var hún sest undir stýri á litla bílnum sínum og ók um götur bæjarins með bros á vör. Undanfarin ár var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga hana móður mína að sem nágranna. Það var mér dýrmætt að geta gengið til hennar dag hvern, heils- að og kvatt með kossi og endur- goldið henni þá ást og umhyggju sem hún færði mér á hverjum degi barnæskunnar. Nærveran færði henni einnig öryggi, en hún bjó ávallt ein eftir að pabbi féll frá. Fyrirmyndir eru okkur öllum mikilvægar. Það eru mikil forrétt- indi að hafa átt foreldra sem færðu manni endalausa ást, ör- yggi og hlýju. Betra veganesti er ekki hægt að hugsa sér og er ég þeim óendanlega þakklátur. For- eldrar mínir eru sú fyrirmynd sem ég horfi til í lífinu og er ég sannfærður um að við byggjum í betri heimi ef fleiri ættu svona góðar fyrirmyndir. Mamma þráði hvíld undir það síðasta. Hún bar það ekki á torg en við sem þekkt- um hana sáum hversu þjáð hún var. Þó svo að söknuðurinn sé sár er það huggun í harmi að hún þjá- ist ei meir. Það er erfitt að útskýra það fyrir fjögurra ára hnátu að amma Inga sé ekki lengur á meðal okkar. Það er okkar hlutverk að halda minningu hennar á lofti rétt eins og minningunni um Sverri afa. Minningunni um einstök hjón. Ég kveð nú móður mína í hinsta sinn, tárvotur og fullur þakklætis fyrir einstaka fórnfýsi og ást. Hvíl í friði, elsku mamma. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Þinn, Elentínus. Frá fyrstu tíð var elskuleg móðir mín, hún Ingveldur Eyjólfs- dóttir, stoð mín og stytta í lífinu. Hún var nú betur þekkt sem Inga. Hún var heimavinnandi húsmóðir alla sína tíð, móðir og eiginkona, sem gerði allt fyrir drengina sína fjóra og eiginmann. Pabbi vann alla tíð mikið og var mikið í burtu frá heimilinu þannig að allt heim- ilishald var á herðum mömmu. Hún var drottningin sem öllu réð, reglur voru skýrar og við prins- arnir vorum dekraðir frá fyrstu tíð. Alltaf var nóg að bíta og brenna, skúffukökur, jólakökur og heimabökuð brauð. Veislumatur í hvert mál. Þegar við strákarnir fórum síðan að vinna frekar ungir, var nestið vel útilátið, smurt brauð með eggjum og síld. Já, síldin hennar mömmu var einstök og við vorum vel dekraðir. Þegar árin liðu og við strákarnir tókum við Shell á Fitjum var hún mamma okkar oft kölluð „kakóskutlan“ því þegar kalt var kom hún reglulega með heitt kakó til okkar á græn- um Austin Mini. Mamma okkar var alltaf létt í lund, tók öllum erfiðleikum með brosi á vör og kvartaði aldrei und- an einu eða neinu. Í mörg ár hefur hún átt í miklum veikindum en þrátt fyrir það þá var aldrei „neitt að henni“. Aðrir voru veikir en hún aldrei. Hún bognaði, en brotnaði aldrei þegar mikið lá við og varð bara sterkari eftir því sem árin liðu. Síðustu árin var hún nokkurs konar bílstjóri bæjarins, rúntaði um bæinn endalaust eins og leigu- bílstjóri og stoppaði hér og þar í kaffi og með því. Hún var sælkeri, elskaði kökur og sætindi en best þótti henni að fá vel eldað lamba- læri eða hrygg. Mamma mín var yndisleg móð- ir og eiginkona og besta amma í heimi. Mátti ekki vamm sitt vita og auðgaði líf allra sem kynntust henni. Hennar verður sárt sakn- að. Hvíl í friði, elsku mamma mín, og megi englar alheimsins gæta þín. Eyjólfur Sverrisson. Nú er ferðalagi yndislegrar tengdamóður og ömmu á þessari jörð lokið. Ferðalag hennar ein- kenndist af gleði, bjartsýni, ást og umhyggju. Inga helgaði líf sitt eiginmanni, sonunum fjórum og heimilinu. Hennar mesta yndi var að vera með sínum nánustu og gleðjast. Þegar afmæli, ferming eða annað tilefni var í vændum þar sem hægt væri að slá upp veislu var Inga full tilhlökkunar. Hún beið spennt eftir að fá að hitta alla, spjalla og síðast en ekki síst að fá góðar veitingar, enda alltaf fyrst að standa upp þegar búið var að segja „gjörið svo vel“. Hún naut þeirra stunda þar sem allir voru saman og fannst henni fólk stundum rjúka of snemma heim enda sat hún þangað til öllu var lokið. Eitt af því sem Inga gerði mikið af og færði henni mikið frelsi var að keyra um og skoða bæjarfélag- ið sitt. Oft þegar hún kom í heim- sókn sagði hún: „á ekki að taka rúnt í dag?“. Hún naut þess að rúnta og borða góðan mat. Að bjóða henni í mat var það besta sem hægt var að gera fyrir hana. Það var nánast sama hvað var í matinn, aldrei hafði hún fengið neitt jafn gott. Hún var vanaföst með eindæmum og hægt hefði verið að stilla klukkuna eftir henni. Inga tók sína vanalegu bíl- túra og yfirleitt á sama tíma dags. Um helgar kom hún alltaf rétt upp úr eitt, fékk sér kaffi og settist í spjall. Inga hafði gaman af barna- börnunum og var alltaf til í að fífl- ast í þeim og leika við þau. Hún söng mikið fyrir börnin og kenndi þeim þulur og söngva. Oft var mikið fjör á heimilinu þegar hún kom og svo sagði hún: „þau eru svo lífleg og skemmtileg“. Heilsa Ingu var ekki eins og best var á kosið og átti hún þykka og mikla sjúkraskýrslu. Þótt hún færi á sjúkrahús og það þyrfti eitt- hvað að hjálpa til við að líkaminn yrði eins góður og kostur var á þá var hún alltaf jákvæð og sagðist strax vera orðin miklu betri. Oft grunaði mann að hún segðist vera betri en raunin var, sú jákvæðni og sannfæringarkraftur sem hún hafði kom henni hvað eftir annað á fætur og heim fyrr en áætlað hafði verið. Eftir að Inga fékk heila- blóðfallið sagði hún oft önnur orð en hún hugsaði sem hljómaði skemmtilega fyrir þá sem heyrðu. Þegar hún áttaði sig á að hún hafði sagt einhverja vitleysu var hún fyrsta manneskjan til að hlægja að því. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér og hló manna mest þeg- ar skondin tilvik komu upp. Inga hafði mikla unun af að vera með barnabörnunum og tók Rannveigu minni eins og sínu eig- in strax frá byrjun, enda þótti henni vænt um að Rannveig kall- aði hana alltaf ömmu sína. Börn- unum fylgdist hún náið með og þeirra framförum og þroska. Lína Rut og Snorri Þór sitja eftir með margar spurningar um ömmu sem við reynum að svara eftir bestu getu. Nú er amma engillinn þeirra sem passar þau rétt eins og afar þeirra gera. Inga hefur haldið af stað í ann- að og meira ferðalag. Hún var tilbúin að fara í þá ferð, hitta Sverri og aðra sem hafa farið á undan. Við þökkum henni allt sem hún hefur gefið okkur. Steinunn, Rannveig Hlín, Lína Rut og Snorri Þór. Elskuleg tengdamóðir mín hún Inga er látin. Ég trúi þessu nú eig- inlega ekki enn þar sem hún hefur verið stoðin í mínu lífi frá því ég var 15 ára gömul. Það var jú þann- ig að þegar foreldrar mínir fluttu til Bandaríkjanna þá flutti ég inn til Ingu þar sem elsti sonur henn- ar, hann Eyfi, var kærastinn minn. Í tæp 40 ár hef ég haft hana Ingu mína bæði sem vin og sem tengdamóður. Hún var einstök manneskja sem gerði öllum jafnt undir höfði, fór ekki í manngrein- arálit og talaði ekki illa um einn eða neinn. Hún kenndi mér að elda og baka, studdi mig í hvívetna alla tíð, þoldi mína galla og kvart- aði aldrei. Aldrei var hún neikvæð eða tuðandi sem tengdamóðir, heldur var hún uppbyggjandi og full af ást. Við ferðuðumst mikið saman bæði hér heima og erlendis og alltaf var hún jafn jákvæð og þægileg í umgengni. Ég á henni mikið að þakka. Hún var alltaf tilbúin að passa og aðstoða eftir því sem hægt var, kvartaði aldrei þegar beðið var um aðstoð, alltaf tilbúin. Barna- börnin voru hennar yndi og naut hún þess að stjana við þau eftir því sem tímar leyfðu. Elsku Inga mín, kærar þakkir fyrir allt, þú varst yndisleg. Helga Kristín Guðmundsdóttir. Hún Inga systir mín er dáin. Þrátt fyrir veikindi undanfarinna ára kom andlát hennar í raun á óvart, alltaf hafði hún náð sér á undraverðan hátt og einhvern veginn töldum við að það sama myndi gerast núna. En kallið kom og líklega var hún bara sátt við að fá að fara til Sverris síns. Inga var elst af systkinahópn- um sem samanstóð af þremur dætrum af fyrra hjónabandi mömmu, Laufeyjar Árnadóttur með Eyjólfi Kolbeins Steinssyni; Ingu, Helenu og Eygló og svo okkur Edda sem erum fædd í seinna hjónabandi hennar með Gísla Bjarnasyni. Inga var heilum 20 árum eldri en ég og við því ekki aldar upp saman. Bæði hún og Helena systir voru löngu fluttar að heiman og búnar að stofna fjölskyldur þegar ég man fyrst eftir mér. Elsti sonur Ingu, Eyfi, er reyndar árinu eldri en ég sem gerði það að verkum að hann bættist á einhvern sjálfsagð- an hátt í systkinahópinn okkar. Sem fyrsta barnabarn mömmu var hann mikið hjá okkur og við Eygló, Eddi og Eyfi brölluðum margt saman á þessum árum, ind- íánaleikir og byssuleikir það minnisstæðasta. Og svo bættust synirnir við hver af öðrum hjá þeim heiðurshjónum, Ingu og Sverri; Sverrir yngri kom næstur, síðan Elli og að síðustu Sævar og þá fékk stóra frænka stundum það hlutverk að passa. Það var mikill samgangur við heimili Ingu og Sverris, sunnu- dagsbíltúrar til Keflavíkur voru algengir enda þau hjónin höfð- ingjar heim að sækja. Inga var húsmóðir af guðs náð og ef ridd- arakrossar væru veittir fyrir hús- móðurstörf hefði hún svo sannar- lega átt að fá einn slíkan. Matargerð og bakstur lék í hönd- um hennar, enda veitti ekki af, heimilið stórt og mikill gestagang- ur alla daga. Ég var svo heppin að fá oft að gista hjá Ingu systur á þessum árum og tengdist því fjöl- skyldunni meira en ella. Ekki var ég nú alltaf sátt við það að Inga reyndi að taka sér móðurvald yfir litlu systur og siða hana til en ef- laust hefur ekki veitt af. Inga var sannfærð um að stað- ur móðurinnar væri inni á heim- ilinu við að hlynna að fjölskyld- unni. Við systur vorum nú ekki alltaf sammála um þessi mál þar sem ég var svona frekar höll undir kvenréttindabaráttuna. En Inga var ákveðin kona þrátt fyrir alla ljúfmennskuna og þegar ég seinna fór að vinna utan heimilis með ung börn ávítaði hún mig og sagði að ég ætti ekki að vinna svona mikið. Og kannski hafði hún bara rétt fyrir sér, að minnsta kosti hafa synir hennar staðið sig afar vel í lífinu og hugmyndafræði Ingu skilað sér til fjölskyldna þeirra. Sambandið minnkaði svolítið þegar árin liðu og hver fór að sinna sínu í lífinu. Alltaf héldum við þó góðu sambandi, sérlega minnisstætt er 75 ára afmæli Ingu síðasta sumar þar sem nánasta fjölskylda hittist og átti góða stund saman í Skorradalnum sem og fjölskyldukaffið sem við afkom- endur mömmu héldum fyrir síð- ustu jól í Fannafold. Núna eru þetta dýrmætar stundir í minn- ingunni. Samúðarkveðjur sendi ég son- um Ingu og fjölskyldum þeirra. Missir þeirra er mikill, kletturinn í lífi þeirra er horfinn á braut. Bjargey Gísladóttir. Vinkona okkar hún Inga eða „tengdó“ eins og við oft kölluðum hana er farin frá okkur eftir erfið og löng veikindi. Við höfum þekkt hana Ingu í fjöldamörg ár eða frá þeim tíma sem systir mín hún Helga fluttist inn til hennar fyrir um 40 árum. Eðlilegt þótti mér að kalla hana bara tengdó þar sem hún var tengdamóðir systur minn- ar, munaði engu að bæta einni við. Inga var yndisleg manneskja, mikill gleðigjafi og viskubrunnur sem öllum vildi vel. Það hafa verið forréttindi að eiga hana sem vin- konu í langan tíma, hlusta á sög- urnar hennar og ræða við hana um tilgang lífsins. Við vorum svo heppin að fá að vera ein af „stöppustöðunum“ hennar þegar hún rúntaði um bæ- inn á bílnum sínum. Hún kom reglulega í heimsókn til okkar og hver sú stund var dýrmæt og ætíð okkur til gleði og ánægju. Hún var vinur okkar beggja, dásamleg í alla staði, auðgaði líf okkar og gladdi með allri sinni visku og kímni. Elsku Inga, kærar þakkir fyrir vináttuna, hláturinn og einlægnina. Við eigum eftir að sakna þín. Hvíl þú í friði, elsku vin- kona. Sólveig og Friðjón. Ingveldur Eyjólfsdóttir  Fleiri minningargreinar um Ingveldi Eyjólfsdóttur bíða birtingar og munu birt- ast í blaðinu næstu daga. HINSTA KVEÐJA Amma var kona sem gaf lífinu lit, full af kærleik, ást og umhyggju. Amma var ætíð svo ljúf og góð og alltaf hún var til staðar. Hún huggaði ef illa fór, hressti okkur og kætti. En þó á móti blési, einkenndi jákvæðni, gleði og aðdáunarverður styrkur hana alla tíð. Svo ótal margs er að minnast og geymum við dýrmætar minningar í hjörtum okkar. Hönd þín snerti sálu okkur og fót- spor þín liggja um líf okkar um ókomna tíð. Eitt að lokum amma: Bond, James Bond! Við elskum þig. Sonja Ósk, Eyjólfur og Elva Margrét.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.